20.10.1970
Sameinað þing: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

1. mál, fjárlög 1971

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það kann svo að fara, að þetta verði í síðasta skipti, sem framsöguræðu fjmrh. og umr. um hana verður útvarpað frá Alþ. með þeim hætti, sem nú er gert og tíðkazt hefur um langt skeið. Ég segi þetta vegna þess, að fyrir nokkrum árum síðan samdi mþn., skipuð fulltrúum allra þingflokka, frv. til l. um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, þar sem gert er ráð fyrir niðurfellingu á útvarpi frá þessari umr. um fjárlög, en að þess í stað verði upp tekinn sá háttur að útvarpa stefnuræðu forsrh. og umr. um hana innan tveggja vikna frá þingsetningu. Frv. þetta verður nú lagt fyrir Alþingi í fjórða sinn, og nái það fram að ganga með umræddri breytingu kann svo að fara, eins og ég sagði áðan, að þetta verði í síðasta sinn, sem útvarpað verður frá 1. umr. fjárl. eins og nú er gert.

Einnig gerir þingskapafrv. ráð fyrir verulegri styttingu á því tveggja kvölda útvarpi frá framhaldi 1. umr. fjárl., sem mörg hin síðari ár hefur verið snúið upp í almennar stjórnmálaumr. á síðari hluta þings, svokallaðar eldhúsdagsumr., og getur sú breyting naumast orðið mikið deiluefni. En vilja menn vera án þess að eiga þess kost að heyra fjárlagaræðu fjmrh.? Um það kunna að vera skiptar skoðanir, einkum vegna þess, hversu mikill fjöldi fólks þarf starfa sinna vegna að kynna sér fjárl. á ári hverju. Ríkið með öllum stofnunum, sem það rekur eða tekur þátt í að reka, er stærsti vinnuveitandi í landinu. Á þess vegum á sér stað gífurlega mikil tekju- og aðstöðujöfnun milli þjóðfélagsþegnanna, þannig að rekstur ríkisins og ráðstafanir þeirra fjármuna, sem um ríkissjóð og stofnanir ríkisins fara, varða hag og afkomu allra landsmanna. Þess vegna eru fjárlög einna mikilvægust allra mála, sem fyrir Alþingi koma, og alþjóð þarf jafnan að eiga þess kost að fylgjast sem bezt með afgreiðslu þeirra. Getur því orkað tvímælis að fella niður þetta útvarp, nema eitthvað annað komi örugglega í staðinn, er veiti haldgóðar upplýsingar um fjárlög hverju sinni, t. d. erindi og viðtalsþættir í útvarpi og sjónvarpi og fræðandi skrif í blöðum. Þjóðin þarf að geta fylgzt vel með því, sem gerist á Alþ., bæði að því er varðar fjárlög og önnur málefni, sem þingið fjallar um, og aðkallandi er orðið, að í þessu efni verði ýmsar breytingar í samræmi við breytta tíma og nýja tækni.

