17.02.1971
Neðri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (2969)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér síðast til umr., þá kvaddi ég mér hljóðs og sagði hér örfá orð, aðallega í þeim tilgangi, að ég beindi tilteknum spurningum til hæstv. forsrh., sem jafnframt er iðnrh. og hefur þar með yfirstjórn raforkumálanna í landinu í sínum höndum. Ég benti á þá einföldu staðreynd, sem allir vissu mætavel um, að upp var risin mjög alvarleg deila í landinu varðandi virkjunarframkvæmdir í Laxá og í þeim efnum hafði ýmislegt gerzt, sem vissulega hafði vakið umtal og deilur manna á meðal og ég taldi, að það væri nauðsynlegt, þegar slíkt gerðist eins og þetta, að ríkisvaldið legði sig fram um það að koma á sáttum og leysa þá deilu, sem upp væri komin. Og ég taldi, að eina leiðin í þessu máli til þess að hægt yrði að leysa vandann væri að stöðva þær byggingarframkvæmdir, sem fram færu við Laxá. Og ég beindi því sérstaklega til forsrh., hvort hann gæti ekki beitt sér fyrir því, að þessi afstaða yrði tekin, að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar og síðan yrði leitað eftir samkomulagsgrundvelli, þar sem telja mætti alveg augljóst mál, að samkomulag næðist ekki á milli aðila eins og nú væri komið málum, ef framkvæmdunum yrði haldið áfram. Ég benti einnig á það, að ef svo fast yrði staðið á því að heimta, að trygging yrði sett, fjártrygging yrði sett vegna stöðvunarinnar á framkvæmdum, fjártrygging, sem næmi 135 millj. kr. eins og talað hefur verið um, þá kæmi að mínum dómi fyllilega til álita, að ríkið sjálft setti þessa tryggingu gagnvart Laxárvirkjunarstjórn, ef hún ætti á þessu fullan rétt, og síðan yrði snúizt að því að reyna að leysa málið. Þetta var í rauninni allt og sumt, sem ég sagði um þetta mál, að leggja fram fsp. í þessa átt. Ég fékk þau svör hjá hæstv. forsrh., jú, að hann hefði mikinn áhuga á því að leysa þessa deilu. Það hefði hann sýnt á ýmsan hátt og hann væri nú enn á ný að leita eftir samkomulagsgrundvelli og hann teldi nú miklar líkur vera á því, að nú væri grundvöllurinn að finnast og samkomulag væri e.t.v. að nást og svaraði svo ekki frekar minni fsp. en með þessu að gefa það í skyn, að nú væru komnar upp nýjar og góðar líkur í málinu.

