05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3362)

50. mál, hitun húsa með raforku

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær góðu undirtektir, sem flutningur þessarar till. hefur fengið hér. Ég vil aðeins segja það út af ræðu hæstv. 4. þm. Austf., að ég mundi svo sem eftir till. og ég hef enga tilhneigingu til þess að reyna að draga fjöður yfir það, að þeir hafi líka haft áhuga á þessu máli, enda veit ég það, að þetta mál nýtur almenns skilnings hjá hv. þm.

Um leið og ég þakka einnig undirtektir hæstv. ráðh., langar mig til að minnast á það, sem hann vék að, að áætlunin væri nokkuð djörf, þar sem þetta ætti að gerast á næstu 5 árum. Ég verð dálítið var við það, að menn telja í öllum atriðum, hvort sem það er um hitun eða eitthvað annað að ræða, að það sé nú orðin þörf ákaflega ítarlegra og vandaðra rannsókna. En sum mál eru þess eðlis, að þau liggja nokkurn veginn augljóslega fyrir hverjum manni, og mér finnst, að þetta hitunarmál sé svo einfalt og augljóst, að það sé ekkert áhorfsmál að ráðast beint í það. Hitt er rétt, að það þarf að njóta tækniþekkingar við framkvæmdina. Ég veit það, að það skiptir nokkru máli t.d., hvort um er að ræða að hita hús, sem nú eru í byggingu, hvort það eru gömul hús með olíuhitun fyrir eða kannske annarri hitun. Það skiptir örlitlu máli. En öll þessi atriði er þó í raun og veru tiltölulega einfalt að leysa. Og ég hef nú sagt það áður, og ég er þeirrar skoðunar, að það sé fyrst og fremst hvers húseiganda að gera það upp við sig, hvort hann vill leggja í nokkurn aukakostnað, nokkra tugi þúsunda t.d. til þess að breyta úr olíuhitun í rafhitun. Það leggja margir talsvert fé í að endurnýja, breyta um hurðir og ýmislegt annað í húsum sínum, sem kannske gefur þó raunverulega miklu minni arð. Ég held þess vegna, að menn geri allt of mikið úr því, hversu hér sé um mikið rannsóknarefni að ræða. Og eftir því sem ég hef kynnt mér, þá mun vera völ á tiltölulega mjög hagkvæmum rafhitunartúpum, sem eru framleiddar hér á landi, en þær geta í mjög mörgum tilfellum og kannske flestum leyst þetta mál að verulegu leyti að því er snertir eldri byggingar og þar sem við erum að breyta úr olíuhitun eða annarri hitun í rafhitun. En auk þess eru svo sífellt að koma fram ný og endurbætt tæki, ný og endurbætt tækni, sem kemur að liði, þegar um er að ræða að taka upp hitakerfi alveg að nýju, t.d. í nýjum húsum. En sem sagt, ég vildi bara segja það í tilefni af þessari aðvörun hæstv. ráðh. um, að það væri nokkuð mikil bjartsýni að tala um að hrinda þessu öllu í framkvæmd á 5 árum, að ég held, að þetta mál sé einfaldara og það kalli einungis á meira áræði og framkvæmdir heldur en rannsóknir. Það er komið á það stig, og á 5 árum má gera mikið að mínu viti.