Fjárlög fyrir árið 1971, sem hér liggja fyrir til umr., eru að sönnu há í krónutölu. Tekjur eru áætlaðar 10 milljarðar 592 millj. 957 þús. kr. Gjöldin eru aftur á móti áætluð 10 milljarðar 39 millj. 916 þús. kr. Tekjuafgangur verður 313 millj. 453 þús. kr., þegar tekið hefur verið tillit til lánahreyfinga. Þetta eru háar tölur, og margir tala um, að þensla í ríkisbákninu, eins og það er orðað, sé óhæfilega mikil. Þeir, sem þannig tala, gleyma þá oft, að þeir fjármunir, sem um ríkissjóð fara, eru að verulegu leyti tekjujöfnun milli þegna þjóðfélagsins og millifærslur til margvíslegra þarfa atvinnuveganna, sem ástæða er talin til, að þjóðarheildin veiti stuðning um lengri eða skemmri tíma. Engu að síður er rekstur ríkisins og fyrirtækja þess risavaxinn á okkar mælikvarða, og engan veginn er það ætlun mín að mótmæla þeim, sem vilja gæta aðhalds og hófs í hinum eiginlega ríkisrekstri, þótt ég leiði hér á eftir nokkur rök að því, að útþensla ríkisbáknsins, sem svo er kallað, sé ekki eins mikil og virðast kann við fyrstu sýn, þegar heildarupphæð fjárl. er ein athuguð án samhengis við annað. Það er t. d. í þessu sambandi fróðlegt að athuga, hversu stór prósentuhluti ríkistekjur eru af þjóðarframleiðslu. Þótt slíkur samanburður geti ekki af ýmsum ástæðum orðið nákvæmur, gefur hann samt nokkra vísbendingu í þessu efni. Þessar hlutfallstölur eru þannig fyrir tímabilið 1959–1968, og þá gengið út frá tekjum ríkisins og þjóðarframleiðslu á verðlagi hvers árs: 1959 31%, 1960 28.4%, 1961 18.7%, 1962 19.l%, 1963 19.5%, 1964 18.7%, 1965 19.7%, 1966 20.9%, 1967 22.6% og 1968 22½%. Og ef sams konar hlutfallstölur eru áætlaðar fyrir árin 1969, 1970 og 1971, þá lita þær þannig út: 1969 21.l%, 1970 20% og 1971 21.8%. Á þessu yfirliti sést, að hækkun ríkistekna í samanburði við brúttóþjóðarframleiðslu er alls ekki meiri en eðlilegt getur talizt í vaxandi þjóðfélagi, þar sem miklar kröfur eru gerðar til ríkisins um tekjujöfnun á milli þegnanna, margháttaðrar þjónustu og opinbers stuðnings við atvinnuvegina. Á tímabilinu 1961–1971 hefur hækkunin orðið mest 3.9%. Milli fyrsta ársins og þess síðasta er hún 3.1%. Árin 1959 og 1960 eru í þessu sambandi ekki sambærileg vegna uppbótakerfisins, sem þá gilti.

Svipuð mynd fæst, þegar athuguð er skipting vinnuafls á atvinnugreinar, eins og gert er í töflu 9 í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til hagráðs um ástand og horfur í efnahagsmálum frá því í apríl 1970. Þar sést m. a., að á árunum 1964–1968 hækkar hlutfallstala vinnuafls við opinbera stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga úr 3.6 í 4.l% miðað við heildina eða um ½%, og að hlutfallstala vinnuafls í opinberri þjónustu og fleira hækkar úr 7.3% árið 1964 í 9.2% árið 1968 eða um 1.9% miðað við allar atvinnugreinar samtals. Út frá því, sem ég nú hef nefnt, tel ég, að álykta megi, að svokölluð útþensla ríkisbáknsins sé alls ekki komin á það stig, að hættulegt geti talizt, einkum þegar að því er gætt, að meðal tekna ríkisins eru taldar stórar upphæðir, sem það síðar greiðir út til tekjujöfnunar meðal þegnanna og til margvíslegra þarfa atvinnuveganna. Oft vill það líka við brenna, að þeir hinir sömu, sem mest býsnast yfir útþenslunni hjá ríkinu, séu fremstir í flokki þeirra, sem mestar kröfur gera um aukin ríkisframlög. Skilgreining á milli þeirra þátta í ríkisbúskapnum, sem ég hef rætt hér að framan, getur að vísu oft verið vandkvæðum bundin, og er reyndar ekki gerð í grg. með frv. nema mjög lauslega. Er þannig í grg., þar sem leitazt er við að skilja á milli hækkunar eiginlegra rekstrarútgjalda ríkissjóðs og hækkana, sem eru af öðrum toga spunnar, aðeins skilið á milli rekstrarútgjaldanna og svonefndra merktra eða fyrirframráðstafaðra tekjustofna. Samkv. þessu er svo fundið út í töflu á bls. 146 í frv., að hækkun eiginlegra rekstrarútgjalda ríkissjóðs samkv. frv. sé rösklega 1608 millj. kr. eða 24.9%. Í töflu, þar sem þessi upphæð er sundurliðuð, kemur síðan fram, að þar eru meðtaldar upphæðir eins og t. d. þessar: Framlag til almannatrygginga 359 millj. kr. eða 5½%; uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir 90 millj. eða 1.4%; Byggingarsjóður verkamanna, framlag 48 millj., 0.8%; Fiskveiðasjóður 35 millj. eða ½% og framlög vegna togaralána 30 millj., ½%. Samtals gera þessar tölur, sem ég nefndi, um 8.7%. Þessir liðir falla undir það, sem ég á við með tekjujöfnun meðal þegnanna og stuðningi við atvinnulífið, og eru þess vegna ekki, að mínu mati, eiginleg rekstrarútgjöld ríkissjóðs. En samtals er þarna um að ræða, eins og ég sagði, 8.7% af 24.9% hækkuninni, sem fundin er út í töflunni.

