17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

233. mál, girðingalög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Af hálfu landbn. mælti ég fyrir nokkrum dögum fyrir því frv., sem hér er nú til 2. umr. Ég gerði þá grein fyrir efni þess og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Því var aftur vísað til n., þó að það væri flutt af henni, vegna þess að n. átti þá eftir að skoða frv. betur og senda það til umsagnar Búnaðarþings. Búnaðarþing mælti einróma með, að frv. yrði samþ., og í n. er ekki ágreiningur heldur um, að svo verði gert. Hins vegar hefur það orðið að ráði, að n. flytti við það brtt., sem lýtur að þeim bráðabirgðaákvæðum, sem í frv. standa. Ég tel rétt að lesa þessi bráðabirgðaákvæði til skýringar, en að öðru leyti tel ég ekki nauðsynlegt að skýra þetta mál, þar sem það hefur áður verið gert og er raunar gert mjög rækilega í grg. og fskj. En þessi bráðabirgðaákvæði, sem ég nefndi og n. leggur til, að niður falli, eru svo hljóðandi:

„Hafi sveitarfélag, eitt eða fleiri, lagt afréttargirðingu á mörkum hreppa eftir 29. apríl 1967, en aðliggjandi hreppar ekki fallizt á kostnaðarþátttöku, skal ríkissjóður teljast kostnaðaraðili í stað þeirra hreppa, er neitað hafa, ef sýslunefnd (sýslunefndir) úrskurðar girðinguna óþarfa og girðingarstæði ónothæft.“

Enda þótt það gæti verið sanngirnisatriði að taka upp þessi bráðabirgðaákvæði, þar sem girðingar hafa verið lagðar vegna einhliða ákvörðunar eins sveitarfélags gegn mótmælum annarra, þá tel ég og meiri hl. n., að ekki séu möguleikar á að taka upp slík ákvæði í fög, vegna þess að það mundi vera fordæmi fyrir mörgum kröfum, sem á eftir kæmu, og er óeðlilegt, að orðið verði við.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði samþ., eins og það er, óbreytt að öðru leyti. Þess skal getið, að þeir, sem á nefndarfundi voru, voru sammála um þessa afgreiðslu, en á fundinn vantaði tvo nm., þá Benedikt Gröndal og Eðvarð Sigurðsson.