19.11.1970
Efri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2407)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki á þessu stigi fara mörgum orðum um það frv., sem hér liggur fyrir, enda þótt hér sé að mínu áliti um merkilegt mál að tefla. En ég vildi aðeins láta í ljós fylgi mitt við þá hugsun, sem þetta frv. byggist á, þá hugsun, að það sé eðlilegt og heilbrigt, að þeir, sem vinna við fyrirtæki, fái aðstöðu til þess að fylgjast með rekstri þess og hafa nokkur áhrif á stjórn þess. Ég álit, að það sé eðlilegt, að þeir fái þannig aðstöðu til þess, því að eins og hv. frsm. gat hér um áðan, eiga þeir, sem vinna við fyrirtækið, ekki síður mikið í húfi varðandi allan rekstur þess heldur en sá, sem er eigandi þess og ég held, að það sé sanngjarnt að veita vinnunni hér nokkurn rétt á móts við fjármagnið, að það sé ekki eðlilegt, að sá, sem á fjármagnið eða leggur til fjármagnið, hafi öll ráð fyrirtækisins í sinni hendi, enda er það nú í reyndinni svo, að eigendur fyrirtækja leggja oftast nær að langminnstu leyti til eigið fjármagn í þessi fyrirtæki. Að langmestu leyti eru þau byggð upp af lánsfé, sem almenningur leggur til, þannig að ég álít, að það sé réttmæt og heilbrigð hugsun að veita vinnunni, þeim, sem vinna við fyrirtækin, hlutdeild í stjórn þeirra og aðstöðu til áhrifa á rekstur þeirra og kannske ekki sízt það að veita þeim aðstöðu til þess að fylgjast með í öllu því, sem að stjórn og rekstri fyrirtækisins lýtur. Og ég vil leyfa mér í þessu sambandi að minna á það, að í frv., sem við framsóknarmenn höfum lagt hér fram, um atvinnufyrirtæki vissulega, þ.e.a.s. togaraútgerð ríkisins, þá höfum við einmitt farið inn á þessa braut, að skipshafnirnar, sjómennirnir, bæði yfirmenn og undirmenn nefni til tvo menn í stjórn þessa fyrirtækis. Og hitt er svo annað mál, að það hljóta ýmis atriði að koma til athugunar, þegar á að setja löggjöf um efni sem þetta og satt að segja finnst mér þetta frv., sem hér liggur fyrir, vera fulleinfalt í sniðum. Ég er hálfhræddur um, að það leysi ekki úr öllum þeim vafaatriðum, sem upp kunna að koma í sambandi við þetta mál. Það er að vísu svo, að það er gert ráð fyrir því, að nánar verði mælt fyrir um þessi atriði í reglugerð, en ég gæti trúað, að ýmis þau efni, sem þar kæmu til álita, væru þess eðlis, að það væri eðlilegra, að skýrt væri kveðið á um þau í l.

Hv. flm. minntist nú einmitt á nokkur slík atriði, sem gætu verið dálítið vafasöm í þessu sambandi, t.d. strax á skilgreiningu á hugtakinu atvinnufyrirtæki. Ég er ekki alveg viss um, að það sé ljóst, hvað þar kemur undir og eins og hann drap réttilega á, þá gæti það einmitt verið vafasamt um ýmis ríkisfyrirtæki, hvort frekar ætti að flokka þau undir atvinnufyrirtæki eða þjónustufyrirtæki. En auk þess kemur það til, að þó að um þjónustufyrirtæki sé að tefla, þá kann að vera eðlilegt, að þeir, sem vinna við slíkt fyrirtæki, eigi þar einhverja hlutdeild að, alveg eins og þegar um er að ræða fyrirtæki, sem flokkaðist undir það að vera hreint atvinnufyrirtæki. Ég geri ekki ráð fyrir því, að neinn sé í vafa um það eða yrð í vafa um það, að Síldarverksmiðjur ríkisins t.d. yrði atvinnufyrirtæki. En ég býst við, að það gæti hins vegar vafizt frekar fyrir mönnum að gera grein fyrir því, hvort Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins væri atvinnufyrirtæki eða það, sem venjulegt er að tala um, ríkisstofnun. (Gripið fram í.) Það eru sérstök lög um hana að vísu, já. Þannig ætla ég, að það gæti nú orðið í fleiri tilfellum, að það geti verið annað mál, þannig að ég fyrir mitt leyti teldi það nú æskilegt, að þetta væri afmarkað skýrar, ef nokkur kostur er, til hvaða fyrirtækja og stofnana þetta frv. taki, því að hvers vegna skyldu ekki stofnanir líka geta komið hér til álita.