Nú sé ég það og heyri á því, sem gerzt hefur í þessum umr. í dag, að þessi fáu orð mín hafa farið óþyrmilega í taugarnar á ýmsum hv. alþm., jafnvel svo, að fulltrúar frá heilum flokkum hafa ekki fyllilega náð sér enn út af því, að ég sagði þessi fáu orð og um þetta efni. Í fyrsta lagi er það sagt, að í tilefni af ýmsum öðrum orðum, sem flugu manna á milli, hafi ég verið látinn tala sem formaður í þingflokki Alþb. og blanda mér þarna í mál, sem mér kom ekkert við; eins og annar þm. vék að, svona með sínu orðalagi, sýnilega til þess að reyna að lokka einhver saklaus atkvæði frá öðrum flokkum yfir til okkar. Þetta er alveg furðulegt að mínum dómi. Ég hef margsinnis gert það hér á Alþ. að vekja athygli á stórum og þýðingarmiklum málum, ýmist utan dagskrár eða í umr., hef talið mér það skylt sem þm. að benda á það, að þegar upp er kominn stór og mikill vandi, þá hvílir á stjórnarvöldum landsins ákveðin skylda til þess að leysa slíkan vanda og þegar þannig stendur á eins og í þessu tilfelli, að ríkið er beinlínis helmings eignaraðili að Laxárvirkjun, þá hvílir enn þá meiri skylda á ríkisvaldinu að reyna að koma í veg fyrir vandræði í sambandi við þetta mál. Ég tel því, að það, sem ég sagði um þetta, hafi verið af fyllstu ástæðu og aðeins eðlilegt og ég hafi haft jafnan og eins mikinn rétt eins og hver annar til þess að benda á þessa staðreynd, hvort sem það hefur nú fallið betur eða verr í geð sumum þeirra manna, sem sogazt hafa inn í þessar deilur. Það er auðvitað enginn vafi á því og ég efast ekkert um það, að allir hv. alþm., sem fylgzt hafa með umr. um þetta mál, hafa gert sér grein fyrir því, að það er ekki líklegt, eins og komið er, að neinar sættir takist í þessu máli án þess að framkvæmdir við verkið verði stöðvaðar á einhverju tímabili, á meðan verið er að leita að sáttagrundvelli. Þeir, sem ekki vilja fallast á þetta, ætla sér að reyna að ná fram sínu sjónarmiði á einn eða annan hátt með afli. Þeir ætla að reyna að láta meiri hlutann samþykkja, að þeirra skoðun sé rétt. Þeir ætla að þjösnast áfram í málinu, sem ég tel mjög óhyggilegt. Og í þessum efnum vek ég athygli á því, að því miður hefur það ekki komið fram hér í þessum umr., að aðilar, sem hér tala að meira eða minna leyti fyrir stjórnmálaflokk í þessu máli, þeir segðu hug sinn varðandi þetta meginatriði málsins. Eru þeir samþykkir því, að framkvæmdirnar þar fyrir norðan verði stöðvaðar á einn eða annan hátt á einhverju tímabili, á meðan er verið að leita að sáttagrundvelli? Ég spyr þá hv. þm., sem tala í þessu máli, eru þeir samþykkir því, að fram á það sé farið? Það er að mínum dómi ákaflega haldlítið, eins og komið er, að fjasa fram og til baka um ýmislegt af því, sem fyrr hefur gerzt í þessu máli. Og þó allra furðulegast að fara að tala um það, hvaða verkfræðingur hafi fyrst látið sér detta eitthvað í hug í sambandi við þá útreikninga, sem á pappír hafa verið settir varðandi þessi mál. Spurningin er auðvitað þessi: Vilja menn leysa þá deilu, sem upp er komin og hvernig á að gera það? Ég vil t. d. spyrja þá þm. úr Norðurl. e., sem hér eiga sæti í hv. Nd. og ræða þetta mál og hafa m. a. rætt málið af talsverðum flokkslegum hita, ég vil spyrja þá alveg gagngert um það, eru þeir sammála því að leggja það til við ríkisstj., að hún beiti sér fyrir því, að allar framkvæmdir við virkjunarmannvirkin við Laxá verði stöðvaðar á meðan leitað er sátta í málinu? Ég fyrir mitt leyti álít það, að einmitt afstaðan til þessa atriðis skeri alveg úr um það, hver alvara er á bak við það að reyna að leysa þetta mál.

Það er svo, að það dragast inn í málið hér í löngum umr. ýmsir þættir, sem verður auðvitað að telja aukaþætti, en ég ætla þó að víkja hér örlítið að einum þætti málsins að gefnu tilefni. Það var hv. 9. landsk. þm. (BrS), sem sýnilega hafði mjög fundið til undan því sem ég sagði hér, þegar ég bar mínar fsp. fram til hæstv. forsrh. Hann sagðist afbiðja sér öll afskipti mín af raforkumálum þeirra þar norður frá. Það er nú einu sinni svo, að þessi raforkumál þurfa að koma fyrir hér á Alþ. og við þurfum að fjalla um þau og ég á jafnan rétt til þess að fjalla um þau og hann, og hann neitar mér ekki um neinn rétt til þess að láta uppi mínar skoðanir í þeim málum, þegar þau koma hér fyrir.

