03.12.1970
Sameinað þing: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (3348)

49. mál, æðarrækt

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 49 flyt ég ásamt nokkrum hv. þm. till. til þál. um stuðning við æðarrækt. Till. þessi felur það í sér, að ríkisstj. láti athuga, á hvern hátt bezt verði unnið að stuðningi við ræktun og verndun æðarfugls, og sérstaklega verði athugað að láta nú þegar endurskoða ákvæði laga um eyðingu svartbaks og annarra vargfugla með það fyrir augum að beita raunhæfari aðgerðum en hingað til hefur verið beitt í þessum efnum.

Um þetta efni hefur að sjálfsögðu oft verið fjallað á sviði löggjafar. Löggjöf, sem markaði hvað mest þáttaskil á þessu sviði, var frá 1913, en áður giltu lög frá 1890, og enn fyrr voru aðalákvæðin um þetta efni í veiðitilskipun frá 1849. Ég vil geta þess áður en lengra er haldið, að þessi till. var flutt á síðasta þingi, og var þá I. flm. hennar Sigurður Bjarnason, núv. ambassador Íslendinga í Kaupmannahöfn. En það er nokkuð táknrænt, að það var einmitt séra Sigurður Stefánsson í Vigur, sem var einn helzti hvatamaður að setningu laganna 1913, þáv. þm. Ísfirðinga. Það er einmitt hann, sem mest og ítarlegast hefur skrifað um þessi efni. Má þar benda á hina merku ritsmíð hans, sem birtist og var gefin út sem sérprentun úr Búnaðarritinu 1917. Til þess að gefa örstutt yfirlit yfir það, um hvað þessi sérprentun fjallar, má geta þess, að henni er skipt í fimm aðalkafla.

Það er ágrip af sögu æðarvarpsins, æðarvarpið um varptímann, aldur æðarfuglsins, nýverpi og loks er greint frá félagsskap og samtökum varpbænda á ýmsum tímum.

Svo sem kunnugt er, hefur æðarfuglinn löngum verið einn mesti nytjafugl á Íslandi. Æðarrækt er því forn og þjóðleg búgrein, sem því miður hefur ekki blómgazt eins og ætla mætti á síðustu árum. Liggja til þess ýmsar ástæður. Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir þá lögvernd, sem gilt hefur á hinum ýmsu tímum, hefur æðarstofninum hnignað mjög á undanförnum árum og eftirtekja hans nú orðin mjög rýr miðað við það, sem verið gæti. En æðardúnninn er, eins og öllum er kunnugt, mjög dýrmæt vara, hvar sem vera skal.

Fyrir um það bil ári síðan var stofnað Æðarræktarfélag Íslands, félag eigenda æðarbyggða og annarra áhugamanna um þessi málefni. Það markaði stefnuskrá m.a. á þá leið að láta vinna að endurskoðun laga um verndun æðarfugls og fá einnig sett lög um gæðamat á æðardún. Frv. um það efni var lagt fyrir síðasta Alþ. og náði greiðri afgreiðslu sem lög um gæðamat á æðardún. Hins vegar dagaði þessa þáltill. uppi á síðasta þingi, en hún er nú endurflutt fyrir eindregin tilmæli áhugamanna á þessu sviði.

Það má að vísu segja með réttu, að lög um þessi efni eru tiltölulega ný af nálinni. Núgildandi ákvæði er að finna m.a. í lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun nr. 33 1966 og lögum um eyðingu svartbaks nr. 50 frá 1965. Eigi að síður er talin mikil þörf á að láta endurskoða lög þessi. Hingað til hefur þetta verið stöðugt viðfangsefni þeirra, sem hug hafa á þessum málum. Vil ég geta þess, að snemma árs 1969 fluttu tveir hv. þm. Vestf. frv. til laga um breytingu á lögum um eyðingu svartbaks. Því frv. var vísað frá með rökstuddri dagskrá, en til þess má þó væntanlega rekja reglugerð, sem sett var í maí 1969 um eyðingu svartbaks með phenimali. Var hún gefin út af menntmrn. 5. maí 1969. Þrátt fyrir þessar heiðarlegu tilraunir til þess að koma þessum málum í viðunandi horf, þá hefur það ekki tekizt betur en svo, að æðarstofninum hnignar stöðugt og eftirtekjan rýrnar, eins og ég gat um áðan. Það er t.d. að heita má almennt álit manna, að hin svokölluðu skotlaun hafi sáralitla þýðingu. Það sé miklu áhrifameira að beita lyfjum, sem stuðlað geta að fækkun vargfugla. Það fer ekki á milli mála, að svartbakurinn er skæðasti óvinur æðarfuglsins. Í því efni má líka geta þess, að það er ekki nóg með það, að svartbakurinn sé skæðasti óvinur æðarfuglsins, heldur hefur hin mikla fjölgun þessa vargfugls leitt það af sér, að hann er farinn að verpa uppi um heiðar og hálendi og leggjast á mófugl og fiska, sem hann nær í.

Það er athyglisvert í þessu máli, að þar hafa nú tekið höndum saman eigendur æðarbyggða, áhugamenn og einnig færustu vísindamenn okkar í þessum efnum. Hafa þeir ákveðið að vinna saman og reyna að leysa þetta mál með þeim aðferðum, sem nú eru helzt uppi meðal þeirra þjóða, sem þurfa að fást við svipuð viðfangsefni. Og þegar till. þessi er nú loks tekin á dagskrá til umr., vil ég biðja þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hraða afgreiðslunni sem mest hún má, því að þeir menn, sem ég áðan nefndi, hafa hug á því að fá samþykkta ákveðna fjárveitingu í fjárlögum, sem verða samþ. hér á þingi væntanlega eftir nokkra daga eða vikur, og einnig er ætlun þeirra að koma nýju frv. fram á þessu þingi og stuðla að því, að það verði samþykkt sem lög áður en þingi lýkur.

Ég vil því biðja hv. allshn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hafa snör handtök og afgreiða málið hið fyrsta. Ég legg svo til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.