19.11.1970
Neðri deild: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

128. mál, eyðing refa og minka

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Í fljótu bragði virðist það ofrausn nokkur, að hér eru flutt tvö frv. um breyt, á l. um refi og minka — það frv., sem hér var áður talað um, og það frv., sem ég nú ætla að mæla fyrir. Bæði ganga þessi frv. í sömu átt og eru tekin fyrir samtímis. Vil ég því skýra, hvernig á því stendur. Einum eða tveim dögum áður en hv. 1. flm., Gísli Guðmundsson, lagði fram sitt frv. til prentunar lét hann mig vita af því og bauð mér að vera 2. flm., næst á eftir sér. Sagði ég honum þá, að ég væri að undirbúa frv. um þetta sama efni, en væri ekki alveg tilbúinn með það. Við fljótlegan lestur þessa frv. hans komst ég að raun um, að þar er gert ráð fyrir nokkuð öðrum tölum en þeim, sem ég treysti mér til að leggja til, að lögfestar yrðu að því er snertir verðlaun fyrir að vinna refi og minka. Í öðru lagi er till. hans og þeirra annarra flm. í 3. gr. þannig, að ég get ekki stutt hana, en þar er gert ráð fyrir því, að horfið verði frá þeirri reglu, sem gilt hefur um skiptingu kostnaðar milli ríkis, sýslufélags og sveitarsjóðs, og held ég, að sveitarstjórnum sé bezt trúandi til nauðsynlegs aðhalds, ef þær hafa hagsmuna að gæta í þessu efni. Oddvitar þurfa að samþykkja reikninga og sýslunefndir síðan að endurskoða þá reikninga. Hafa þessir aðilar því beinna hagsmuna að gæta í þessu efni og standa eðlilega á verði gegn því, að reikningar verði lagðir fram, sem hæpnir eru eða skakkir, eða sönnunargögn svikin, en dæmi eru til, að svo hefur verið gert, þar sem menn hafa framvísað fölsuðum minkaskottum. Þó að ekki séu mikil brögð að því, þá mun þetta hafa verið til. Og þó að kostnaður sveitarsjóðs og sýslusjóðs sé nokkur í sambandi við framkvæmd þessara laga, þá hef ég ekki orðið var við það, að sveitarstjórnir eða sýslunefndir kvörtuðu svo mjög undan því. En kostnaðarhlutföllin eru þau, að ríkissjóður greiðir 2/3 af kostnaði, sveitarsjóðir 1/6 og sýslusjóðir 1/6, þ.e. báðir þessir aðilar 1/3 af kostnaði á móti ríkinu.

Það, sem hér kom fram áðan í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. sem rök fyrir því, að eðlilegt væri, að ríkissjóður greiddi allan kostnað af minkaveiðum, var það, að ríkisvaldið hafi haft forgöngu um það að flytja minkinn inn, sem hefur reynzt ein versta ráðstöfun, sem gerð hefur verið hér á landi. Það er satt, að þetta var gert samkvæmt lögum, sem Alþ. setti, en hitt er líka satt, að þau lög voru sett eftir óskum frá fjölda manna úti um allt land, og vil ég því segja, að ábyrgðarhlutinn af þessari ráðstöfun muni dreifast nokkuð víða. En aðalatriðið er það að hafa þá skipan á þessum málum, að sem ósleitilegast sé unnið að því að eyða þessum vargi í landinu og helzt útrýma honum. Það sér að vísu ekki fram á það eins og stendur, að það muni takast að útrýma minknum, en hitt hefur reynslan sýnt, að það er hægt að halda honum mjög í skefjum, svo að hann geri ekki óbætanlegan usla í fugli og fiski. Og ef lögunum, sem nú eru í gildi um veiðar refa og minka, væri nógu vel framfylgt í öllum byggðarlögum landsins, þá hygg ég, að minknum mundi mjög fækka frá því, sem nú er. En það eru alltaf einhver byggðarlög, sem hafa gert þetta miður en önnur og frá þeim flæðir þessi ófögnuður yfir svæðið, sem búið er að hreinsa. Þess vegna er alltaf minkur til um allt land, eða réttara sagt á þeim landsvæðum sem hann hefur náð fótfestu á, en það mun ekki vera enn alveg um allt landið. Eins og ég sagði áðan, þá flutti ég ásamt þremur öðrum hv. þm. nýtt frv. um þetta efni, þegar ég hafði sannfærzt um það, að það bar of mikið á milli, að því er snertir þau atriði, sem ég nú hef nefnt, bæði um tölur og eins að því er snertir 3. gr. þessa frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Ég vísa til grg., sem fylgir frv., og tel sjálfsagt, að bæði þessi frv. fari til landbn., og þar mun n. taka afstöðu til þess, hvað hún telur skynsamlegast að leggja til, að því er snertir þetta mál.