04.04.1971
Sameinað þing: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

Þinglausnir

Forseti (BF):

Þetta yfirlit sýnir, að samanborið við þingið 1969– 1970 er þinghaldið 15 dögum skemmra nú en þá. Fundir eru nokkru færri, og munar þar 9 fundum. Málafjöldi er allmiklu meiri eða 309 mál nú á móti 237 málum á síðasta þingi. Munar þar 72 málum. Tekizt hefur að afgreiða nokkru fleiri lög, þáltill. og fsp. á þessu þingi en gert var á þinginu 1969–1970. Er af þessu ljóst, að þingið hefur verið athafnasamt, og er það að þakka góðri samvinnu allra þingflokka, að unnt er að ljúka störfum þingsins í dag. Þá samvinnu vil ég þakka fyrir mitt leyti.

Varðandi einstök mál hefur að venju ríkt verulegur skoðanamunur. Þrátt fyrir þann ágreining veit ég, að allir hv. alþm. eru mér sammála um að óska þess, að þau störf, sem Alþingi hefur nú af hendi leyst, megi í hvívetna verða þjóðinni og Íslandi til heilla og farsældar.

Við lok þessa kjörtímabils er þess að minnast, að fjórir þm., sem hér áttu sæti í upphafi þess, hafa horfið úr hópi þm. Eru það þessir:

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, 1. þm. Reykv., sem lézt 10. júlí s.l. Sæti hans tók Geir Hallgrímsson borgarstjóri.

Pétur Benediktsson bankastjóri, 4. þm. Reykn., sem lézt 29. júní 1969. Sæti hans tók Axel Jónsson fulltrúi.

Skúli Guðmundsson, fyrrv. kaupfélagsstjóri og ráðherra, 1. þm. Norðurl. v., sem andaðist 5. október 1969. Sæti hans tók Jón Kjartansson forstjóri.

Sigurður Bjarnason, 2. þm. Vestf., sem tók við stöðu sendiherra í Danmörku á s.l. ári og afsalaði sér þingmennsku þann 28. febrúar 1970. Sæti hans tók Ásberg Sigurðsson borgarfógeti.

Hefur þannig komið maður manns í stað, en mikil eftirsjá var að þeim fjórum mönnum, sem ég nefndi, úr hópi alþm.

Nú standa kosningar fyrir dyrum og að þeim afstöðnum munu einnig verða veruleg mannaskipti á þinginu. Meðal þeirra, sem þá hverfa héðan, eru margir þjóðkunnir menn, sem um lengri eða skemmri tíma hafa haft forustu í stjórnmálabaráttunni og á fleiri sviðum þjóðlífsins. Sumir þeirra hafa um langt árabil sett sterkan svip á störf Alþingis, og verður þeirra ávallt minnzt sem merkra manna og mikilhæfra. Veit ég, að ég mæli fyrir munn allra, sem enn hyggjast halda áfram þingmennsku, er ég óska hinum, sem nú draga sig í hlé, alls góðs í framtíðinni og votta þeim þakkir fyrir samveruna og samstarf hér á Alþingi.

Síðustu vikurnar hefur verið mikið annríki í þinginu eins og oft vill verða í þinglok. Leyfi ég mér fyrir hönd þingforsetanna að endurtaka þakkir til hv. alþm. fyrir hið ágæta samstarf, sem hefur leitt til þess, að unnt er að ljúka þinginu í dag. Einnig þakka ég hæstv. ríkisstj. og öllum hv. alþm. ágætt samstarf í hvívetna á þingtímanum og kjörtímabilinu. Ég þakka það traust, sem mér var sýnt með því að trúa mér fyrir forsetastörfum. Einnig þakka ég þingheimi fyrir það umburðarlyndi og hjálpsemi, sem ég hef orðið aðnjótandi við störf mín í þessu sæti. Sérstakar þakkir færi ég varaforsetum, sem jafnan hafa fúslega veitt mér hina ágætustu aðstoð. Ég þakka skrifurum þingsins eljusemi og kostgæfni í störfum, og skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis þakka ég fyrir mikið og gott starf og ánægjulega samvinnu. Öllum hv. þm. óska ég góðrar heimferðar og heimkomu. Megi þeim og fjölskyldum þeirra vel farnast. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis færi ég sömu óskir. Fyrir hönd Alþingis óska ég öllum Íslendingum heilla og farsældar og vona, að komandi sumar verði þjóðinni gleðilegt og hagstætt.