11.03.1971
Efri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2610)

248. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég get nú sagt það sama og hv. síðasti ræðumaður, að ég hef haft mjög lítinn tíma til þess að kynna mér þetta frv. og skal heldur ekki vera langorður. Í byrjun vildi ég þó aðeins víkja að því, sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á, er hann setti fram þá skoðun, að eðlilegt væri, að endurskoðun kjarasamningalaganna og laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna færu saman. Vissulega get ég tekið undir það, að tengsl séu þarna á milli, en vil þó leyfa mér að benda á það, að af hálfu samtaka opinberra starfsmanna hefur sjaldnast verið lögð á þetta áherzla. Ég var t.d. vel kunnugur undirbúningi lagasetningarinnar 1964, en það eru núgildandi lög. Þá keypti ríkið það beinlínis af starfsmönnunum, að það skuldbatt sig til þess, að frá þessum 1. skyldi gengið, en þau höfðu þá mjög lengi, heilan áratug eða jafnvel meira, verið í undirbúningi, gegn því, að frestað yrði um eitt eða tvö ár að setja ný launalög. Þegar frá kjarasamningalögunum var gengið 1962, þá komu mér vitanlega ekki heldur neinar raddir upp um það, að rétt væri að endurskoða 1. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Nú hefur, eins og kunnugt er, verið gerður nýr kjarasamningur til tiltölulega langs tíma, þó að vitað væri, að þessi mál væru í deiglunni og engin áherzla lögð á, að þau yrðu samferða. Vissulega eru þarna tengsl í milli og það er eitt af þeim atriðum, sem hlyti að koma til álita, ef inn á þá braut yrði farið, að opinberir starfsmenn fengju víðtækari verkfallsrétt, en þeir nú hafa. Nú var það mál til umr. á síðasta þingi og ég lýsti þá skoðunum mínum á því og fer ekki nánar út í það. En ein af þeim spurningum, sem hlyti að vakna, ef út á þá braut yrði farið, væri sú, hvort slíkt mundi samrýmast núgildandi lagaákvæðum um æviráðningu opinberra starfsmanna. Það yrði þá sá meginmunur á saman borið við hinn almenna vinnumarkað, að á hinum almenna vinnumarkaði hafa launþegarnir vissulega verkfallsrétt. Hins vegar hefur atvinnurekandinn í rauninni ótakmarkaðan rétt til þess, ef honum sýnist, að hann hafi samið um hærra kaup en hann telur sinn rekstur geta staðið undir, að fækka við sig starfsmönnum. Ef opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt, þá er spurningin sú, hvort hið opinbera sem atvinnurekandi ætti þá í þessu efni að vera miklu verr sett, en atvinnurekandi á almennum vinnumarkaði og hvort óheimilt væri að segja starfsmönnum upp. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði frv. en víkja aðeins að því, sem sagt er á bls. 13 um megintilgang frv., eins og það er orðað. Sagt er, að hann sé tvíþættur. Í fyrsta lagi með leyfi hæstv. forseta:

„Að ríkið geti tryggt sér hina hæfustu starfskrafta til að leysa af hendi þau mikilvægu störf, sem stjórnsýslunni er ætlað að leysa af hendi, til að framkvæma þá stefnu, sem Alþ. og ríkisstj. marka á hverjum tíma, jafnframt því, sem ríkinu sé gert mögulegt að losna við úr þjónustu sinni starfsmenn, sem ekki reynast dugandi í starfi.“

Nú, hvað fyrra atriðið snertir, að æskilegt sé, að bæði með þessari löggjöf og annarri, sem settar eru um kjör og aðstöðu opinberra starfsmanna, þá hlýtur það alltaf að vera markmiðið, að ríkið geti tryggt sér sem hæfasta starfskrafta. Um það ætti ekki að vera neinn ágreiningur. Í sjálfu sér ætti í rauninni ekki heldur að vera ágreiningur um hitt, að ríkinu sé gert mögulegt að losna við starfsmenn, sem ekki reynast dugandi í starfi, úr þjónustu sinni. Nú sýnist mér við lauslegan yfirlestur, að hér sé að vísu um meira en almenna stefnuyfirlýsingu að ræða; heldur að róttæk breyting sé gerð á þessum l. frá því, sem nú er. Menn verða í ríkara mæli lausráðnir en áður, eins og þegar hefur verið upplýst.

Nú er vissulega síður en svo við það að athuga, að hið opinbera eigi með einhverju móti að hafa rétt á því að losa sig við starfsmenn, sem ekki duga. Þó má benda á það, að þó að þessi möguleiki hafi kannske ekki verið eins rúmur eins og æskilegt væri, hefur ríkið þó á hinn bóginn grætt á þessu, því að vegna hins aukna öryggis í starfi, hefur það fengið ódýrari vinnukraft, en það ella hefði fengið. Í öllum launasamningum við opinbera starfsmenn hefur stöðugt verið á þessu hamrað, að þeir hafi þau forréttindi, að vera yfirleitt ráðnir til æviloka og eðlilegt sé, að þeir kaupi þau einhverju verði.

