29.10.1970
Neðri deild: 8. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ja, sem margreyndur verkalýðsforingi get ég út af fyrir sig skilið það, að það sé ekki hægt að skýra nákvæmlega frá stöðu samninga. Ekki bað ég heldur um það nákvæmlega. En ég benti á, að fram hefðu komið opinberlega fregnir af þessum samningum og nefndi þar tölur til hækkunar. Hæstv. ráðh. hvorki játaði né neitaði, að þær væru réttar, sniðgekk það með öllu.

Hann kom hins vegar mjög inn á samanburðinn í launum, sem samkv. l. á að viðhafa við ákvörðun launa opinberra starfsmanna. Ég veit ekki, hvort slíkar hækkanir teljast vera fyrir hendi á hinum almenna vinnumarkaði, síðan laun opinberra starfsmanna voru leiðrétt bæði 1969 og eins nú á miðju þessu ári. Ég skal ekkert um það fullyrða og sjálfsagt er hægt að finna einhver einstök dæmi þess, en tæplega, að um sé að ræða almenna meðaltalshækkun upp á 33%. En það væri kannske annað, sem hæstv. ráðh. ætti hægara með að svara og mér láðist nú í raun og veru að spyrja um áðan, og það er, hver sé stefna ríkisstj. sjálfrar þá í þessum málum. Er það bara að ná samkomulagi, eða hvert er ríkisstj. sjálf að fara í þessum efnum á sama tíma, þegar verið er nú að ræða við aðra aðila um hluti, sem óhjákvæmilega hljóta að snerta opinbera starfsmenn einnig, þ. e. a. s. varðandi vísitölumál og meðferð þeirra?