Ég gat þess hér að framan, að hækkun ríkisútgjalda vegna almannatrygginga milli ára væri samkv. frv. talin 359 millj. kr. Alþfl. hefur farið með tryggingamál síðan 1956 og bæði fyrr og síðar átt meiri þátt í því en aðrir flokkar að auka og efla almannatryggingar. Er sú staðreynd ærið oft viðurkennd af andstæðingum flokksins bæði í ræðu og riti. Menn ætlast þess vegna til þess, að Alþfl. sé jafnan í fararbroddi á þessu sviði. Það hefur hann verið, og það vill hann sannarlega vera.

Árið 1955 voru heildargreiðslur tryggingabóta lífeyristrygginga 103 millj. kr., en það svarar til 480 millj. kr. miðað við núverandi verðgildi krónunnar. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1971, sem hér er til umr., er gert ráð fyrir, að heildarútgjöld lífeyristrygginganna verði 1717 millj. kr. og hafa þau þannig aukizt um 250% síðan 1955. Allar bætur almannatryggingakerfisins námu árið 1955 4% af þjóðarframleiðslunni, en árið 1968 var þetta hlutfall komið upp í 7.1%. Vissulega er þarna um mikla breytingu að ræða, sem Alþfl. hefur til leiðar komið í samstarfi við Sjálfstfl. En Alþfl. vill gera enn betur. Hann hefur í fyrsta lagi tryggt það, að á núverandi tryggingabætur komi tilsvarandi hækkun og varð á launum samkv. kjarasamningunum á s. l. vori. Loforð um þetta fékkst í sambandi við afgreiðslu fjárl. þessa árs. Hann hefur í öðru lagi komið af stað heildarendurskoðun á tryggingalöggjöfinni með það fyrir augum að auka tryggingabætur á þeim sviðum, sem dregizt hafa aftur úr þrátt fyrir mikla heildarhækkun trygginganna. Einnig er með endurskoðun l. stefnt að skipulagsbreytingum á framkvæmd tryggingakerfisins, og er sú endurskoðun mikið verk og vandasamt.

Á nýafstöðnu flokksþingi Alþfl. var einnig samþ., að flokkurinn skyldi beita sér fyrir setningu laga um lífeyrissjóði fyrir þá landsmenn, sem enn eiga ekki aðild að lífeyrissjóði, og síðan verði sett heildarlöggjöf um sjóðina alla, sem samræmi stjórn þeirra og störf. Einnig vill flokksþingið, að löggjöf um eftirlaun verkafólks verði endurskoðuð og eftirlaunin hækkuð. Eru þetta allt málefni, sem þm. Alþfl. munu beita sér fyrir af fremsta megni á þeim skamma tíma, sem eftir er af þessu kjörtímabili.

