01.02.1971
Neðri deild: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Inn í umr. um það mál, sem hér liggur fyrir, hefur af mjög skiljanlegum ástæðum blandazt hið mikla deilumál, sem mikið hefur verið um talað og skrifað nú að undanförnu, en það eru deilurnar um virkjunina í Laxá. Það var í sambandi við þennan þátt þessara umr., sem ég vildi segja hér nokkur orð, en mér finnst nú, að þegar mál eins og þetta er hér til umr., þ.e. um náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og fyllilega má búast við því, að þessi miklu deilumál, sem þar eru fyrir hendi, komi hér einnig til umr., þá væri ekki óeðlilegt, að þeir ráðh., sem sérstaklega hafa haft með þessi mál að gera og bera af hálfu hins opinbera verulega ábyrgð á þessum málum, væru staddir hérna í þinginu og tækju þátt í umr. um málið. Ég hafði hugsað mér að beina hér í tilefni af þessum þætti málsins fsp. alveg sérstaklega til hæstv. iðnrh., sem jafnframt er forsrh. og ég vildi fara fram á það við hæstv. forseta, að hann gerði tilraun til þess að fá hæstv. ráðh. til að koma hér í salinn og hlýða á mál manna um þetta efni og svara hér fsp. Ef það reynist svo, að það sé ekki hægt að fá hann til þess að mæta hér, þá mundi ég kannske reyna að beina fsp. mínum til annarra ráðh. eða a.m.k. þess ráðh., sem það mál beinlínis heyrir undir, sem hér er nú til umr., þ.e.a.s. þetta náttúruverndarfrv., en það er hæstv. menntmrh., en hann er nú ekki hér staddur heldur. Ég vildi nú óska eftir því, að hæstv. forseti gerði fyrir mig tilraun til þess að iðnrh. mætti hér í d. og svaraði fsp. minni varðandi þetta mál. (Forseti: Það er verið að athuga málið.) Ja, fyrst svo er, að það reynist ekki mögulegt …... (Forseti: Þá höfum við hæstv. menntmrh. Gæti hv. ræðumaður haldið fram sinni ræðu þá?) Jú, hér kemur hæstv. iðnrh. og forsrh. í salinn og það var einmitt til hans, sem ég vildi beina sérstaklega máli mínu.

Eins og ég sagði, hefur dregizt inn í umr. um það mál, sem hér er nú til umr. varðandi náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár í Suður–Þingeyjarsýslu, hafa dregizt nokkuð þær miklu deilur, sem þar eiga sér stað um virkjun í Laxá á milli bænda, sem landsrétt eiga að Laxá og Laxárvirkjunarstjórnar. Eins og ég sagði, er mjög eðlilegt, að þetta mikla deilumál, sem mjög er rætt um í landinu nú, dragist inn í umr. um þetta mál og það er kannske seinna en von var á, að málið væri tekið upp í umr. hér á Alþ. og fsp. gerðar hér út af því, sem þar á sér stað. Við höfum heyrt um það, að svo er komið, að ráðstafanir eru gerðar til þess að lögsækja 65 bændur á þessu svæði og helzt er um það rætt, að e.t.v. verði að hneppa þá alla í fangelsi fyrir meint lögbrot. Það er all alvarlegt mál, þegar slíkt kemur fyrir. Ég hef lagt í það þann skilning, það sem ég hef heyrt af þessu máli, að Hæstiréttur hafi í úrskurði sínum litið svo á, að Laxárvirkjunarstjórn hefði ekki á fullnægjandi hátt samkv. lögum tryggt sér rétt í sambandi við virkjunarframkvæmdir í Laxá og á þeim grundvelli hefði verið talið réttmætt, að bændurnir gætu krafizt þess, að tilteknar framkvæmdir þar væru stöðvaðar, a.m.k. á meðan úr því fengist skorið til fullnustu, hver væri réttur bændanna og hver væri réttarstaða þeirra, sem þegar hafa hafið virkjunarframkvæmdir á þessum stað.

