26.11.1970
Neðri deild: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í D-deild Alþingistíðinda. (4055)

100. mál, rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér á dagskrá í gær, þá voru nokkuð rifjaðar upp þær umr., sem fram fóru um verðstöðvunarmálin í sambandi við umr. um frv. ríkisstj. um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis. Hv. 1. þm. Reykn. vitnaði þá alveg sérstaklega í viðræður, sem höfðu átt sér stað við verðlagsstjóra varðandi þessi mál í fjhn. þessarar deildar. Frá þessum viðræðum hafði verið skýrt hér á Alþ. áður, en vegna þeirra ummæla, sem hér komu fram hjá hv. 1. þm. Reykn., þá sé ég ástæðu til þess að rifja hér enn einu sinni upp þessi ummæli verðlagsstjóra varðandi verðstöðvunarmálið, sem fram komu á þessum umrædda fundi fjhn. Því fer víðs fjarri, að verðlagsstjóri hafi á þessum fundi fullyrt eitthvað um það, að ekki hafi orðið breytingar almennt á vöruverði frá 13. okt. og þar til verðstöðvunin varð 1. nóv. Það, sem verðlagsstjóri sagði í þessum efnum, var það, að á vegum verðlagsskrifstofunnar hefði farið fram almennt eftirlit með verðlagi, eins og venja væri til, og slík athugun stæði enn yfir og væri ekki lokið á þeim tíma, sem þessi fundur fór fram. En hann sagði, að enn hefðu ekki komið fram neinar sérstakar óeðlilegar verðhækkanir að þeirra dómi. Verðlagsstjórinn var spurður um það, hvort verðlagsskrifstofan hefði látið fara fram sérstaka athugun á verðlaginu fyrir 13. okt., fyrir þann dag, þegar hæstv. forsrh. gaf sína yfirlýsingu um það, að gert væri ráð fyrir því að setja á verðstöðvun, og eins hvort skrifstofan hefði framkvæmt sérstaka athugun á verðlaginu þar á eftir. Þá svaraði verðlagsstjórinn því, að engin slík sérstök athugun á verðlaginu hefði verið framkvæmd. Þegar þetta er upplýst, þá liggur það auðvitað alveg ljóst fyrir, að það er engin aðstaða til þess að segja neitt um það, nema fram fari alveg sérstök athugun á málinu, hvaða breytingar hafa almennt orðið á verðlaginu á þessu takmarkaða tímabili. Lauslegar athuganir verðlagsskrifstofunnar eru ekki þess eðlis, að hægt sé að draga af þeim neinar ályktanir um þessar verðbreytingar. Það kom einnig fram í viðtalinu við verðlagsstjóra um þessi mál, að verðlagsskrifstofan hefur mjög takmörkuðum mannafla á að skipa til þess að lita eftir verðlaginu í landinu. Hann upplýsti t.d., að í þjónustu verðlagsskrifstofunnar væru aðeins 4–5 menn fastráðnir til þess að líta eftir verðlagsmálum á öllu landssvæðinu utan Reykjavíkurumdæmis. Ég álít því, að það liggi alveg ljóst fyrir, að það sé ekki hægt að halda því fram, sem hv. 1. þm. Reykn. gerir, að verðlagsstjóri hafi gefið einhverjar yfirlýsingar um það, að á þessu tímabili hafi ekki orðið neinar þær verðlagsbreytingar, sem orð sé á gerandi. Það er engin leið að fullyrða neitt um þetta, án þess að það fari fram ítarleg athugun á því, hvernig verðlaginu var háttað fyrir þennan tiltekna dag og hvernig verðlagið var siðan aftur t.d. 1. nóv.