Þá vil ég hér einnig minnast á annan málaflokk, sem Alþfl. fer með og mikið kemur við sögu í þessu fjárlagafrv. eins og jafnan áður. Það eru fræðslumálin. Samkv. frv. stórhækka ýmis framlög til fræðslumála frá því, sem er í fjárlögum þessa árs. Launahækkanir í frv. eru, eins og um hefur verið getið, 580 millj. kr. miðað við gildandi kjarasamninga og vísitölubætur á þá. Af þessari miklu hækkun koma 199.6 millj. kr. á fræðslumálin. Kostnaður við skyldunámsstigið hækkar um 74.9 millj. kr. Fjárveiting til Háskólans eykst um 47.8 millj. kr. Framlag til Lánasjóðs íslenzkra námsmanna hækkar um 32.6 millj. kr. Kostnaður við menntaskólana eykst um 31.7 millj. kr. Kostnaður við Ríkisútgáfu námsbóka eykst um 15 millj. kr. Fjárveiting til iðnskóla hækkar um 9.9 millj. kr. Framlag til Heyrnleysingjaskólans hækkar um 6.5 millj. kr., og þannig mætti fleira nefna. T. d. hækkar framlag til byggingar skólamannvirkja í heild um 70 millj. kr.

Alþfl. hefur farið með stjórn menntamálanna síðan árið 1956, og ráðh. þeirra mála, Gylfi Þ. Gíslason, formaður Alþfl., hefur í þessu embætti látið meira að sér kveða en nokkur fyrirrennari hans, að þeim ágætu mönnum þó ólöstuðum. Ég skal hér aðeins nefna nokkrar tölur þessu til sönnunar, þótt tölurnar einar gefi sáralitla hugmynd um allar þær miklu breytingar, sem hafa átt sér stað og eru að verða í fræðslukerfinu undir yfirstjórn Gylfa Þ. Gíslasonar.

Árið 1955 voru útgjöld ríkissjóðs til menntamála 80 millj. kr., en það svarar til 370 millj. miðað við núverandi verðlag. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, sem hér er til umr., er gert ráð fyrir, að heildarútgjöld til menntamála muni nema nálægt 1907 millj. kr. Hafa útgjöld til menntamála þannig aukizt um rösklega 400% á þessu tímabili. Varið var til menntamála árið 1955 sem svarar 2200 kr. á hvern íbúa miðað við núverandi verðlag, en á næsta ári er samsvarandi tala áætluð um 8600 kr. á íbúa. Framlag ríkissjóðs til menntamála á hvern íbúa hefur þannig um það bil fjórfaldazt á þeim tíma, sem Alþfl. hefur farið með stjórn þessara mála. Á sama tímabili hafa útgjöld hins opinbera til menntamála vaxið úr 2.4% í 5.3% af þjóðartekjum, og er sú hlutfallstala með því hæsta, sem gerist í vestrænum löndum. Menntmrh. hefur boðað, að ýmis frv. um skólamál verði lögð fyrir Alþ. það, sem nú situr. Hljóti þau afgreiðslu má svo heita, að öll íslenzk skólalöggjöf hafi verið endurskoðuð frá grunni í ráðherratíð hans. Á þeim tíma hafa einnig orðið róttækari breytingar á kennsluháttum og námsefni en nokkru sinni fyrr í sögu íslenzkra skólamála.

