15.10.1970
Sameinað þing: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Afstaða okkar Alþb: manna til ríkisstj. er óbreytt frá því, sem áður var. Við erum í andstöðu við ríkisstj.ríkisstj., sem nú hefur verið mynduð, er í rauninni ekki ný stjórn, heldur sama ríkisstj. og áður, aðeins með nokkrum mannabreytingum. Stefna ríkisstj. er í meginmálum sama stefnan og fyrri ríkisstj. hafði. Grundvöllur stefnunnar er hin svonefnda viðreisnarstefna, eins og skýrt hefur hér komið fram hjá forsrh. hinnar nýju stjórnar. Við Alþb.-menn erum andvígir þeirri stefnu í ýmsum þýðingarmestu málum þjóðarinnar. Þannig erum við andvígir stefnu stjórnarinnar varðandi herinn, sem enn dvelur í landinu. Við erum andvígir þeirri stefnu að tengja Ísland við hernaðarbandalagið NATO, andvígir ýmsum meginatriðum í stefnu stjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Við teljum, að afstaða ríkisstj. til launafólks, m.a. til samningsréttar þess og til gerðra kjarasamninga hafi verið hættuleg og stefnan hafi verið röng. Þá teljum við Alþb.-menn, að stefna ríkisstj. í atvinnumálum hafi verið röng í meginatriðum, m.a. afstaða stjórnarinnar til atvinnurekstrar útlendinga í landinu, en á hinn bóginn hafi sinnu- og afskiptaleysi um þróun atvinnuvega landsmanna sjálfra einkennt stefnu stjórnarinnar. Sú ríkisstj., sem nú hefur formlega tekið við völdum, hefur í rauninni borið ábyrgð á stjórnarfarinu undanfarna mánuði. Á þessum mánuðum hefur ríkt algert stjórnleysi á sviði verðlags- og dýrtíðarmála. Hver verðlagshækkunin hefur rekið aðra, og er augljóst, að í mörgum greinum hefur verð á vöru og þjónustu hækkað miklu meira en nokkur frambærileg ástæða var til. Ég gat ekki heyrt það á yfirlýsingu þeirri, sem hæstv. forsrh. gaf hér, að ríkisstj. væri enn búin að móta sér neina viðunandi fasta stefnu í þessu þýðingarmikla máli. Mér fannst megininnihaldið vera það, að enn væri verið að huga að þessum vandamálum, enn væri verið að athuga málin, enn verið að ræða við ýmsa, en stefnan væri enn ekki mótuð. Við Alþb.-menn í Nd. Alþ. höfum nú lagt fram frv. til l. um verðstöðvun, um tímabundna verðstöðvun. Það er skoðun okkar, að eins og nú sé komið í þessum málum, verði ekki undan því vikizt að fyrirskipa verðstöðvun um nokkurn tíma. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því, að verðstöðvun út af fyrir sig leysir ekki eða læknar ekki þær meinsemdir, sem hér eru að verki. Til þess þurfa að koma aðrar aðgerðir. En til þess að skýra nokkru nánar, hvað fyrir okkur vakir með því að leggja nú til verðstöðvun, þykir mér rétt að lesa hér nokkur atriði upp úr grg. okkar frv. um þetta efni. En þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun okkar, að jafnhliða tímabundinni verðstöðvun þyrfti að hefjast handa um að ná sem víðtækustu samstarfi um eftirtaldar ráðstafanir í dýrtíðar- og verðlagsmálum:

1. Löggjöf um eignakönnun í því skyni að fá réttan grundvöll til þess að skattleggja verðbólgugróða.

2. Lög og framkvæmdareglur til að koma í veg fyrir skattsvik og lækka þannig verðlag.

3. Að fella niður eða lækka verulega söluskatt og tolla á nauðsynjavörum.

4. Að gera núgildandi verðlagseftirlit haldbetra og virkara en það er.

5. Að afnema nefskatta, en afla fjár í þeirra stað með hækkun skatta á stóreignum og gróða.

6. Að rækileg athugun fari fram á núgildandi verðlagi og verðlagningarreglum og verð lækkað, þar sem þess er kostur.

Ýmsar fleiri ráðstafanir til að draga úr dýrtíð kæmu til greina, og er sjálfsagt, að þær verði athugaðar, eftir því sem kostur er á. Með frv. þessu leggjum við til, að þegar verði ákveðin verðstöðvun, sem gildi til 1. sept. 1971. Miklu máli skiptir, að staðið verði að framkvæmdinni undanbragðalaust. Samið er um laun flestra verkalýðsfélaga til 1. okt. á næsta ári og mundu þau laun ekki breytast nema í samræmi við breytt verðlag. Við lítum á verðstöðvun samkv. frv. þessu sem bráðabirgðalausn, en leggjum áherzlu á, að verðstöðvunartímann þarf að nota til að gera varanlegri ráðstafanir í dýrtíðarmálum.“

