09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3891)

117. mál, klak- og eldisstöð fyrir lax og silung

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrsti flm. þessarar till. um klak- og eldisstöð fyrir lax og silung í Þingeyjarsýslum, hv. varaþm. Jónas Jónsson, er nú ekki hér á þingi, og kemur því í minn hlut sem 2. flm. að mæla með till. En till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að koma upp klak- og eldisstöð fyrir lax og silung og aðra nytjafiska, ef henta þykir, svo fljótt sem nauðsynlegt fé fæst til framkvæmda. Stöðin verði á þeim stað í Þingeyjarsýslum, þar sem skilyrði reynast hagstæðust.“

Í 62. gr. laga nr. 76 1970, um klak- og eldisstöðvar, segir svo:

„Rétt er ráðh. að koma upp klak- og eldisstöð, einni eða fleiri, þegar fé er veitt í fjárlögum. Rétt er, að slík stöð sé reist og rekin af félagi, er bæði ríkissjóður og aðrir aðilar standa að. Veiðimálastjóri hefur umsjón með stöðvum þessum.“

Samkv. orðalagi þessarar lagagreinar er það, eins og hv. þm. heyra, lagt á vald ráðh. að koma upp klak- og eldisstöðvum, einni eða fleirum, þegar fé er veitt til þess í fjárlögum. Eins og kunnugt er, hefur heimildin þegar verið notuð til þess að koma upp einni fiskeldisstöð, stöðinni í Kollafirði, sem stofnuð var fyrir u.þ.b. 10 árum. Starfsemi þessarar stöðvar hefur borið athyglisverðan árangur, og má benda á það, að á s.l. sumri hafa gengið eitthvað yfir 4000 laxar úr sjó í stöðina af þeim seiðum, sem sleppt hefur verið úr stöðinni á undanförnum árum. Hins vegar mælir margt með því, að fleiri stöðvum verði komið upp, og fyrir nokkrum árum var samþ. þáltill. þess efnis, að látin yrði fara fram athugun á því, hvort rétt væri að stofnsetja slíka stöð á Norðurlandi. Var sérstaklega að því vikið í þessari till., að athuguð yrðu skilyrði fyrir slíkri stöð í Þingeyjarsýslum og svo nánar tiltekið á vatnasvæði Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Á grundvelli þessarar till. hafa verið gerðar athuganir á mörgum stöðum á Norðurlandi á skilyrðum til þess að koma upp klak- og eldisstöð fyrir lax og silung. Eru þeir staðir, sem athugaðir hafa verið og álitlegir hafa þótt, einkum í Þingeyjarsýslum. Það eru í þessum sýslum a.m.k. fjórir staðir, sem eru taldir vel fallnir til slíkrar starfsemi og eru taldir í fyrstu röð í þeirri skýrslu, sem fyrir liggur um athugunina. Það er Litlá hjá Skúlagarði í Kelduhverfi, Húsavík, Hafralækur í Aðaldal og Mývatnssveit eða staður við austanvert Mývatn. Til þess að gera upp á milli þessara staða mundi þurfa nánari rannsókn. En það eru nokkur atriði, sem eru mjög mikilsverð í þessu sambandi og eru öll fyrir hendi á þeim stöðum, sem ég hef nú nefnt. Það er í fyrsta lagi nægilega gott eldisvatn, bæði heitt og kalt, þannig að hægt sé að fá æskilegan eldishita á vatnið. Í öðru lagi, nægilegt landrými. Í þriðja lagi, möguleikar á að tryggja varavatn í nágrenni. Í fjórða lagi, sæmilegar samgöngur til flugvallar og að góðum veiðiám. Og svo að lokum í fimmta lagi, möguleikar á að útvega ódýrt fóður í viðráðanlegri fjarlægð. Ég vil nefna það sérstaklega í þessu sambandi, að bæði í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og í ám, sem renna í Þistilfjörð, er sérlega stórvaxinn laxastofn, og einnig má benda á það, að bæði Húsavík og fleiri staðir í Þingeyjarsýslum kæmu mjög til greina sem verksmiðjustaðir fyrir framleiðslu á tilbúnu fiskfóðri, sem bráðlega hlýtur að verða hér framleiðslugrein, bæði fyrir innlendan markað og sennilega einnig til útflutnings. Á það vil ég jafnframt benda, að á austanverðu Norðurlandi, eða á svæðinu frá Ólafsfirði og austur á Langanes, eru a.m.k. 28 ár, stærri og minni, sem eru eða geta orðið laxveiðiár, og a.m.k. 14 þeirra eru nú þegar laxveiðiár.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en till. er um það, eins og ég áður hef sagt, að heimild, sem til er í lögum, verði notuð til þess að koma upp klak- og eldisstöð fyrir lax og silung í Þingeyjarsýslum. Við flm. teljum, að athuganir þær, sem um er að ræða, séu það langt á veg komnar, að eðlilegt sé að samþykkja þessa tillögu.

Ég legg svo til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.