02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (3881)

115. mál, dreifing framkvæmdavalds

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 124 till. til þál. um dreifingu framkvæmdavalds og eflingu á sjálfstjórn héraða. Mér þykir ástæða til þess að lesa þessa till. eins og hún er. Þessi till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að kjósa sjö manna mþn., sem hafi það verkefni að athuga, með hvaða hætti bezt verði unnið að dreifingu framkvæmdavalds til fleiri staða en nú er og til eflingar á sjálfstjórn í landsfjórðungunum eða öðrum stórum landssvæðum.

Nefndin athugi sérstaklega um möguleika á að flytja að meira eða minna leyti ýmsar ríkisstofnanir eða mikilvægar þjónustustofnanir frá höfuðborginni til staða úti á landi í þeim tilgangi að auðvelda afgreiðslu mála og skapa meira jafnvægi í landinu.

Þá verði einnig athugað gaumgæfilega um möguleika á að veita héraðsstjórnum rétt til fjármálalegrar yfirstjórnar og ráðstöfunar á tilteknum fjárveitingum, sem varða viðkomandi hérað eða umdæmi.

Tillögur nefndarinnar skulu við það miðast, að dregið verði úr því mikla miðstöðvarvaldi, sem orðið er í Reykjavík, og komið í veg fyrir áframhaldandi ofvöxt þess. Nefndin skal skila till. sínum og álitsgerð til Alþ. fyrir 1. jan. 1972.

Allur kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Hér er lagt til, að Alþ. kjósi sérstaka mþn. til þess að gera athugun á því mikilvæga máli, sem hér er fjallað um. Það er nú orðið alllangt um liðið síðan hér hefur verið kosin af Alþ. sérstök mþn. til að fjalla um mikilvægan málaflokk, og ég tel vera fullan tíma kominn til þess, að slík nefnd sé kosin, en horfið frá því ráði, sem einkum hefur verið stuðzt við nú um langan tíma, þegar meiri háttar málaflokkar hafa verið teknir til athugunar, að skipa í sífellu fasta ríkisstarfsmenn eða beint þjónustulið stjórnarvalda til þess að fjalla um slík mál.

Það hefur greinilega komið fram margsinnis í umr. hér á Alþ., að menn úr öllum stjórnmálaflokkum telja, að sá mikli vöxtur, sem nú um alllangan tíma hefur hlaupið í höfuðborgina og það svæði, sem henni liggur næst, sé óæskilegur fyrir þjóðarheildina. Það færi á margan hátt betur á því, að vöxtur höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins yrði heldur minni en hann hefur verið um alllangan tíma, en meira jafnvægi yrði hins vegar í byggð landsins.

Hér hafa verið fluttar margvíslegar till. á Alþ. í þessa átt, sem miða að því að finna ráð til þess að auka á jafnvægi í byggð landsins, og ýmsar minni háttar ráðstafanir hafa beinlínis verið gerðar, sem áttu að stuðla að þessu, en öllum er þó ljóst, að það, sem gert hefur verið í þessum efnum, er öldungis ónóg. Það hefur oft verið á það minnzt, að þetta mikla jafnvægisleysi stafaði af ótryggu atvinnuástandi úti á landi umfram það, sem væri hér á höfuðborgarsvæðinu, og því hafa ýmsar till. manna miðazt við það, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að bæta nokkuð úr í atvinnumálum úti á landi. Ég vil ekki á neinn hátt gera lítið úr því, að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að bæta úr í atvinnumálum víða úti á landsbyggðinni frá því, sem verið hefur, og gera atvinnuástand þar allt öruggara. En ég er fyrir löngu orðinn sannfærður um það, að aðalorsökin fyrir jafnvægisleysinu liggur ekki í mismuninum á þessu sviði. Það hefur komið mjög greinilega í ljós, að þau svæði eru til úti á landi, ekki aðeins einstakir staðir, heldur allstór svæði, þar sem atvinnuástandið hefur verið fyllilega sambærilegt við það, sem er í Reykjavík, um langt árabil. Meðaltekjur manna í mörgum starfsgreinum hafa verið fyllilega eins háar og þær hafa verið á Reykjavíkursvæðinu, en eigi að síður hefur gætt jafnvægisleysis í sambandi við búsetu manna. Að þessu þarf að huga, þegar verið er að kanna leiðir til úrbóta í þessum efnum. Ég held, að það þurfi að huga miklu meira að því en gert hefur verið, að það eru ýmis önnur atriði, sem hér grípa einnig inn í, og þar komum við að ýmsum félagslegum efnum. Það skiptir hreint ekki litlu máli fyrir fólkið í landinu, hvernig t.d. aðstaða er til menntunar, hvaða aðstaða er til þess að koma börnum í skóla, a.m.k. að því marki, sem nú er almennt stefnt að hjá þeim, sem sæmilega komast af í landinu. Þegar þannig er haldið á uppbyggingu skólamálanna í landinu, að flestir eða allir framhaldsskólar eða sérskólar þurfa að vera í Reykjavík og heilir landshlutar fara svo að segja alveg varhluta af slíku skólakerfi, þá leiðir það af sjálfu sér, að þeir munu verða æði margir, sem leita einmitt inn á höfuðborgarsvæðið af þeim ástæðum, að þar er miklu auðveldara að mennta börnin heldur en á hinum svæðunum. Og það hefur gengið grátlega seint að koma fram úrbótum í þessum efnum. Og það hefur heyrzt hér á Alþ., því miður, þegar kvartað er undan því, að það vanti tiltekna skóla í vissa landshluta, að það sé vel hægt að koma nemendum úr þessum landshlutum fyrir á Reykjavíkursvæðinu, útvega þeim skólapláss þar, af því að þar sé nægilegt húspláss til í skólunum.

