23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2626)

265. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál, en vil þó segja fáein orð.

Í fyrsta lagi fagna ég hverju átaki, sem er gert til eflingar íþróttaiðkun í landinu, en þau hefðu raunar mátt vera fleiri á undanförnum árum. Ég tel þetta horfa til bóta með þessum skóla. En mig langar svona til fróðleiks að afla mér upplýsinga um 4. gr. þessa frv. Ef það mætti verða til eftirbreytni víðar þá væri gott að vita, hvaða leið hæstv. ríkisstj. hafi til þess að meta siðferði manna. Það er dálítið einkennilegt ákvæði í lögum, að nemandi skuli vera óspilltur að siðferði. Ég held, að það væri ástæða til þess, að hv. alþm. gerðu sér grein fyrir eftir hvaða formúlu verður farið við það mat.

Í lið 6 er athyglisvert ákvæði; þ.e. að nemendur neyti hvorki áfengis, tóbaks né fíknilyfja. Út af fyrir sig fagna ég slíku, en þetta er gífurleg skerðing á einstaklingsfrelsi og væri fróðlegt að heyra nánari skýringar á því ákvæði. Einnig hvort það fær staðizt í lögum, að setja svo strangt ákvæði um inngöngu í þennan skóla.

Ég vil svo endurtaka það, að ég fagna þessu frv.