En í þessum efnum þykir mér rétt að minna á það, að Laxárvirkjunarstjórn, sú stjórn, sem hann tekur hér sérstaklega að sér að verja í þessu máli og hefur verið ærið tengdur við á undanförnum árum, hafði ekki aðeins fjallað um það árum saman að láta reikna út, hvernig ætti að virkja fyrir Norðurland og hvernig ætti að leysa raforkuþörf þeirra, sem þar búa. Nei, hún hafði gert áætlanir um virkjun á Norðurlandi fyrir Austurland upp á heilar bækur og fengið til þess marga menn að standa í slíku og staðið alveg tvímælalaust með vinnubrögðum sínum vitandi vits gegn því, sem var eindreginn vilji manna á Austurlandi í sambandi við raforkumál þeirra. Þá var nú ekki talað um það, að menn ættu ekki að skipta sér af því, hvað gerðist í raforkumálum annarra. Og öll plönin um Gljúfurversvirkjun voru beinlínis byggð á því að haga virkjuninni þannig, að hún ætti að vera ekki aðeins fyrir Norðurl. e., heldur einnig vesturhluta Norðurlands og allt Austurland. Það var grundvöllurinn, sem byggt var á. Við það voru allir útreikningar miðaðir. Tillögur þessarar Laxárvirkjunarstjórnar í þessum efnum og vinnubrögð hennar hafa auðvitað tafið raforkuframkvæmdir á Austurlandi í mörg ár. Það er mál út af fyrir sig, og það var ekki fyrr en allt var komið í stórastrand hjá Laxárvirkjunarstjórn með hennar Gljúfurversframkvæmdir, að fyrst fór að losna um hjá okkur á Austurlandi og við gátum fengið í friði að snúa okkur að okkar virkjunarmálum og fá þar fram samþykktir hjá stjórnarvöldum fyrir því, að við gætum leyst okkar raforkumál. Það var ekki fyrr en þeir höfðu sett allt í harðan hnút með tillögum sínum í sambandi við Gljúfurversvirkjun. Það sakar ekkert, að þessi þáttur komi hér fram í þessum umr., fyrst tilefni er til þess gefið.

Þessi sami hv. þm., hv. 9. landsk. þm. (BrS), komst svo að orði, að deilan, sem upp væri risin í sambandi við Laxárvirkjun, væri deila á milli nokkurra manna, fárra manna, fárra sérhyggjumanna og ofríkismanna og alls þorra þess fólks, sem byggði héruðin þar fyrir norðan. Það munaði nú ekkert um það. Það er svo sem eðlilegt, að þessi hv. þm. sé á þeirri skoðun, að það þurfi í rauninni ekkert annað að gera en lögsækja þessa vandræðamenn, þessa fáu menn, og helzt af öllu að hýsa þá á viðeigandi hátt og þá sé auðvitað allt saman leyst í þessu máli. Það er skiljanlegt, að þegar svona sjónarmið eru ráðandi, þá fari á þann hátt, sem farið hefur í sambandi við þetta mál. Þegar menn eru svona blindir af ofstæki og neita beinlínis að viðurkenna þær staðreyndir, sem þeir ættu að sjá, og þjösnast með þessum hætti, þá hljóta þeir alltaf að lenda í ógöngum, eins og hér hefur farið. Ég ætla þó, að þessi hv. þm. hafi veitt því athygli eins og aðrir, að hæstaréttarúrskurður hefur verið birtur um það, að ekki hafi verið farið að lögum og reglum í sambandi við undirbúning að þessum framkvæmdum, að ekki hafi verið leitað samkv. lögum og reglum eftir þeim heimildum eða gerðir þeir samningar við réttaraðila þessa máls, sem hefði átt að gera samkv. lögum. Hefur þetta farið fram hjá hv. þm. eða skiptir hann þetta engu, þó að það liggi fyrir, að Laxárvirkjunarstjórn hefur efnt til framkvæmda upp á marga tugi, og reyndar líklega frekar hundruð millj. en tugi millj. framkvæmda, án þess að hafa farið að lögum og samið við þá aðila, sem eiga lagalegan rétt í sambandi við málið? Það er auðvitað enginn vafi á því, að þetta deilumál er annars vegar á milli tiltekinna hagsmunaaðila, sem eiga lönd að ánni, — og þeir vilja vitanlega halda fram sínum rétti — og svo þeirra aðila, sem hafa forgöngu um virkjanir á þessu svæði, en þessi deila nær augljóslega langt út fyrir það að ná aðeins til þessara aðila. Hér hefur auðvitað komið upp, að mikill ágreiningur er út frá náttúruverndarsjónarmiðum aðila. Það hefur auðvitað engum manni blandazt hugur um það, að ef átt hefði að framkvæma Gljúfurversvirkjun, eins og áætlanir voru gerðar um, þá var þar um stórkostlega röskun á náttúru þessa svæðis að ræða. Og þegar það liggur svo fyrir, að enn er staðið að framkvæmdunum þannig, að ýmis grundvallaratriðin frá Gljúfurversvirkjun eru enn í fullu gildi, að enn er t. d. verið að sprengja göng, sem eru jafnstór og ráðgerð voru fyrir Gljúfurversvirkjun, — það er rétt, það er þetta, sem hefur opinberlega komið fram — og þar að auki hafa verið keyptar vélar fyrir miklu stærri virkjun en heimildir eru til um. (Gripið fram í.) Ja, ég skal játa það og skal með gleði taka það til baka, ef ég verð sannfærður um annað. Þarna hef ég það aðeins eftir, sem ég hef séð ritað um málið af aðilum, sem um það hafa skrifað, og ég hef hvergi séð þessu mótmælt á prenti, hvergi. Ég var síðast að lesa það í nýútkomnu blaði rétt núna, Vísi frá í dag, þar sem einn af aðilum þessa máls lýsir þessu einmitt yfir í grg. Ég hlýt svo auðvitað að taka frammíköllum þessa hv. þm. mjög með fyrirvara, m. a. vegna þess, að hér í þessum umr. er búið að lesa það upp yfir honum, að hann hefur farið hér með rangt mál á Alþ., alveg tvímælalaust. Hann hefur staðhæft margt um samþykktir í héraði, sem nú er búið að sanna í þessum umr., að ekki á við rök að styðjast, og þar hefur hann farið tvímælalaust með rangt mál, svo að ég tek hans fullyrðingum í þessum efnum líka með miklum fyrirvara. En ég hef sagt það hér áður, að fyrir mér er þetta mál ekki fyrst og fremst það, að ég hafi ætlað mér að taka hér þátt í einhverjum löngum deilum um málið sem heild eða einstaka þætti þess. Fyrir mér var það aðalatriði, að þarna er á ferðinni alvarleg deila, sem er nauðsynlegt að leysa. Og ég sé ekki, að það sé hægt að leysa hana á annan hátt en þann að stöðva þær framkvæmdir, sem þarna eru í gangi, á einhverju tímabili og leita þannig að sáttagrundvelli. Þetta er það, sem ég tel vera aðalatriði málsins. Ég er andvígur þeirri leið, sem sumir virðast enn vilja halda áfram, að streitast í sífellu í þessu máli, að fara lögsóknarleiðina eða ætla að reyna að dæma af manni eðlilegan rétt með því að krefjast svo hárra fjártrygginga, að bændur almennt geti ekki undir slíku risið. Ég tel það enga leið út úr vandanum að halda slíku áfram.

