17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. síðasta ræðumanns, og fagna því, að við skulum hafa hér tvo ræðumenn úr stjórnarandstöðunni, sem hafa staðið upp og lýst yfir, að öll líkindi séu til þess, að okkar hagvöxtur muni aukast á næstu árum og við skulum í sambandi við þann hag, sem hlýtur að byggjast á stjórnarstefnunni, sem er í dag, geta leyft okkur að ákvarða 1% af þjóðartekjum til nauðsynlegrar aðstoðar við vanþróaðar þjóðir. Mig langar nú til þess að spyrja þessa hv. þm., þegar við förum að athuga það mál betur: Hvað verðum við lengi að komast upp í 100 slík atriði eða 99 önnur, þannig að við verðum búin að ráðstafa þjóðartekjunum? Hvað verður þá eftir handa Ingólfi? Hvað verður eftir handa Magnúsi — ekki hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, heldur hinum? En þetta var nú meira til gamans.

Ég skal nú taka undir þau orð, sem hv. 6. þm. Reykv. lét hér falla, að vissulega ber okkur að hjálpa þessum þjóðum, og m.a. er þetta frv. fram komið til þess. Við erum að stíga þetta skref í tvíhliða hjálp, og það er auðvitað reginmisskilningur, sem komið hefur fram hjá hv. 2. þm. Reykn., Jóni Skaftasyni, að við höfum ekki neitt gert á þessum sviðum á undanförnum árum. Ef hann fylgdist með afgreiðslu fjárlaga, sem ég veit, að stundum brestur nokkuð á, þá ætti hann að vita það, að það er stórfé, sem fer til alþjóðastofnana úr okkar íslenzka ríkissjóði einmitt til þess að koma móti því, sem að er stefnt í þessu tilliti. Hins vegar er reginmunur á því og frv. Annars vegar er einhliða hjálp í gegnum þessa sjóði, hins vegar er í þessu frv. rætt um tvíhliða hjálp. Hv. landsk. þm. Jónas Árnason lét að því liggja, að ég hefði gefið fyrirheit um það að fylgja till. hans eða annarra um ákveðið fjárframlag í þessu skyni á næsta hausti. Þetta hef ég aldrei sagt. Hins vegar sagði ég, að ég auðvitað mundi búast við, að flm. þessarar till. — annar hvor eða báðir eftir því, hvort þeir eiga hingað afturkvæmt eða ekki, sem ég persónulega vænti nú, að ekki verði, — muni flytja slíka till. í samræmi við það, sem þeir hafa hér látið sér um munn fara í sambandi við þessa brtt. Það er líka misskilningur hjá hv. 2. þm. Reykn., að við höfum aldrei tekið þátt í aðstoð, sem fellur undir það að heita tvíhliða hjálp, eins og það er skýrt í þessu frv. Það höfum við t.d. gert með okkar framlögum í sambandi við „Herferð gegn hungri“, sem er mjög gott dæmi um það, sem einmitt slík stofnun eða stjórnun á að geta komið til leiðar í samráði og samstarfi við þá aðila, sem að slíkum störfum vilja vinna. Eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, þá sagði ég, að það er ekki allt komið undir því, hvort ríkissjóður verður aflögufær í þessum málum á næstu árum. Það verður komið undir fórnfýsi almennings. Það verður komið undir því, hverju þeir, sem valdir verða til þessarar stjórnmálastarfsemi, vilja fórna í sinni vinnu til þess að ná þessu markmiði.

Þá skal ég svara þeirri spurningu, sem hann beindi til mín að síðustu í sambandi við brtt. Hann sagði, að ég hefði lýst andstöðu minni við þessa brtt. Þetta er hárrétt, en það voru fleiri, sem lýstu andstöðu sinni við brtt., þ. á m. tveir flokksbræður þessa hv. þm. Ég legg til, að áður en hann spyr mig, spyrji hann þá, hvað ætla þeir að gera, ef slík till. kemur fram. Og ef slík till. kemur fram, sem er breyting á þeirri till., sem fram hefur verið borin á þskj. 345, sem er skilyrðislaus að því leyti að við eigum eftir 10 ár að vera komnir upp í 1% framlag af okkar þjóðartekjum í þessu skyni, þá segi ég, að hiklaust verði að taka þá till. fyrir aftur í allshn. þessarar hv. d. Og þá vænti ég, að þessi hv. þm. verði búinn að fá samþykki síns þingflokks við stuðning þeirrar till. og væntanlega þurfi fulltrúar þess flokks í n. ekki að biðja um margar frestanir í n. til þess að geta svarað því, hvar þeir standi.