08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa átt sér stað milli hæstv. menntmrh. og hv. 6. þm. Reykv. En hæstv. menntmrh. minntist á endurskoðun á l. um námslán og námsstyrki. Ég vil í því sambandi undirstrika það, sem fram kemur í nál. meiri hl. menntmn., þar sem bent er á, að nemendur Stýrimannaskólans og Vélskóla Íslands séu utan við þessi lög. Ef til endurskoðunar á þessum lögum kemur, þá vil ég mjög undirstrika það, að einmitt nemendur þessara skóla fái þá aðgang að þeim styrkjum og lánum, sem lögin koma til með að fjalla um. Ég hygg, að öllum sé það ljóst, að aðstaða margra nemenda þessara tveggja skóla, sem eru í beinu sambandi við aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, er þannig, að þetta eru menn, sem hafa þegar stofnað til heimilis, og nokkrir þeirra veit ég um að hafa framfærslu all stórra heimila á sínum snærum. Ég tel því, að það sé kannske meiri þörf, eða a.m.k. ekki síður þörf, að styrkja þessa aðila með styrkjum og lánum þann tíma, sem þeir dvelja í þessum skólum, en nemendur annarra skóla, einmitt af þessum ástæðum; að þeir hafa margir hverjir þegar fyrir allstórum fjölskyldum að sjá. Ég vil undirstrika þetta í sambandi við þær umræður, sem hér hafa orðið og það, sem hæstv. menntmrh. minntist á, að endurskoðun þessara laga gæti legið fyrir nú innan tíðar.