29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Eins og mönnum er kunnugt er loksins lokið fasteignamati hér á landinu og ég ætla, að það fasteignamat eigi að taka gildi 1. jan. n.k. Þar sem þessi mál eru nú hér til umr., vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. fjmrh.: Þarf ekki að breyta ýmsum lögum, sem nú eru í gildi, vegna þess að nú tekur gildi nýtt fasteignamat? Mér skilst, að það séu fjöldamörg gjöld í þjóðfélaginu, sem eru miðuð við fasteignamat, gjöld bæði til ríkis og bæja og jafnvel fleiri aðila. Eins og menn hafa sjálfsagt séð eða heyrt, hefur fasteignamat hækkað nú eða réttara sagt margfaldazt frá því, sem var. Ég sé t.d., að ýmsar íbúðir hér í bænum munu tífaldast eða tólffaldast í fasteignamáli og það, sem mér þótti enn þá merkilegra, var það, að jörð ein, sem ég á vestur á landi, hefur 25 faldazt í fasteignamati. Til viðbótar þessu eru í gildi lög, sem mæla svo fyrir, að fasteignamat skuli nífaldast í bæjarfélögum og í sveitum 4.5 faldast til eignarskatts og þar með líka til eignarútsvars, svo að ég get ímyndað mér, að ef jarðir í landinu eru nú farnar að 25–faldast í fasteignamati og haldið verður áfram með lög, sem eru í gildi um að nífalda það, svo að ég taki dæmi, þá fara skattarnir að verða allríflegir hjá einhverjum. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geti nú svarað þessu, því að ég er með því að spara fsp. í Sþ. og finnst þetta miklu eðlilegri leið og er ég þá að gera hæstv. forseta til geðs, þ.e.a.s. forseta Sþ.