Ég skil það mætavel, að ekki sízt þm. úr því héraði, þar sem deilan hefur komið upp, séu svolítið viðkvæmir í þessu máli og þeir telji jafnvel, að þessi eða hinn aðilinn tali eins og hann gerir í málinu með það fyrir augum að vinna eitthvað á því pólitískt. Og ég læt mér í léttu rúmi liggja það, sem sagt er um mig í sambandi við slíkar fullyrðingar. Ég endurtek aðeins það, sem ég hef sagt áður, að ég álít, að það eigi að vinna að því að leysa þetta mál fyrst og fremst og ég tek undir þau sjónarmið, sem fram hafa komið, að grundvöllurinn sé þessi, að það eigi að stöðva framkvæmdirnar og síðan eigi að fara fram þær undirstöðurannsóknir á málinu, sem hlaupið hefur verið yfir og sem margir þjóðkunnir náttúruverndarmenn hafa bent á, að þurfi að fara fram í sambandi við virkjanir á þessu svæði. Það er auðvitað enginn vafi á því, að það er auðvelt mál að framleiða raforku með allgóðu móti fyrir Norðurland, þó að aðrar leiðir séu farnar til þess en samkv. þeim tillögum, sem deilt er um í þessum efnum. Þar er um marga aðra kosti að ræða og það þarf vitanlega ekki að setja þetta mál upp þannig, að þeir, sem andvígir eru þessari framkvæmd, vilji skilja Norðlendinga eftir raforkulausa. Slíkt er vitanlega hrein fjarstæða. Mér sýnist sem sagt, að það hafi ekki komið enn þá fram nægilegur áhugi hjá þeim stjórnarvöldum, sem hér geta ráðið öllum úrslitum, fyrir því að vinna að því að leysa deilumálin.

Um frv. sjálft, sem hér liggur fyrir, ætla ég ekki að ræða. Það á eftir að athugast nánar í n. og verður rætt hér síðar. En það er hins vegar ofur eðlilegt, að þetta margumtalaða deilumál í sambandi við virkjunina í Laxá blandist inn í umr. um þetta frv. Það er ofur eðlilegt.

Ég skal svo láta máli mínu lokið að sinni.