Fullyrðingar af þessu tagi bera vott um það, að menn hafa ekki áttað sig á því, hvers konar vandamál er við að glíma, þar sem jafnvægisleysið er í búsetunni í landinu. Og hvaða ástæður liggja til þess? Það er einnig um það að ræða, að mikil áhrif hefur bæði á staðsetningu og rekstur fyrirtækja og þar með á þróun allra atvinnumála, hvernig miðstjórnarvaldinu öllu er fyrir komið í landinu. En því er þannig fyrir komið hjá okkur, að það er t.d. óþekkt fyrirbæri á Íslandi, að nokkur stofnlánasjóður, sjóður, sem veitir lán til stofnframkvæmda, sé staðsettur nema í Reykjavík. Og það er ekki aðeins það, að þeir séu allir staðsettir í Reykjavík, heldur hafa allir þann hátt á, að það er með öllu útilokað að ganga frá stofnláni til fyrirtækis, nema skjöl öll og þar til heyrandi gögn séu send til Reykjavíkur og umboð með og lánið veitt og útborgað í Reykjavík. Þetta er svo þunglamalegt fyrirkomulag, að það tekur í rauninni engu tali. Og þetta er ekki aðeins í sambandi við lánastofnanir. Ekki er ástandið betra varðandi ýmiss konar ríkisstofnanir, t.d. alla yfirstjórn fræðslumálanna í landinu, yfirstjórn vegamála, hafnamála og alls slíks. Er ekki nóg með það, að háyfirstjórn þessara mála hafi aðalbækistöð sína í Reykjavík, heldur heimta allir þessir aðilar, að öll stofnunin, eiginlega frá toppi til táar, verði að vera í Reykjavík og allt verði að vinnast þar, sem að undirbúningi lýtur í sambandi við framkvæmdir t.d. á þessum sviðum, sem ég nefndi. Því er raunverulega þannig komið, að ef á að byggja brú yfir vatnsfall á Austurlandi, svo að við tökum það sem dæmi, þá verður að sjá um það, að hún sé teiknuð í tilteknu húsi hér í Reykjavík. Það er talið með öllu óframkvæmanlegt að láta vinna það verk t.d. á Austurlandi. Þannig er þessu fyrir komið á allan hátt, og þetta verður til þess, að þeir, sem úti á landsbyggðinni búa, verða að standa undir gífurlega miklum kostnaði, þegar allt er talið, í sambandi við ferðalög sín fram og til baka til miðstjórnarvaldsins í Reykjavík til þess að reyna að sannfæra menn þar um það, sem gera þarf, til þess að tala við þá, og oftast nær þarf auðvitað að gera það margsinnis í hverju einstöku máli.

Ég þarf í rauninni ekki að hafa um þetta langt mál að þessu sinni. Ég hef talað fyrir þessu máli áður á Alþ., og ég efast ekkert um það, að öllum hv. alþm. er fyllilega ljóst, að það er þörf á að taka á málinu, það er þörf á að taka á þessu á miklu breiðari grundvelli en gert hefur verið áður, og því er fyllilega ástæða til þess að setja mþn., sem kanni málið og geri till. um ný úrræði í þessum efnum. Ég get því í rauninni stytt mál mitt og skal sleppa því nú að nefna ýmis dæmi um það, hvernig að kreppir í þessum efnum.