Þess er getið í aths. með þessu frv. til fjárl. fyrir árið 1971, að hækkun fastra tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins nemi 120.5 millj. kr. og framlag til Byggingarsjóðs verkamanna hækki um 47.9 millj. kr. Þessar hækkanir eru vegna nýrra laga um húsnæðismál, sem sett voru s. l. vor fyrir forgöngu Emils Jónssonar, sem hafði þá aftur tekið við yfirstjórn húsnæðismálanna, en Alþfl.-menn hafa farið með þennan málaflokk síðan árið 1959. Á þessu tímabili hafa miklar framfarir orðið í húsnæðismálum. Þannig mun ráðstöfunarfé húsnæðismálastjórnar á þessu ári verða alls um 700 millj. kr., en á árinu 1958 var hliðstæð upphæð miðað við sama verðlag tæpar 200 millj. kr. Á 5 ára tímabilinu 1954–1958 voru byggðar að meðaltali á ári 1316 íbúðir, en á 5 ára tímabilinu 1965–1969 voru 1647 íbúðir byggðar að meðaltali á ári. Þannig sér þess víða stað í fjárlagafrv., að s. l. áratug hefur verið fylgt djarfhuga framfarastefnu með miklum árangri, og tel ég fyrir mitt leyti, að Alþfl. geti með réttu verið stoltur af sínum hlut í því samstarfi, sem leitt hefur til þessa árangurs. Sá árangur hefur náðst þrátt fyrir margvíslega erfiðleika, sem þurft hefur að yfirstíga á s. l. áratug, þar á meðal verðfallið mikla á árunum 1966–1968 og áhrifin af hvarfi síldarinnar á þjóðarbúskapinn. Á þessum vandamálum var tekið af festu og myndugleik og á það sinn mikla þátt í því, að nú er aftur bjart yfir atvinnulífi landsmanna. Hættur eru þó framundan, sem sigrast þarf á, ef vel á að fara. Á ég þar við þann mikla og öra verðbólguvöxt, sem verið hefur í gangi undanfarna mánuði. Hann kemur m. a. fram í launakostnaði ríkisins, sem hækkar frá þessu ári um 580 millj. kr. samkv. frv., þótt ekki sé reiknað með nýjum kjarasamningum opinberra starfsmanna, sem fyrir dyrum standa. Þessi gífurlega hækkun sýnir okkur það, að ekki er hægt að setja sjónaukann fyrir blinda augað hvað launakostnaðinn áhrærir, þegar rætt er um verðbólguvandamálið og samhengi þess við launakostnað fyrirtækja. Þennan sama vanda hafa margar ríkisstj. þurft að glíma við, m. a. vinstri stjórnin, sem skar niður 6 stiga vísitöluuppbætur á laun undir forustu Hannibals Valdimarssonar. Vitað er, að til þess að hald sé í þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru gegn verðbólguvextinum, þarf að ríkja um þær sem víðtækast samkomulag og fullur skilningur á nauðsyn ráðstafananna. Núv. ríkisstj. glímir nú við þennan vanda og efast ég ekki um, að góðviljaðir menn í öllum flokkum eru þess fýsandi, að jákvæður árangur verði af því starfi. Nýafstaðið flokksþing Alþfl. gerði um þetta mál svo hljóðandi ályktun:

„Flokksþingið telur brýnasta viðfangsefni íslenzkra þjóðmála í dag vera að stöðva þá verðbólguþróun, sem nú á sér stað. Í launasamningunum á s. l. sumri hlutu launþegar nauðsynlega og langþráða kjarabót. Hún er nú í hættu vegna víxlhækkana verðlags og kaupgjalds. Flokksþingið telur brýna nauðsyn bera til, að þegar í stað verði komið á verðstöðvun til þess að vernda kaupmátt launa og tryggja rekstur atvinnuveganna.“

Þarna er komið að kjarna málsins. Það verður að fara saman, að kaupmáttur launa haldist og að atvinnutækin séu rekin af fullum krafti, þannig að aukning verði í framleiðslunni, sem staðið geti undir almennum kjarabótum. Alþfl.-menn hafa alltaf haft góðan skilning á þessu og gert sér ljóst, að á þessu sviði liggur grundvöllurinn að afkomuöryggi, bættum lífskjörum, félagslegum umbótum og menningarlegum framförum. Alþfl. hleypur ekki frá vandanum óleystum. Hann tekur þátt í glímunni við vandann, meðan hann hefur til þess umboð. Þess vegna vildi flokkurinn ekki fallast á að rjúfa þing og ganga til kosninga í haust. Það hefði engan vanda leyst og aðeins orðið til þess að slá á frest því starfi, sem nú er hafið og nauðsyn ber til að ljúka, ef ekki á illa að fara.

Herra forseti. Ég minni á það að lokum, að þetta land á nógan auð. Hér þarf enginn að líða skort eða búa við öryggisleysi um lífsafkomu sína og sinna, ef rétt er að farið. Ég vona, að þjóðin beri gæfu til þess að taka höndum saman um að bægja frá augljósum hættum á sviði efnahagsmálanna, þannig að við getum haldið áfram að gera gott þjóðfélag betra. — Ég þakka hv. hlustendum áheyrnina og býð góða nótt.