27.01.1971
Neðri deild: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2502)

184. mál, skólakerfi

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Mér fer sem öðrum hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, að ég verð að viðurkenna það, að ég hef ekki kynnt mér enn nógu rækilega þessi viðamiklu frv., sem hér eru til umr. og má raunar kannske segja, að þar sé trassaskap mínum um að kenna, því að mér voru send þessi frv. skömmu fyrir áramótin sem formanni skólanefndar. Ég tók það svo, að öllum skólanefndum í landinu, jafnvel fræðsluráðum og e.t.v. fleirum, hefðu verið send frv. til skoðunar og ég vil nota þetta tækifæri alveg sérstaklega til þess að þakka hæstv. menntmrh. og fræðslumálastjórninni fyrir það, að hún skuli hafa haft þessi vinnubrögð — að senda þessi stórmál út til landsbyggðarinnar, til þess að þau yrðu skoðuð þar og rædd. Ef skólanefndir og fræðsluráð tækju sig nú skjótlega til og ræddu þessi mál og kynntu sér, þau til hlítar. Þá teldi ég, að þess ætti að vera einhver kostur að koma þessum málum fram nú á þessu þingi, sem ég hefði helzt kosið. En hitt tek ég undir, að sjálfsagt er að fara með gát í þessum efnum og kynna sér þessi mál til rækilegrar hlítar.

Af þessu, sem ég hef þegar sagt, kemur í ljós, að mér lýzt vel á þessi frv. Það er kannske rétt, að ég taki það fram, að ég kom ekki hérna upp í ræðustólinn til þess að tala fyrir hönd míns flokks, heldur eru þetta mín persónulegu orð. En mér er kunnugt um það, að þessi mál hafa oft verið á dagskrá á þingum okkar sjálfstæðismanna og um þau hafa verið gerðar ályktanir. Sérstaklega hafa þó ungir sjálfstæðismenn látið þessi mál mjög til sín taka og rætt þau ýtarlega á sínum þingum og fundum og gert um þau viðamiklar ályktanir, sem hefði raunar verið rétt af mér að lesa upp að einhverju leyti nú við þessa umr., en ég sleppi því nú. Ég ætla aðeins, eins og ég segi, að lýsa ánægju minni yfir því, að þessi frv. eru lögð fram og ég mun veita þeim stuðning, þó að ég náttúrlega, eins og ég sagði áðan, eigi eftir að skoða þau betur og þá verða fylgjandi einhverjum brtt., sem fram kunna að koma við þau.

Ég vil alveg sérstaklega lýsa ánægju minni yfir því, sem fram kemur í þessum frv. báðum, þar sem rætt er um það að jafna mismun nemenda í strjálbýli og þéttbýli. Þetta er mér sem sveitamanni ákaflega mikið fagnaðarefni og ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Austf., að það má ekki gerast, að hér verði aðeins um bókstafinn einan að ræða, heldur að þetta komist til framkvæmda. Við, sem búum í strjálbýlinu, vitum það ósköp vel, að hér hefur verið um mikinn aðstöðumun að ræða. Það hefur verið mikið talað um fjárhagserfiðleika fátækra foreldra að kosta mörg börn sín í skóla, en aðstöðumunurinn hefur verið meiri, en þessi og hann hefur verið meiri en aðeins það, að við, sem búum í sveitum, höfum orðið að hlíta því, að börn okkar hafa ekki sótt skóla á ári hverju nema kannske þrjá mánuði á vetri. Að vísu held ég því fram, að börn, sem alast upp í sveit, fái á margan hátt þá menntun í samskiptum við móður jörð og dýralífið, sem börnin í þéttbýlinu fá ekki og það sé þeim mikill ávinningur að fá að alast upp úti í sveitunum, því að hvergi er nú betra að vera. En börn okkar hafa farið á mis við ýmislegt nám, sem börn í þéttbýlinu hafa notið. Ég get tínt til nokkur atriði, sem þið, hv. þm., þekkið vel, Það er t.d. söngkennslan, sem ég tel ákaflega mikils virði, það er íþróttakennslan, það eru handíðir og ýmislegt slíkt, sem börn okkar úti í sveitunum hafa farið á mis við og ég veit ekki nema svo sé, að þegar þau sjá börnin hér í Reykjavík koma fram í sjónvarpinu, í hljómsveitum, börn sem hafa lært á hljóðfæri, að það sé þeim ekki með öllu öfundarlaust. En við þennan mismun höfum við þurft að búa.

Ég legg sem sagt ríka áherzlu á það, að öll ungmenni í landinu eigi þess jafnan kost að stunda nám og fræðslu, hvar sem þau búa, hvort það er í borg og þorpum og bæjum eða úti á yztu annesjum eða í innstu dölum. Þetta þykir. mér ánægjulegasta atriðið í þessum frv. og ég lýsi fullum stuðningi mínum við eitt meginatriði þeirra — það, að fræðsluskyldan skuli vera lengd í 9 ár og tel það sérstaklega til hagsbóta fyrir okkur, sem búum úti í strjálbýlinu.