Mál þetta er búið að liggja hér lengi fyrir og hefur ekki komizt til 1. umr., en af því að það hefur verið lagt fyrir Alþ. margsinnis áður og er í rauninni margrætt á Alþ. og það er aðeins verið að leggja til, að Alþ. bregðist nú við á eðlilegan hátt og setji niður rannsóknarnefnd í málið til þess að kanna það og til þess að gera till. um það. Og ég vænti þess, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, afgreiði það fljótt og vel, en leggist ekki á það eða taki upp á því eins og vill verða og það á áliðnu þingi að senda málið frá sér tvist og bast til margra aðila, svo að bíða þurfi fram á síðasta dag eða jafnvel fram yfir hann eftir því, að nefndin skili áliti sínu. Það þarf ekki að spyrja aðra en alþm. sjálfa eða þá, sem mundu fjalla um þetta mál í n., hvort ástæða sé til þess, að Alþ. taki þannig á þessu máli, sem hér er lagt til. Það er alveg óþarfi að leita til einhverra ríkisstofnana og spyrja þær um ráð í þessum efnum, enda megum við vita það, að viðbrögð ríkisstofnana hér verða svipuð og viðbrögð ríkisstofnana í löndunum hér í kringum okkur, þar sem sams konar vandamál hafa komið upp og tekið hefur verið á þessum vandamálum. Ríkisstofnanirnar sjálfar eru nálega alltaf á móti því að gera nokkra breytingu á í þessum efnum. Forstöðumenn stofnananna hafa alltaf þessa sterku tilhneigingu til að hlaða í kringum sig og segja, að þetta verði aldrei gert vel nema undir þeirra eigin stjórn. Ég minnist þess í þessu sambandi, og það veit ég, að fleiri alþm. muna, — mér er það sérstaklega minnisstætt, sem gerðist hér á Alþ. varðandi mál eins og þetta fyrir allmörgum árum. Þá var mikið um það rætt, að það þyrfti að koma upp sæmilegri skólastofnun yfir húsmæðrakennaraefnin í landinu. Það var rekinn skóli með 12 nemendum í þessari grein. Og það urðu allmiklar deilur um það hér á Alþ., hvort það væri í rauninni mögulegt að hafa skóla af þessari tegund, sem hefði 12 nemendur og átti að undirbúa húsmæðrakennaraefni, hvort það væri yfirleitt mögulegt að hafa hann annars staðar en í Reykjavík. Þá var bent á það, að það væri jafnvel tilbúið hús, sem ríkið ætti, í öðrum stærsta kaupstað landsins. En forstöðumenn þessarar litlu stofnunar og þeir, sem þar áttu mestra hagsmuna að gæta, töldu fram hin ólíklegustu rök fyrir því, að í rauninni gæti skólinn hvergi annars staðar verið en í Reykjavík og það væri ómögulegt að nota húsnæði, sem til væri norður á Akureyri.

Svona er þessu farið, og þessu er auðvitað svona farið í öðrum löndum líka. Það er tregða á því hjá embættismönnunum, hjá hinum opinberu starfsmönnum að fallast á dreifingu þessa framkvæmdavalds, og það má vel fara svo, að það geti orðið hjá okkur eins og við höfum verið að heyra fréttir um í útvarpi nú síðustu daga, að ef forstöðumenn ýmiss konar stofnana eða starfsmenn væru spurðir að því, hvort þeir vildu vinna áfram í stofnuninni, ef hún yrði ekki staðsett í Reykjavík, þá yrðu þeir allmargir, sem segðu: Þá vil ég heldur hætta en að vinna í stofnuninni utan Reykjavíkur.

Mín skoðun er sú, að hinar einstöku stofnanir, sem ætlaðar eru til þess að þjóna þjóðinni allri, séu ekki til vegna mannanna, sem vinna í stofnununum, heldur séu þær til fyrir þjóðina, og vilji þeirra manna, sem vinna í stofnununum, eigi því ekki að ráða um það, hvar stofnunin er sett niður, heldur hagkvæmni frá sjónarmiði heildarinnar. Og það getur ekki verið hagkvæmt til lengdar að hafa allar framkvæmdastofnanir þjóðarinnar svo að segja á einum stað, í Reykjavík.

Ég læt svo máli mínu lokið, en vil vænta þess, að n. taki málið fyrir til afgreiðslu og hraði sinni afgreiðslu. Ég vænti þess, herra forseti, að till. verði vísað til allshn.