18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (3139)

209. mál, hefð

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég er eiginlega hálfhissa á því, að hv. þm. Björn Pálsson skuli fara að rifja upp þetta Skjónumál hér í þingsölum, því að jafnvel þó að þetta frv. hafi nú verið flutt, þá er það í raun og veru afskaplega eðlilegt, að það skuli vera flutt, og það er eiginlega furðulegt, að þetta gat skuli hafa verið í þessum lögum allan þennan tíma eða hátt í það í 70 ár. Og ég hefði nú talið það sæmra Birni á Löngumýri, að hann hefði borið þetta frv. fram sjálfur í þinginu. Annars ætla ég ekki að fara að ræða þetta mál hér, en það er æðioft, þegar hann er að tala um frændur sína, — hann nefndi raunar ekki mig að þessu sinni, — að þá á hann við mig og Eyjólf Konráð og Pálma á Akri, og er honum náttúrlega ekki til skammar að eiga okkur að frændum sínum. Og ég vil segja, að okkur er það í sjálfu sér ekki til skammar að eiga hann að frænda, ef hann kynni þá mannasiði, eins og ég nefndi nú áðan, að bera fram sjálfur þetta frv. eftir það, sem gerzt hefur í þessum málum.

Sem sagt, það eina, sem ég kem hér upp til þess að segja, er það, að það er ekki runnið frá neinum okkar þessara þriggja manna, að þetta Skjónumál fór af stað. Að vísu er ég ekki vanur því að bera blak af mér, þó að það sé eitthvað sagt um mig, þegar ég veit, að ég á enga sök í málinu. Það er ekki venja mín, læt það lönd og leið. En mér þykir það furðulegt, þegar Björn á Löngumýri er að lesa hér upp markadóma, en honum verður ekki tíðrætt um það, að það vantar bitann á hægra eyrað á merinni, gjörsamlega vantar. Auðvitað hefur maður eins og Björn á Löngumýri vel getað gleymt því að marka bitann á eyrað. Hann er alveg viss með það. Ég man ekki, hvort bitinn er að framan eða aftan hjá honum, en hann er það, annaðhvort hjá honum eða frændum hans á Guðlaugsstöðum, það er, biti framan og biti aftan á víxl á þeim bæjum. Svo er hann að gefa það í skyn, að það hafi verið krassað í eyrun á merinni, eftir að hún var komin vestur í Þing. Hvað er hann að fara, þessi maður? Er hann að væna menn um það þar, að þeir hafi verið að marka upp merina til þess að sanna á hann einhver afglöp? Ég hélt nú satt að segja, að það þyrfti ekki að sanna nein afglöp upp á Björn á Löngumýri í sambandi við slík mál, því að hann er viðurkenndur trassi í þessum málum í öllu Húnaþingi.