22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. til laga um Áburðarverksmiðju ríkisins, sem er á þá lund, að við Áburðarverksmiðjuna skuli starfa samstarfsnefnd skipuð þremur fulltrúum frá hvorum aðila, stjórn verksmiðjunnar og starfsliði hennar, ásamt jafnmörgum varamönnum. Ég vil taka það fram til skýringar, að ég hef á öðrum vettvangi flutt sams konar till. varðandi Sementsverksmiðju ríkisins og kemur það raunar fram í frv. um þá verksmiðju, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir þetta þing, enda þótt sú till. næði ekki meiri hl. í þeirri n., sem undirbjó þetta frv. Á síðari árum hefur verið mjög mikið talað um atvinnulýðræði, og virðist vera mikill áhugi á því í öllum stjórnmálaflokkum, að því er bezt verður séð. Hér á landi hefur þó afar lítið verið gert til þess að reyna slíkt lýðræði, og er því tími til kominn til þess, að við notum þau tækifæri, sem okkur gefast, til þess að stíga þar fyrstu skrefin. Á síðustu árum hafa samstarfsnefndir verið það form atvinnulýðræðis, sem mest hefur verið notað í nágrannalöndum okkar sérstaklega á Norðurlöndum. Þegar ég flutti þessa till. fyrst, þá hafði ég að vísu ekki séð umrædda skýrslu fimmmenninganna sem fóru á ráðstefnu í Osló. Ég vissi ekki um þeirra viðhorf eða þeirra röksemdir, en ég hef séð þá skýrslu síðar. Þar eru m.a. þær upplýsingar, að í Danmörku starfi nú um 650 slíkar samstarfsnefndir í stærri fyrirtækjum. Hlutverk samstarfsnefndanna á að vera að efla samvinnu fyrirtækisins og starfsliðs þess, vera báðum til ráðuneytis, gera till. um bættan aðbúnað, heilbrigði og öryggi starfsliðs og efla hagkvæman rekstur fyrirtækisins. Slíkar n. eiga eftir föngum að leitast við að koma í veg fyrir og leysa ágreiningsmál án þess þó að fara inn á svið kjarasamninga. Það er ekki þeirra verksvið. Stjórnendum verksmiðjanna ber að veita samstarfsnefndum allar nauðsynlegar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins, og getur það orðið til þess að koma í veg fyrir tortryggni.

Í sambandi við hugmyndina um samstarfsnefndir, sem er nú komin á dagskrá hér á landi bæði í sambandi við þessa till. og umrædda skýrslu, hallast menn að tvenns konar skoðunum, eins og fram hefur komið í landbn., þ.e. hvort það eigi að lögfesta slíkar samstarfsnefndir eða hvort það eigi ekki að lögfesta þær og láta þær vera samningsatriði milli verkalýðsfélaga eða samtaka launþega og verksmiðjanna. Ég skal á þessu stigi láta það liggja á milli hluta, hvort það er rétt að setja almenn lög um slíkar samstarfsnefndir í öllum verksmiðjum. Ég vil gjarnan, að við ræðum það örlítið nánar og tökum ákvörðun um það, þegar við höfum fengið einhverja reynslu. En ég er þeirrar skoðunar, að stór ríkisfyrirtæki, sérstaklega eins og Áburðarverksmiðja ríkisins og Sementsverksmiðja ríkisins, séu tilvalin til þess að koma á samstarfsnefndum, og þess vegna legg ég alveg sérstaklega til, að það verði lögfest um þær, þessar tvær verksmiðjur, án þess að ég slái með því föstu, að ég vildi fylgja því að lögfesta þetta um allan atvinnurekstur. Þarna er um töluverðan mun að ræða.

Ég er þeirrar skoðunar, að verksmiðjur hins opinbera, ríkis og jafnvel bæjarfélaga, eigi í þessum efnum að ganga á undan og veita gott fordæmi. Ég tel, að Alþ. eigi, þegar það tekur afstöðu til slíkrar till., að minnast þess, að ríkisvaldið er ekki aðeins löggjafi í þessu tilliti, heldur líka atvinnurekandi, og sem atvinnurekandi á ríkisvaldið að hafa þá sérstöðu að festa í lög almenn ákvæði um slíkar samstarfsnefndir og slíkt samstarf, sem hér um ræðir. Í sambandi við þá hugmynd, að þetta skuli vera samningsatriði, er rétt að benda á þá annmarka, að fyrirtæki eins og Áburðarverksmiðja ríkisins — og hið sama gildir um Sementsverksmiðju ríkisins — þurfa ekki aðeins að ræða við einn aðila í sambandi við kjarasamninga við starfsfólkið, heldur verða þessar verksmiðjur að semja við 4–5 mismunandi aðila. Og þar eru ekki aðeins verkamannafélög og iðnaðarmannafélög, heldur getur verið í sumum tilvikum um samtök opinberra starfsmanna að ræða, svo að menn sjá, að það er ekki öldungis einfalt mál að gera samninga um slíkar n. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt, að Alþ. ríði á vaðið í sambandi við þessar stóru ríkisverksmiðjur okkar, höggvi á þann hnút, sem þarna mundi verða fyrir, spari þann tíma, sem augljóslega mundi tapast, og stígi þetta skref, sem í grundvallaratriðum virðist njóta stuðnings og samþykkis svo að segja hvers manns, sem um það fjallar. Mér þykir mjög ánægjulegt að heyra, að stjórn Áburðarverksmiðjunnar skuli hafa lýst sig reiðubúna til þess að fallast á þetta kerfi. Úr því að svo er, þá er enn síður nokkuð því til fyrirstöðu að lögfesta, að slík n. skuli starfa við verksmiðjuna.

Ég vil benda á, að það er ákaflega þýðingarmikið atriði, að það verði sett nánari ákvæði um samstarfsnefndir og það verði gert með reglugerðum að fengnum álitsgerðum frá báðum aðilum. Þetta gerist ekki á einni nóttu, þótt þegar sé búið að vinna nokkurt brautryðjandastarf á þessu sviði, t.d. af samtökum sjómanna og útgerðarmönnum kaupskipa.

Herra forseti. Ég legg áherzlu á, að það er till. mín, að við lögfestum, að slík samstarfsnefnd skuli starfa við Áburðarverksmiðju ríkisins. Með því stígum við mjög þýðingarmikið og stórt skref í atvinnulýðræði á Íslandi og sýnum með því það hugrekki að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég vonast til þess, að þetta kerfi samstarfsnefnda, sem mikil og ótvíræð reynsla er fengin al í nágrannalöndunum, geti orðið til þess að bæta ástand bæði hinna vinnandi manna og fyrirtækjanna hér á Íslandi á komandi árum.