Þetta er afstaða okkar, eins og þessi mál liggja fyrir nú í dag, og ég verð að segja, að ég sakna þess, að þegar hæstv. forsrh. kemur nú fram fyrir Alþ. til þess að tilkynna um viðfangsefni ríkisstj. á þessu þingi, þá skuli hann ekki koma hér fram með skýra og afmarkaða stefnu í þessum þýðingarmiklu málum, en verða að hafa þau orð um stefnuna, sem hann hafði, sem mér þóttu heldur óskýr í þessum efnum.

Ég verð einnig að segja það, að mér fannst margt annað ærið óljóst í stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh., m.a. það atriði, að samhliða einhvers konar verðstöðvun væri rétt að framfylgja þeim reglum, sem markaðar hefðu verið í verðgæzlufrv. svonefnda, sem fellt var á s.l. þingi, sem vitanlega stefndi greinilega að því að gefa álagninguna enn þá meir frjálsa en hún er nú í dag. Í ræðu sinni eða stefnuyfirlýsingu vék hæstv. forsrh. nokkuð að landhelgismálinu og stefnu ríkisstj. í þeim málum. Sú stefna, að ríkisstj. vilji vinna að frekari stækkun landhelginnar eða auknum yfirráðarétti Íslendinga yfir landgrunninu, segir of litið eins og nú er komið. Það er langt síðan yfirlýsingar um þetta efni votu gefnar hér á Alþ. Og þá stóðu hér allir flokkar að yfirlýsingu, sem fór í þessa átt. En eins og við vitum öll, hefur harla lítið gerzt í þá veru að tryggja okkur aukna réttarstöðu, t.d. á landgrunnssvæðinu fyrir utan núverandi landhelgismörk. En nú er kominn tími til þess, að teknar verði hér nýjar ákvarðanir um það, hvernig við eigum að ná þessum rétti, og það er sú stefna, sem þarf að marka.

Ég skal ekki við þetta tækifæri fara nánar út í það að ræða um þetta mál eða önnur þau, sem hæstv. forsrh. minntist á í stefnuyfirlýsingu sinni, vil þó aðeins víkja að því, að hann drap á það sem vilja ríkisstj., að breytt yrði núgildandi skattalöggjöf í þá átt, að fyrirtæki hér á landi þyrftu ekki að bera hærri skatta en sambærileg fyrirtæki bæru í nálægum löndum. Þessi yfirlýsing er góð svo langt sem hún nær. En mér hefði sýnzt meiri þörf á því að tilgreina það, hver væri stefna ríkisstj. í skattamálum varðandi skatta á almenning í landinu. Því hefur verið lýst yfir hér á Alþingi, að allar athuganir, sem fram hefðu farið, bentu til þess, að atvinnurekstur hér á landi bæri yfirleitt ekki hærri skatta en í nálægum löndum, en í mörgum greinum lægri skatta. En um hitt verður ekki deilt, að einstaklingar hér á landi bera hærri skatta miðað við sambærilegar tekjur en einstaklingar í nálægum löndum gera. Við Alþb.-menn höfum hingað til lagt á það áherzlu og gerum það enn, að það er mikil nauðsyn á því að breyta skattalögunum í þá átt að lækka skatta á almennum launatekjum.

Til einstakra mála, sem ríkisstj. flytur, munum við taka afstöðu, þegar þau koma fram. Við munum styðja þau mál stjórnarinnar, sem við teljum að stefni til góðs, en standa gegn óþurftarmálum og þeim málum, sem fara í bága við yfirlýsta stefnu okkar. Við þetta tækifæri mun ég svo ekki ræða frekar um afstöðu okkar til stjórnarinnar, en nánar verður að sjálfsögðu rætt um ýmis af þeim stóru málum, sem fyrir liggja hér, í almennum umr. um þau á Alþ. og þegar þau koma hér fyrir hvert um sig.