03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (3725)

25. mál, framfærsluvísitala fyrir hvern kaupstað

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Efni þeirrar till., sem við flytjum hér þrír þm., hv. 9. landsk. þm., Bragi Sigurjónsson, hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, og ég, um sérstakan útreikning framfærsluvísitölu fyrir hvern kaupstað landsins um sig miðar að því að fá leitt í ljós með traustum hætti, hvaða munur ríkir í hinum einstöku kaupstöðum landsins á vöruverði, þjónustu og aðstöðu, sem snertir framfærslukostnað. Ekki er víst, að allir séu sammála um, hvað teljast skuli til framfærslukostnaðar, og það er ekki hugmyndin með flutningi þessarar till., að Alþ. gerist dómari í því máli, enda höfum við flm. ekki ástæðu til að ætla þeim aðilum, sem nú meta hina ýmsu þætti vísitölunnar, kauplagsnefnd og Hagstofunni, að þeir vinni ekki eftir beztu samvizku að vísitöluútreikningunum. Því er hér gert ráð fyrir að halda öllum meginreglum vísitölureikningsins óbreyttum eins og við getur átt, en þar eð verðlag í Reykjavík er eingöngu lagt til grundvallar þeirri vísitölu, sem í gildi er fyrir allt landið, hlýtur margt að koma til greina auk hinna föstu vísitöluþátta, þeirra, sem nú gilda, þegar finna á vísitölu framfærslukostnaðar fyrir aðra kaupstaði eða landshluta. Eðlilegt má telja að leggja það á vald kauplagsnefndar og Hagstofunnar að meta, hverja þætti rétt sé að telja til framfærslukostnaðar utan höfuðborgarsvæðisins, sem ekki eru taldir með í núgildandi vísitölu. En benda má á, að aðstöðumunur er orðinn mikill í mörgum greinum á hinum ýmsu landssvæðum, og hefur það oft bein áhrif á framfærslukostnaðinn. Hér skal aðeins bent á fáein dæmi.

Telja má, að hvergi sé fullkomin læknisþjónusta á landinu utan höfuðborgarinnar, og knýr það margan manninn til kostnaðarsamra ferða heiman að til leitar að heilsubót. Í þeim tilvikum, sem nauðsynlegt er talið, að fólk leiti sér lækninga í önnur lönd, af því að viðeigandi læknishjálp er ekki fáanleg hérlendis, hefur nú verið ákveðið með lögum, að kostnaður slíkra ferða verði borinn uppi af opinberu fé. Virðist þá ekki fjarri lagi að telja hliðstæðan innlendan kostnað sem lið í almennum framfærslukostnaði.

Skólakerfi landsins, að því er tekur til hinna æðri skóla og æðsta skóla landsins, er að mestu byggt upp í höfuðborginni, og það kallar til sín fjölda fólks um langa vegu og oft um lengri tímabil.

Landsráðstefnur af mörgum gerðum eru oftast haldnar í Reykjavík, og stéttarfélög verða jafnan um þessar mundir að senda samningamenn sína til höfuðborgarinnar til samningsgerðar um kaup og kjör félaga sinna.

Af því, sem nefnt hefur verið, er augljóst, að nokkur ferðakostnaður til höfuðborgarsvæðisins er óhjákvæmilegur svo stórum hópi manna, sem fjarri býr þeim allsherjarbrennidepli, sem höfuðborgin er nú orðin samfélaginu öllu. Hann hlýtur því að teljast sem hluti af framfærslukostnaði.

Sérstaða einstakra kaupstaða kann að vera margs konar og í hinum einstöku tilvikum álitamál, hvort meta beri hana til áhrifa á framfærslukostnað og þá á hvern veg. En einn þátt vil ég benda á, sem vart er umdeilanlegt, að orkar á almennan lífsþarfakostnað á þann veg, að hann veldur kostnaðarauka. Það er sú sérstaða eins kaupstaðar að vera ekki í sambandi við þjóðvegakerfi landsins og koma ekki bílum sínum inn á það kerfi nema með kostnaði, sem nemur fúlgu fjár, hver einstök ferð, hvort heldur er heiman að eða heim. Þetta á við um Vestmannaeyjar og er ómótmælanlega eitt af því, sem veldur auknum kostnaði við að búa þar, og virðist eðlilegt, að sá kostnaðarmunur væri látinn hafa áhrif á vísitölu þess staðar.

Í þessari till. er gert ráð fyrir kaupstöðunum sem vísitölusvæðum. Auðvitað gætu önnur svæði komið til greina sem eins hentug vísitöluhéruð, en við allnákvæma athugun á stjórnarfarslegum einingum landsins kemur í ljós, að þeir eru einna næstir því að henta, og eru þeir hóflega margir í því tilliti. Lögsagnarumdæmin eru t.d. of mörg, en kjördæmin of ólík innbyrðis, sum hver a.m.k. Á hinn bóginn má telja nærri frágangssök að mynda nýja svæðaskiptingu eingöngu til þessara þarfa, skiptingu, sem ekki styddist við neina lögformlega skipan, sem fyrir er í landinu.

Ef til kæmi, að þær svæðavísitölur, sem hér ræðir um, yrðu þekktar, má telja líklegt, að þær yrðu notaðar sem viðmiðun við ákvörðun verðlagsuppbótar á kaup, þegar til kjarasamninga kemur, og yrði þá auðvitað að birta þær sem kaupgjaldsvísitölu á sama hátt og gert er nú um þá allsherjar kaupgjaldsvísitölu, sem í gildi er.

Á s.l. vori kom til margháttaðrar nýrrar kaupsamningagerðar, og framleiðslutruflanir urðu í sambandi við hana. Þetta er mönnum í fersku minni. Þjóðin á mikla hagsmuni undir því komna, að slíkir samningar geti gengið rösklega og sem átakaminnst. Til þess að svo megi verða; þarf að undirbúa samningsgerðina svo vel sem kostur er á. Upplýsingar þurfa að liggja fyrir um sem flesta þætti, sem máli geta skipt, og það má ekki ske, að þá fyrst sé farið að efna til hinnar sjálfsögðustu gagnaöflunar, þegar á eru skollin verkföll, sem kosta þjóðina milljónatugi á degi hverjum. Eitt af því, sem stundum tefur samninga, er það, að ekki er vitað um þá vísitölu framfærslukostnaðar, sem hér er farið fram á, að stjórnvöld sjái um, að tiltæk verði, þegar til á að taka. Ólíklegt er, að samningamenn víðs vegar utan af landi láti öllu lengur bjóða sér það að semja um verðlagsuppbót fyrir umbjóðendur sína eingöngu eftir framfærslukostnaði í Reykjavík. En í mörgum tilvikum vita þeir, að hann er allur annar en það fólk býr við, sem þeir eru að semja fyrir.

Herra forseti. Ég legg til, að á einhverju stigi þessarar umr. verði henni frestað og málinu þá vísað til allshn.