06.04.1971
Sameinað þing: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

295. mál, réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Eftir að till. til þál. um réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið, sem er á þskj. 647, og till. til þál. um landhelgismál á þskj. 638 var vísað til utanrmn., átti n. fund um málið. Á þeim fundi mættu auk nm. hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Það kom strax í ljós, að ekki gat orðið samkomulag innan utanrmn. um afgreiðslu málsins, og vil ég segja því miður. Kemur þetta fram á þskj. 832. Varð niðurstaðan sú, að meiri hl. n. leggur til, að fyrri till. verði samþ. óbreytt. Minni hl. n. hefur hins vegar skilað séráliti á þskj. 842.

Ég vil nú leyfa mér, herra forseti, að gera grein fyrir afstöðu meiri hl. utanrmn., að vísu í stuttu máli, um mikið og mikilsvarðandi mál.

Meiri hl. n. telur, að nú sé hafinn lokaþáttur baráttu Íslendinga fyrir því að afla viðurkenningar annarra þjóða á rétti Íslendinga yfir landgrunnshafinu við Ísland. Sú barátta hefur að vísu verið háð áður og alllengi á ýmsum vettvangi, en þó fyrst og fremst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem málið var upphaflega tekið upp að frumkvæði Íslendinga. Í framhaldi af þeirri tillögugerð voru haldnar tvær alþjóðaráðstefnur í Genf árin 1958 og 1960. Ekki tókst að ná þar samkomulagi um víðáttu lögsögu strandríkja á hafinu. Þegar svo var komið, var ljóst, að ekki fengist meira áorkað í bili og skynsamlegast væri þess vegna að bíða þess um hríð, að fleiri ríki yrðu aðilar að Sameinuðu þjóðunum, eins og fyrirsjáanlegt var, og nota tímann til að afla málinu fylgis og styrkja aðstöðuna gegn stefnu þeirra ríkja, sem þrengja vildu fiskveiðilögsöguna almennt. Þessi breyting hefur átt sér stað undanfarin 10 ár, og nú er sem sagt lokaþátturinn hafinn, eins og ég vék að. Svo sem hæstv. utanrrh. hefur gert Alþ. grein fyrir, er aðstaða okkar nú allt önnur og miklu betri, vil ég segja, en hún var á ráðstefnunum 1958 og 1960. Að öllu þessu athuguðu telur meiri hl. utanrmn., að styðja beri þá stefnu hæstv, ríkisstj., að allt kapp sé nú lagt á að færa málið fram til sigurs. Með þeim viðræðum, sem núna eru hafnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, skapast einmitt einstakt tækifæri til þess. Lokaákvörðun um útfærslu fiskveiðilandhelgi Íslands yrði með slíkum hætti tekin, eftir að málatilbúnaður af hálfu Íslendinga hefði í einu og öllu verið sem bezt vandaður og yfirvegaður. Í þessu felst það einnig, að hægt væri að grípa til ráðstafana hvenær sem er, ef aðstæður krefjast þess á einhvern hátt, að því sé fylgt fram með viðbótarákvæðum. Meiri hl. utanrmn. leggur þess vegna eindregið til, að till. til þál. um réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið verði samþ. óbreytt.