25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. þarf ekkert að vera hræddur um liðan mína. Hún er ágæt. Út af ræðu hv. 3. þm. Vesturl. þá langar mig til þess að segja örfá orð. Hann segir, að það sé sín skoðun, að það eigi að leggja Landnám ríkisins niður og fella starfsemi þess undir Búnaðarfélag Íslands. Nú er þetta sjónarmið út af fyrir sig, og ýmis slík skipulagsatriði voru tekin til umr. í mþn. En það varð ekki samstaða um neinar slíkar stórbreytingar þar. Nú eru það auðvitað ekki nóg rök fyrir því að sameina stofnanir, að það sé yfirleitt æskilegt að gera eina stofnun úr tveimur. Það þurfa vitanlega einnig að vera önnur og efnisleg rök fyrir því. Ég skal ekki fara langt út í þetta, en þetta og önnur stærri skipulagsatriði í landbúnaðarmálunum eru auðvitað mjög skoðunarverð. En ég vil enn segja það, að ég álít það misskilning, að þessar tvær stofnanir vinni nokkuð verulega sömu verkin. Hitt er rétt, að sums staðar liggja saman jaðrar og mörk eru ekki alveg eins skýr og skyldi. Og það er einnig rétt, og ég hef viðurkennt það, að það er tvíverknaður í greiðslu framlaga til jarðræktar. Hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að það væri einkennilegt, ef tvær ávísanir væru betri en ein. En það er nú einmitt svona, og ég hefði gaman af, ef hv. 3. þm. Vesturl. vildi taka eftir því, að í þessu tilfelli þá eru tvær ávísanir betri en ein! Og það er af því, eins og málin standa núna, að styrkur samkvæmt jarðræktarl. er aldrei greiddur fyrr en á vorin og jafnvel ekki fyrr en kemur fram á sumar, en framlög samkv. landnámsl. hafa verið greidd fyrir áramót, og þess vegna er í þessu tilviki, eins og þetta hefur verið framkvæmt, betra að fá tvær ávísanir en eina. En þetta er nú eiginlega meira til gamans en þetta komi mikið málinu við, en þó örlítið kannske.

Hv. þm. minntist á Vélasjóð og vélarekstur Landnámsins, og þetta atriði var dálítið rætt í mþn. Nefndinni var ljóst, held ég, að mér sé óhætt að segja, að þarna væri nauðsynlegt og eðlilegt að koma á sameiningu. En með því það kváðu vera í gangi athuganir á því að koma á fót einskonar vélamiðstöð fyrir vélaútgerð ríkisins, þá þótti, á meðan þær athuganir fara fram, ekki ástæða til að grípa inn í með því að gera breytingar á þessu tvennu og var látið hjá liða að gera till. um það. Varðandi það, að Búnaðarfélag Íslands og Landnám ríkisins ynnu sömu verkefni, þá vil ég enn benda á annars vegar 28. gr. frv., þar sem talin eru upp í nokkrum liðum verkefni Landnámsins, og hins vegar vil ég benda á rit, sem ber titilinn „Til Búnaðarþings 1971“ og inniheldur skýrslur ráðunauta og almennt yfirlit um starfsemi Búnaðarfélags Íslands á árinu 1970. Ég hef flett þessu riti m.a. í sambandi við umr. um þetta mál hér í þ., og ég get ekki fundið þar nokkurt atriði, sem er samhljóða verkefnum Landnámsins að undanskildu þessu eina, greiðslum framlaganna.

Ég viðurkenni að vísu, að það er rétt, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að það er munur á því, hvernig stjórn Landnáms ríkisins og stjórn Búnaðarfélags Íslands eru til komnar. Önnur er kosin hlutfallskosningu á Alþ., hin er kosin af Búnaðarþingi, samkomu bændanna sjálfra. En vegna þess að báðar þessar stofnanir fá allt sitt starfsfé frá ríkissjóði, þá er eðlismunurinn á þessum tveimur stofnunum minni en ætla mætti. Ég viðurkenni það, að hann er samt nokkur. Það hafa ýmsir þm. látið í ljósi þá skoðun sína, að með þessu frv. sé vald landnámsstjóra og Landnáms ríkisins mikið fært út frá því, sem það er í núgildandi l., og það er auðvitað ekki á mínu færi að breyta skoðun þeirra svona í einu vetfangi. En ég get bara alls ekki fallizt á þetta. Og ég vildi í lokin aðeins rifja upp örfá atriði frv. Í fyrsta lagi minni ég á það, að það er ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða á skipulagi. Sömu stofnanir sinna svipuðum eða sömu verkefnum og þær hafa áður haft með höndum. Stofnlánadeildin er óbreytt, hjá Landnámi ríkisins dragast saman nýbýlaframkvæmdir, en stofnunin snýr sér að félagsræktun og grænfóðurverksmiðjum, og Byggingastofnunin starfar á sama sviði, en fær aðeins lítið eitt meira af verkefnum. Hins vegar er stefnubreyting í frv. að því leyti, að það er horfið frá býlafjölgun, frá þeirri stefnu að skipta upp jörðunum, en reynt að móta stefnu í þá átt að treysta byggð með öðrum hætti. Ég vil taka það fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að ég er síður en svo á þeirri skoðun, að nýbýlastefnan hafi verið röng frá upphafi. Það felst alls ekki í þessum orðum mínum né í stuðningi mínum við þessa breytingu nú, því að ég álít, að hún fylgi breyttum tímum. Landnám ríkisins bætir við sig félagsræktun og grænfóðurverksmiðjum, forgöngu um stækkun verksmiðja og stuðningi við félagsræktun, en dregur saman starfsemi sína að því leyti, að myndun nýbýla er nú aðeins svipur hjá sjón hjá því, sem hún var. Einnig er á hitt að minna, að samkv. l. á Landnámið að rækta ákveðna landstærð fyrir þá, sem stofna nýbýli eða stofna til byggðar í byggðahverfum. Samkv. frv. hættir Landnámið því; þar er beinlínis um samdrátt að ræða í starfsemi þess. Verkefni Byggingastofnunarinnar eru aukin örlítið, eins og ég sagði áðan, en ég tel, að fyrst þessi stofnun er rekin fyrir landbúnaðinn, þá sé eðlilegt að fela henni þau auknu verkefni, sem um er rætt í viðkomandi frvgr. Mér virðist það mjög eðlilegt. Fyrst ég fór að rekja þannig helztu punktana úr frv., þá vil ég einnig segja þetta! Að öðru leyti eru í frv. ákvæði um ákveðin framlög til endurræktunar túna, til grænfóðurræktar og til nýtingar jarðvarma bæði til heyþurrkunar og til hitaveitu á einstökum bæjum eða í bæjahverfum, og þar er ákvæði um framlög til grænfóðurverksmiðja, framlög og stuðning eða frumkvæði, þar sem það á við og alla vega stuðning við skipulagninguna. Þar er og ákvæði um hækkun á framlögum til íbúðarhúsa, og stærðarmörk í ræktun eru afnumin, en það þýðir raunverulega hækkun frá því, sem ella hefði orðið á framlögum til túnræktar.

Ég held, að það sé alveg rétt, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að í þessu frv. felst ekki stefnubreyting almennt í landbúnaðarmálunum og það markar því engin tímamót. En eins og ég hef margtekið fram, þá eru hér allmörg þýðingarmikil atriði, sem ég vil styðja, að nái fram að ganga. Sem sé: Ég mun styðja þetta frv..svo langt, sem það nær.