Það hefur einnig verið upplýst hér í umr. á Alþ., að á tímabilinu frá 13. okt. til 1. nóv. voru samþykktar mjög víðtækar verðlagsbreytingar af verðlagsnefnd, a.m.k. í 12 tilfellum. Þessar verðhækkanir hafa verið raktar hér á Alþ. Margar þeirra eru þess eðlis, að þær verka á verðlagið mjög almennt og hafa mjög víðtæk áhrif. Það hefur einnig verið upplýst hér í umr. á Alþ., að fyrir utan þessar verðbreytingar, sem verðlagsnefnd samþykkti á tímabilinu frá 13. okt. til 1. nóv. og voru býsna almennar, þá koma svo einnig aðrar verðbreytingar, sem t.d. opinberir aðilar ákváðu á þessu tímabili. Og þar að auki eru svo allar þær verðbreytingar, sem geta hafa átt sér stað í verzlunum og fyrirtækjum eða stofnunum, sem ráða yfir verðlagi og hafa beinlínis heimild til þess samkv. lögum og reglum að breyta verðlagi án þess að leita til verðlagsyfirvaldanna. Ég held, að það geti ekki leikið neinn vafi á því, að í þessum efnum sé almenningsálitið í landinu ólygnast. Það hefur kveðið upp sinn dóm um það, að á þessu tímabili, hafi orðið miklar, mjög miklar verðbreytingar. Enda er það auðvitað í fullu samræmi við það, sem alltaf hefur verið talið, að hætta væri á, þegar um slíka aðgerð sem þessa hefur verið að ræða. Hvernig leit hæstv. ríkisstj. t.d. á þessi mál, þegar hún stóð að verðstöðvunarfrv. sínu á árinu 1967? Í því frv., sem ríkisstj. lagði þá fyrir Alþ., var beinlínis tekið fram, að verðstöðvunin skyldi gilda frá þeim degi, sem frv. var lagt fram, ekki frá þeim degi, sem frv. var samþ. sem lög frá Alþ. Og í grg. með því frv. sagði ríkisstj. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Augljóst er, að verðhækkanir, er ættu sér stað frá framlagningardegi frv. og þar til það yrði að lögum, mundu torvelda og jafnvel hindra framgang þeirra ráðstafana, er felast í frv.“

Þá leit hæstv. ríkisstj. þannig á það, að alveg væri óhjákvæmilegt, ef verðstöðvunin ætti að ná tilgangi sínum, að hún gilti frá þeim degi, sem frv. kom fram á Alþ. um fyrirhugaða verðstöðvun. En nú er sem sagt annar háttur hafður á. Nú var verðstöðvunin, eins og hér hefur margsinnis verið bent á, tilkynnt opinberlega öllum landsmönnum með 18 daga fyrirvara af hæstv. forsrh. landsins. Það gefur vitanlega alveg auga leið, hvort þeir aðilar í landinu, sem hafa ýmist verið að undirbúa kröfur sínar um það að fá fram verðhækkanir sér til handa, eða þeir aðilar, sem höfðu beinlínis lagalegan rétt til þess að breyta verðlagi, og svo allir hinir, sem gátu beinlínis í skjóli hins almenna verðlags breytt verði á þeim varningi, sem þeir voru að selja, hvort þeir hafi ekki gert það að meira eða minna leyti í þetta skipti, eins og almennt hefur verið talið áður, að hætta væri á. Fullyrðingar um það, að engar óeðlilegar verðbreytingar hafi átt sér stað á þessu tímabili, eru því í rauninni alveg út í bláinn. Það eina, sem fyrir liggur alveg staðfest, er það, að á þessu tímabili áttu sér stað allmargar verðbreytingar, en það á eftir að láta fara fram ítarlega athugun á því, hversu víðtækar þessar verðbreytingar hafa verið.