Svo gerist það í þessu máli, að hæstv. forsrh. hefur beitt sér allmikið fyrir því að reyna að leita sátta milli deiluaðila, frá því hefur verið skýrt. Sættir hafa ekki tekizt og það hefur komið greinilega fram, að mér sýnist, að bændurnir hafi ekki getað sætzt á neina málamiðlunarlausn í þessu máli, á meðan Laxárvirkjunarstjórn heldur áfram fyrirætluðum framkvæmdum sínum. Þetta er svo sem ekki óvenjuleg aðstaða, þar sem deilur af þessu tagi koma upp, að það takist ekki sættir, á meðan annar aðilinn heldur fram sínum hlut og sínu verki eins og ekkert hafi í skorizt, á meðan deilan enn stendur yfir. Manni sýnist í rauninni, að eitt af því sjálfsagðasta væri að stöðva þarna allar framkvæmdir og reyna þannig að skapa grundvöll fyrir sáttum, því að grundvöllurinn sé mjög lítill og hæpinn meðan annar fer sínu fram. Bændurnir fengu í þessu tilfelli verulega viðurkenningu á sínum málstað í úrskurði Hæstaréttar, en þar var þó ekki allur sigur fenginn, vegna þess að þó að svo hafi virzt, að þeir ættu þarna mikinn rétt, bændurnir, þá er sagt við þá: „Þið getið ekki stöðvað þetta verk, sem Laxárvirkjunarstjórn stendur í og hefur ekki leitað eftir fyllilegum samningum um, nema þið bændurnir leggið fram 135 millj. kr. tryggingu, til þess að það sé tryggt, að Laxárvirkjunarstjórn bíði ekki skaða á einn eða neinn hátt í sambandi við sínar framkvæmdir.“ Ég vil nú segja, að í mínum augum eru kröfur af þessu tagi svipaðar því, að ofríkismaður vildi sölsa undir sig eignaraðstöðu fátæks manns, hefði m.a. látið jarðýtur sínar eða önnur þungaverkfæri bruna inn á lóð hans, jafnvel brjóta niður hús hans að einhverju leyti og þegar hinn fátæki maður mótmælir þessu og krefst þess, að ofríkismaðurinn hætti, þá segir ofríkismaðurinn: Ef ég á að bakka ýtunni út úr húsinu, þá verður þú að leggja fram stóra fjárhæð til tryggingar því, að ég verði skaðlaus. Þannig er auðvitað hægt í reynd að gera rétt hins fátæka að engu.

Nú liggur það fyrir í þessu máli, að sjálft ríkið er helmings eignaraðili að Laxárvirkjun og er því allgildur aðili að þessu máli. Ég hefði því talið, að það væri full ástæða til þess, að ríkisvaldið legði hér meira af mörkum en það hefur gert til þess að fá eðlilega lausn á þessu deilumáli. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh., hvort hann teldi ekki eins og nú er komið, fulla ástæðu vera til þess, að ríkið sem helmingseignaraðili að Laxárvirkjun beitti sér fyrir því að lýsa yfir stöðvun á öllum framkvæmdum við virkjunina þar norður frá um a.m.k. einhvern tiltekinn tíma, á meðan leitað væri sátta í deilunni. Og í öðru lagi vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvort honum þætti ekki eðlilegt, eins og þetta mál hefur borið að, að beita sér fyrir því, ef ekki er hægt að stöðva verkið með öðrum hætti, að því yrði lýst yfir, að ríkið sjálft tæki að sér að leggja fram þessa tryggingarupphæð gagnvart Laxárvirkjunarstjórn, 135 millj. kr., á meðan verkið væri stöðvað og úr því skorið, hver ætti réttinn. Ég tel, að það sé með öllu óverjandi að halda áfram þessum deilum á þann hátt, sem gert hefur verið. Þær hljóta að magnast og það fer auðvitað svo, að það verður ekki aðeins ein dínamítsprengja, þær verða miklu fleiri eflaust, ef það á að þjösnast áfram í þessu máli. Það má vel vera, að það sé eitthvað til í því, sem hér kom fram í umr., að tilteknar hreppsnefndir eða tilteknir aðilar á þessu svæði og kannske bændurnir allir gætu sætt sig við einhverja tiltekna virkjunarstærð í Laxá, hvort sem hún heitir Virkjun III eða eitthvað annað, sem hér var nefnt, ef þeir hefðu fullt traust til þess, að það væri verið að framkvæma þá virkjun, sem þar er rætt um. En það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem eitthvað hefur lesið af því, sem fram hefur komið opinberlega um þessi deilumál þar norður frá, að þar er í rauninni enn verið að deila um Gljúfurversvirkjun sem heild. Á meðan undirstöðurnar eru byggðar eins og fyrir heildarvirkjun og meðan tilteknar vélar hafa verið keyptar til virkjunarinnar fyrir miklu stærri mannvirki en talað er um, að nú skuli ráðast í, þá vantar auðvitað trú á það hjá bændunum, að það sé raunverulega verið að segja þeim satt.

Þetta voru þær fsp., sem mig langaði til þess að koma hér fram til hæstv. forsrh. varðandi þann þátt þessara mála, sem hér hefur nokkuð borið á góma, en ég teldi mjög mikilsvert, að hæstv. ráðh. vildi beita sér fyrir því, að framkvæmdir við þessa umdeildu virkjun yrðu stöðvaðar í bili með einum eða öðrum hætti og á þann hátt lagður grundvöllur að því, að hægt væri að ná sáttum í þessari deilu.