14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (3058)

171. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Þegar frv. um bann við tóbaksauglýsingum var til meðferðar hér í hv. Ed. nú fyrir skömmu, lýsti ég þar þeirri skoðun minni, að ég áliti, að ekki hefði verið ráðleg sú breyting á lögunum um tóbakseinkasöluna, sem samþ. var, þess eðlis að merkja sígarettupakka með sérstöku aðvörunarmerki. Það hefði skilað sáralitlum árangri og þess vegna væri það vissulega spurning, hvort ekki væri miklu betur varið því fé, sem varið væri til þessara merkinga, með áróðri gegn tóbaksnotkun á annan hátt heldur en að eyða því í merkimiða á sígarettupakka. Hv. flm. þessa frv. hér, sem er forstjóri tóbaks- og áfengisverzlunar ríkisins og þekkir þetta manna bezt, hefur hér staðfest það, svo að ekki verður um villzt, að þessi aðvörunarmerki hafa ekki skilað neinum árangri, enda gefur það í rauninni auga leið, að sá árangur sé ekki til staðar. Og ég álít ekki sízt, að einmitt helzta vonin til að vinna á móti sígarettureykingum sé sú að ná til unga fólksins, sem er að vaxa upp og sem ekki kaupir sígarettupakka eða les þessar aðvaranir, en þarf að fá þær annars staðar frá. Auk þess sem það eykur aldrei virðingu fyrir neinum aðvörunum, ef menn hafa það að stöðugri venju dag eftir dag að hafa þær að engu og varpa þeim frá sér í pappírskörfuna, eins og gerist með umbúðir sígarettupakkanna. Ég ætla ekki að hafa um þetta frv. önnur orð en þau, að ég er því algerlega sammála og tel það stefni mjög í rétta átt og að með því að hagnýta þetta fé, sem hér er gert ráð fyrir, þá sé a. m. k. mjög líklegt, ef ekki öruggt, að ná megi mun betri árangri og það sé mjög happasælt að hafa þá samvinnu við þau tvenn samtök, sem að er vikið í frv. Þau bera mest fyrir brjósti að koma á framfæri aðvörunum í þessa átt og eru líklegust til þess að hafa þekkingu á því, hvernig haganlegast sé að koma við aðvöruninni, í auglýsingum eða með öðru móti, það skiptir ekki meginmáli, það má vel prófa sig áfram með þetta á þennan hátt. Ég held því, að það sé engum efa bundið, að þetta eigi að gera og að þetta frv., sem hér liggur fyrir, eigi að samþykkja nú á þessu þingi og það sem fyrst.