Þessu frv. er ætlað að taka til atvinnufyrirtækja, sem rekin eru af hlutafélögum, samvinnufélögum, ríkinu og sveitarfélögum. En svo eru fyrirtæki, sem einn aðili rekur. Það má segja, að það sé engin stjórn í slíkum fyrirtækjum. En í sjálfu sér getur verið alveg eins eðlilegt að veita þeim, sem halda slíku fyrirtæki uppi með vinnu sinni, einhvern kost á því að fylgjast með rekstri þess fyrirtækis. Það getur verið, að það sé erfitt að koma slíku við, þegar um er að ræða fyrirtæki, sem þannig er algerlega í einkaeign. En auðvitað stendur eins á að því leyti til, að það er ekki þar fremur, en í hinum tilfellunum yfirleitt um það að ræða, að sá einkaaðili, sem fyrirtækið rekur og hefur á sínu nafni, eigi allt það fjármagn, sem það fyrirtæki byggist á, heldur gildir eins í því tilfelli, að hann verður auðvitað að leita eftir lánsfé og byggja sinn atvinnurekstur að verulegu leyti á því. Enn fremur er það, að það er nú kannske í óljósasta lagi að miða skilgreininguna eða miða það, til hverra lögin taki, við fyrirtæki, sem að jafnaði hafa yfir 50 menn í þjónustu sinni. Ég held, að þetta sé dálitið teygjanlegt og væri líka æskilegra að hafa þar eitthvað ákveðnara, ef kostur er. Það er gert ráð fyrir því, að þessir starfsmenn fái einn mann í stjórn. Ég fyrir mitt leyti gæti nú allt eins vel hugsað mér, að þeir, sem við fyrirtækið vinna fengju t.d. tvo menn. Ég held, að það væri allt eins heppilegt að haga því þannig, heldur en hafa bara einn fulltrúa af hálfu þeirra, sem vinnu stunda hjá fyrirtækinu.

Það er kveðið á um það í þessu frv., að fulltrúi starfsmanna í stjórn fyrirtækis njóti sömu réttinda og aðrir fulltrúar í stjórn fyrirtækisins. En ég býst við, að það verði talið eðlilegt, að jafnframt því, sem hann á að njóta sömu réttinda, hvíli líka á honum sams konar skyldur og hann beri sams konar ábyrgð og stjórnarmenn í þessum fyrirtækjum. Það kann að vera, að það eigi að felast í þessu, þar sem sagt er, að hann hafi réttindi eins og aðrir stjórnarmenn.

Ég vildi aðeins drepa á þessi atriði. En það er síður en svo til þess að andmæla frv. Það má vel vera, eins og hv. flm. drap á, að erfitt sé að setja í upphafi ítarlegar reglur um þetta og það verði að notast við eins konar rammalöggjöf og fylla svo út með reglugerð, en eigi að síður held ég, að það væri nú æskilegra að undirbúa löggjöf um þetta efni betur heldur en mér sýnist frv. bera vitni um. En ég fellst á þá stefnu, sem lýsir sér í þessu frv. Ég lýsi fylgi við þá grundvallarhugsun, sem það er byggt á og ég held, að það sé ástæða til þess að gefa þessum málefnum meiri gaum, en gert hefur verið, hinu svokallaða atvinnulýðræði, sem talað hefur verið um nokkuð að undanförnu og ég hygg, að það sé nú hægt að fá upplýsingar og fyrirmyndir um þessi efni annars staðar frá, þar sem þetta hefur allmikið verið reynt í framkvæmd, að ég hygg.