03.12.1970
Neðri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (3379)

107. mál, eftirlit með dráttarvélum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr., en ég vil taka undir það, að það er auðvitað full ástæða til þess að fylgjast betur með ásigkomulagi dráttarvéla. En hitt er alveg rétt náttúrlega, að það má ekki fara með slíkar kröfur út í öfgar. Á eitt vil ég benda í sambandi við það, sem síðasti ræðumaður sagði, hv. 3. þm. Norðurl. v. Það er um aldur unglinga til að aka þessum vélum. Þó að hv. Alþ. vildi setja um það reglur, að yngri unglingur en 16 ára mætti alls ekki aka dráttarvél, þá er ekki hægt að framfylgja því, og ég veit ekki, hvort það er skynsamlegt heldur. Ég þekki vel inn á þessi mál, og ég vil staðhæfa það, að beztu dráttarvélakeyrarar, sem ég hef haft, hafa verið 12–14 ára unglingar. Hins vegar þarf auðvitað að kenna þessum unglingum, og þeir þurfa að taka próf, og það er ekki forsvaranlegt að setja unglinga kannske úr kaupstöðunum upp á þessar vélar, sem lítið eða ekkert kunna á þær. Það er það, sem er hættulegt. En varðandi þetta aldurstakmark, þá er í fyrsta lagi ekki hægt að fara eftir því, og það er alger fjarstæða að halda því fram, að bráðþroska unglingar, sem eru 13, 14 og 15 ára, séu ekki alveg eins færir til þess að aka þessum vélum, sérstaklega við heyskap og önnur störf, og fullorðið fólk. Ég vil bara vekja athygli á þessu, að þegar farið er að tala um að setja svona reglur, þá má það ekki ganga út í öfgar. Hitt þarf að gera, að fylgjast betur með þessu og kenna unglingunum að fara með þessar vélar og athuga hæfni þeirra, áður en þeim er sleppt til þess að vinna með vélunum.