Ég sé nú ekki mikla ástæðu til þess að elta ólar við þær fullyrðingar hv. 1. þm. Reykn., sem hann endurtók hér við þessar umr. en hafði sagt hér áður í umr. um verðstöðvunarfrv., að sökin væri okkar Alþb.-manna í sambandi við þær verðbreytingar, sem orðið hefðu á þessu tímabili, með því að við hefðum flutt hér frv., sem útbýtt var á Alþ. 15. okt. Það hafi verið áhrifin af okkar frv., sem raunverulega hafi hleypt verðhækkunarskriðunni af stað. Þessi fullyrðing hv. þm. er svo fráleit, að ég hélt satt að segja, að hann mundi ekki endurtaka hana, eftir að búið var að benda honum á það áður, hversu fráleit hún væri. Í fyrsta lagi er nú það, — og ég hélt, að flestir landsmenn væru nú búnir að læra það — að þó að stjórnarandstaðan flytti mál á Alþ., væru ekki mjög miklar líkur til þess, að slík mál næðu fram að ganga, því að þannig hefur verið farið með þau mál, sem stjórnarandstaðan flytur. Hins vegar býst ég líka við, að menn hafi tekið eftir því, að þegar ríkisstj. og sjálfur forsrh. tilkynnir einhverja almenna, lagalega aðgerð, þá hafi menn þó búizt við því, að farið yrði eftir slíkri tilkynningu. Það gefur því alveg auga leið, að það er auðvitað tilkynning forsrh., sem gefin var í sjónvarpi þann 13. okt., sem hefur haft áhrif í þessum efnum, en ekki frv. okkar Alþb.-manna, sem kom fram hér á Alþ. þann 15. okt. En við gerðum beinlínis ráð fyrir því í okkar frv., að sú verðstöðvun, sem við lögðum til, að ákveðin yrði, gilti frá 15. okt., frá framlagningu okkar frv. á Alþ. Það hefði verið auðvelt fyrir ríkisstj. að miða sína verðstöðvun við 13. okt. eða yfirlýsingardaginn hjá hæstv. forsrh., hefði ríkisstj. virkilega viljað koma í veg fyrir það, að ýmsir aðilar hér í þjóðfélaginu notfærðu sér upplýsingarnar um það, að verðstöðvun væri á næsta leiti. Það var mjög einfalt fyrir ríkisstj. að standa þannig að verðstöðvuninni, ef hún aðeins vildi. En hún kaus að hafa þann háttinn á að tilkynna málið þann 13. okt., en skella síðan verðstöðvuninni á 1. nóv. Og á móti því verður ekki mælt, að þetta eru óvenjuleg vinnubrögð. Svona hefur ekki verið staðið að þessum málum hér áður, og þetta eru í rauninni alveg óskiljanleg vinnubrögð, nema, eins og hér hefur verið bent á, það hafi beinlínis verið tilætlun ríkisstj., að ýmsar verðhækkanir kæmu fram á þessu tímabili, frá því að tilkynningin var gefin og þar til verðstöðvunin átti að taka gildi, nema það hafi verið beinlínis til þess ætlazt, að ýmsar verðhækkanir kæmu fram á þessu tímabili, svo að sú margumtalaða verðaðlögun, sem ríkisstj. hafði reiknað með, næði fram að ganga. Eða hvernig stóð á því, að hæstv. ríkisstj. kaus að hafa annan hátt á nú í sambandi við þessa verðstöðvun en hún hafði í sambandi við fyrri verðstöðvun sína á árinu 1967? Hvernig stóð á því? Af hverju þurfti þá að binda það í lögum, að verðstöðvunin gilti frá þeim degi, er frv. um verðstöðvun var sýnt í þinginu? En nú mátti snúa hlutunum við, tilkynna verðstöðvunina fyrst með 18 daga fyrirvara, og síðan átti verðstöðvunin að koma.

Það er út af fyrir sig býsna athyglisvert, að talsmenn ríkisstj. skuli í þessu sambandi tala um, að ekki hafi átt sér stað nein óeðlileg verðlagsþróun á þessu tímabili, frá 13. okt. til I. nóv. Þetta orðalag, sem er greinilega engin tilviljun, að er notað, af því að það er endurtekið hvað eftir annað, bendir til þess, að þessir talsmenn ríkisstj. telji, að það hafi á þessu tímabili, þ.e. eftir að verðstöðvunin var tilkynnt, einnig getað farið fram einhverjar verðlagshækkanir, sem telja verði eðlilegar, en aðrar hafi að þeirra dómi verið óeðlilegar. Ég hef lýst því hér áður, að það er mín skoðun, að allar verðlagshækkanir, sem fram fóru, eftir að tilkynningin var gefin af hæstv. forsrh., hafi verið óeðlilegar. Eftir að búið var að tilkynna um verðstöðvun, þá átti að læsa verðlaginu föstu, og úr því átti ekki að heimila verðlagshækkanir.

Í þeirri till., sem liggur nú fyrir til umr. og flutt er af okkur Alþb.-mönnum hér í Nd., er lagt til, að efnt verði til sérstakrar raunsóknar á þeim breytingum, sem urðu á verðlaginu og telja má sem aðdraganda verðstöðvunarframkvæmdanna. Við leggjum til í okkar till., að alveg sérstaklega verði athugað, hvaða áhrif yfirlýsing hæstv. forsrh. muni hafa haft í þessum efnum, en því fer fjarri, að okkar till. sé eingöngu um athugun á því, hvaða áhrif þessi tilkynning forsrh. hafi haft. Í till. segir alveg skýrum orðum, að nefnd sú, sem lagt er til, að kosin verði, skuli rannsaka aðdraganda verðstöðvunar þeirrar, sem kom til framkvæmda 1. nóv. En auðvitað er það gefið mál, að þar er átt við að athuga alla verðlagsþróunina, sem hefur orðið á a.m.k. nokkurra mánaða tímabili og leiddi til þess, að óhjákvæmilegt þótti að grípa til verðstöðvunarinnar. Engum manni kemur til hugar að halda því fram, að gripið hafi verið til verðstöðvunarinnar eingöngu vegna þeirra verðbreytinga, se urðu frá 13. okt. til 1. nóv. eða frá því að hæstv. forsrh. gaf sína yfirlýsingu og þar til verðstöðvunin var ákveðin. Með okkar till. er beinlínis lagt til að rannsaka vel breytingarnar, sem urðu til þess, að það varð að grípa til verðstöðvunarlaganna. En í okkar till. er einnig lögð áherzla á, að það sé einnig skoðað gaumgæfileg , hvaða áhrif muni hafa orðið af þessari fyrirframtilkynningu hæstv. forsrh.