Það sem ég vildi undirstrika, af því að ég geri ekki ráð fyrir því, að ég eigi kost á því að fjalla frekar um þetta mál er, að ef inn á þessa braut verður farið, þá verður að tryggja það, að það verði hlutlæg sjónarmið einvörðungu, sem koma til að ráða því, hvort menn eru settir úr starfi. Þar geti ekki komið annað til, en hlutlægt mat. Jafnframt verði þá starfsmönnunum skapað jafnvel meira öryggi heldur en þeir nú njóta í því efni, að stjórnvöld ekki ýti mönnum í burtu af pólitískum ástæðum. Ég þekki það mjög vel sem formaður samtaka opinberra starfsmanna um nær áratugs skeið, að bæði við ráðningu manna og ekki síður, þegar um það var að ræða að ýta mönnum úr störfum, þá voru það stjórnmálin, sem höfðu úrslitaþýðingu. Maður er búinn að standa í mörgum slíkum málum, þar sem starfsmennirnir hafa kvartað undan því, að þeir væru beittir pólitískum ofsóknum. Nú var það að vísu þannig, að allar slíkar kvartanir bar að taka með nokkurri varúð. Stundum kom það í ljós við nánari athugun, að menn töldu sig verða fyrir pólitískri ofsókn, þó að það væri nú raunverulega annað, sem lægi því að baki, að þeim var ýtt burtu, en hitt var líka mjög algengt. Auðvitað reyndi maður eftir föngum að aðstoða starfsmennina í þeim efnum og þar hefur maður jöfnum höndum orðið að ganga fram fyrir skjöldu fyrir menn úr öllum flokkum og líka átt í höggi við pólitísk stjórnvöld allra flokka hér.

Ég held, að munurinn á siðgæði stjórnmálaflokkanna í því efni sé ekki umtalsverður, a.m.k. mundi ég ekki vilja raða þeim niður með númerin 1, 2, 3 og 4. Ég held, að þar séu allir jafnir og enginn góður. Þetta vildi ég nú í fyrsta lagi benda á, þá miklu hættu, sem á því er, ef út á þá braut verður farið, að opinberir starfsmenn verði lausráðnir í ríkara mæli heldur en nú er, að það verði ekki hlutlægir mælikvarðar, sem þá verði lagðir á, heldur stjórnmálalegir mælikvarðar. Í þessu sambandi hefur sú hugmynd komið fram — hennar gætir að vísu ekki í þessu frv. og grg. fyrir því, en ég býst við, að hún komi fram, áður en þessu máli verður ráðið til lykta — að fara ekki í ríkara mæli en nú inn á þá braut, að embættismenn yrðu kosnir. Rökin, sem borin verða fram fyrir því, yrðu að um aukið lýðræði yrði þá að ræða, en það mundi auðvitað verða ljóst, að þá kæmi þetta spursmál um fjármuni, sem viðkomandi gætu lagt fram í hugsanlegri kosningabaráttu. Það er nú önnur hlið á því máli.

Hvað snertir hugmyndina um lausráðningu starfsmanna sbr. 3. gr., þá er ég þar ekki alveg sammála hv. síðasta ræðumanni. Ég tel, að hér sé um athyglisverða hugmynd að ræða. Hitt get ég tekið undir með honum, að mikil hætta mundi vera á misnotkun á þessu og ef inn á þá braut yrði farið, þá held ég, að undir öllum kringumstæðum væri óhjákvæmilegt að fastákveða þá tölu slíkra manna og hafa hana mjög lága.

Það var eitt smáatriði enn, sem ég að gefnu tilefni frá hv. síðasta ræðumanni vildi einnig víkja að, en það er heimildin til þess að menn séu lengur í störfum en til 70 ára aldurs. Auðvitað er rétt að hafa um þetta fasta reglu, en ég mundi nú líta þannig á, að rétt væri að hafa þessa heimild, ekki fyrst og fremst vegna starfsmannanna sjálfra, heldur öllu frekar vegna þeirra, sem þeir veita þjónustu. Tökum nú sem dæmi okkur tvo, hv. síðasta ræðumann og mig, sem báðir störfum í þágu Háskólans. Eftir því sem ég bezt veit, munum við eiga afmæli báðir seinni hluta vetrar og eftir 11—12 ar, ef við af öðrum ástæðum verðum svo lengi viðriðnir sögu Háskólans, þá yrðum við að hætta störfum. Mundi það ekki vera ákaflega óþægilegt fyrir okkar nemendur, ef það væri ófrávíkjanleg skylda, að við hættum að kenna 1—2 mánuðum fyrir próf? Ég vildi nú aðeins benda á þetta, að slík tilvik geta komið til, að rétt sé að hafa heimild til slíkrar undanþágu. Í þessum efnum sé ég í rauninni meginkost frv. Mér sýnist þar mest til bóta, að þar séu settar sem fastastar reglur og í sjálfu sér get ég tekið undir það sjónarmið, að undanþáguheimildirnar ættu að vera sem fæstar. En þó verður að taka tillit ti1 allra aðstæðna og hafa þetta ekki of ósveigjanlegt.