19.10.1970
Efri deild: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

4. mál, ríkisreikningurinn 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um staðfestingu á ríkisreikningnum fyrir árið 1968 var lagt hér fram seint á síðasta þingi hér í þessari hv. d. og hlaut þá ekki endanlega afgreiðslu. Frv. var óvenjulega seint á ferðinni, og gerði ég þá grein fyrir orsökum þess, en þær voru í stuttu máli, að samkv. hinum nýju l. um gerð ríkisreiknings og fjárlaga var þetta fyrsti reikningurinn, sem gerður var samkv. hinum nýju l., og það kostaði mikla vinnu og margvíslegar skipulagsbreytingar í ríkisbókhaldinu að koma reikningsfærslunni í þetta nýja horf. Ég gat þess þá, að þess mætti vænta, að enda þótt reikningurinn væri þá seint á ferðinni, gæti þetta gengið með mun meiri hraða síðar meir, þar eð hið nýja skipulag mundi leiða til þess, þegar það væri komið á, að reikningshaldi og reikningsskilum öllum yrði fyrr lokið. Þetta tel ég engum efa bundið, og ríkisreikningnum fyrir árið 1969 hefur nú verið útbýtt hér á Alþ. fullgerðum að undanskildum aths. yfirskoðunarmanna, sem hafa nú reikninginn til meðferðar, og verður reikningnum í endanlegu formi og frv. til staðfestingar á honum útbýtt hér strax og yfirskoðunarmenn hafa lokið sínu verki. En þetta er ástæðan til þess, að því miður hefur dregizt til þingsins 1970 að staðfesta reikninginn fyrir 1968.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera reikninginn á þessu stigi að umtalsefni. Að svo miklu leyti sem tilefni þykir til þess að ræða einstakar aths. yfirskoðunarmanna og reikninginn í heild, þá hygg ég, að hv. þdm. séu mér sammála um, að eðlilegra sé að gera það, þegar reikningurinn kemur úr n. Ég vil aðeins geta þess, að það eru tvær till. yfirskoðunarmanna, þar sem vísað er til aðgerða Alþ. Að öðru leyti eru svör rn. talin fullnægjandi við öðrum aths. yfirskoðunarmanna eða þá, að tekið er fram, að það skuli vera til athugunar eftirleiðis, svo sem er venjulegt orðalag hjá yfirskoðunarmönnum. En þessar tvær till. eru annars vegar um reikningshald Bjargráðasjóðs, sem er í rauninni ekki veigamikið atriði að öðru leyti en því, að það er nokkur skoðanamunur milli stjórnar Bjargráðasjóðs og yfirskoðunarmanna á því, hvernig túlka skuli lagaatriði í bókhaldi Bjargráðasjóðs. Skal ég ekki ræða það frekar, en tel rétt, að hv. fjhn. athugi það mál. En hin till., sem vísað er til aðgerða Alþ., er afgreiðsla dómsmrn. á aðfinnslum yfirskoðunarmanna varðandi embætti húsameistara ríkisins. Ég sé ekki heldur ástæðu til þess á þessu stigi málsins að gera það að umtalsefni, en tel jafnframt rétt, að hv. fjhn. athugi þær aðfinnslur, sem þar er um að ræða, og hvort nokkur ástæða þyki til þess frekar að láta í ljósi skoðanir af hálfu þingsins á þeirri afgreiðslu, sem þar hefur átt sér stað.

Að öðru leyti, herra forseti, sé ég ekki ástæðu til að gera reikninginn að umtalsefni á þessu stigi og legg til, að honum verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.