Nú hefur komið í ljós, að þrír hv. framsóknarmenn flytja hér till. á þskj. 164 um nákvæmlega sama efni og við Alþb.-menn höfum flutt till. um. Þeir tilgreina það aðeins í sinni till., að rannsaka skuli í þessum efnum allar þær verðhækkanir, sem hafa orðið síðan kaupsamningarni voru gerðir í júnímánuði. En við viljum láta rannsak aðdragandann að verðstöðvuninni, allar þær verðbreytingar, sem hafa verkað þar á. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að till. þeirra framsóknarmanna eru nákvæmlega sama efni. En í till. sinni leggja þeir a vísu enga sérstaka áherzlu á að athuga, hvaða áhrif afi orðið af tilkynningu forsrh. Það er því að mínum d í alveg furðulegt, þegar 1. flm. till. þeirra framsókna anna lýsir því hér yfir við þessar umr., að þeir geti ekki fallizt á till. okkar, sem fjallar um nákvæmlega sama efni og till. þeirra. En hvað um það, það verður hver og einn að nota sitt áralag. Ef menn vilja hafa þennan hátt á, þá verður það svo að vera. En við því er í rauninni ekkert að segja frá okkar hálfu, aðeins þetta, að það vekur nokkra undrun, að þetta skuli vera þeirra afstaða.

Ég held, a það sé alveg nauðsynlegt í slíkum tilfellum sem þess , að fram verði látin fara ítarleg athugun á verðlagsbreytingunum og öllum aðdragandanum að verðstöðvuninni að þessu sinni og alveg sérstaklega á þeim þætti, sem snertir þessa einkennilegu yfirlýsingu hæstv. forsrh

till., sem hér hefur komið fram frá hv. 1. þm. Reykn., að sú þn., sem fái þetta mál til athugunar, geti framkvæmt þessa athugun, er að mínum dómi alveg fráleit. Hvers vegna halda menn, að ákvæðin í 39. gr. stjórnarskrárinnar hafi yfirleitt verið sett, þar sem gert er beinlínis ráð fyrir því, að þd. geti skipað sérstakar nefndir, sem hafi með höndum rannsókn á tilteknum málefnum, en menn ætla að bregðast þannig við öllum uppástungu um slíkt að segja, ja, sú þn., sem fær viðkomandi till. til athugunar, getur bara framkvæmt þessa rannsókn? Það vita allir hv. þm., að aðstaða þm. til vinnu í almennum þn., sem starfa hér á þingtímanum, þar sem miðað er við, að þm. fjalli um þær till., sem þangað bera og skoði þær, aðstaða þm. í þessum efnum er engan veginn þannig, að þeir geti tekið að sér víðtækar, almennar rannsóknir, sem krefjast þess að yfirheyra fjölda manns og fjölda aðila og fara yfir ýmiss konar skýrslur um málefnið. Til þess er engin aðstaða. Þeir, sem leggja slíkt til, eru að fara fram á, að það verði nálega engin athugun framkvæmd á málinu.

Ég vil einnig í þessu sambandi segja það, sem ég hef sagt hér áður við svipað tækifæri, að ég tel alveg fráleitt, ef það á að slá því föstu með vinnubrögðum hér á Alþ., að í hvert skipti, sem lagt er til, að kosin sé rannsóknarnefnd til þess að rannsaka tiltekið málefni, þá sé því slegið föstu fyrir fram, að Alþ. sé búið að lýsa yfir sínu áliti í viðkomandi málefni. Til þess eru rannsóknarnefndir skipaðar, að þær eiga að rannsaka málið ítarlega og leggja sínar skýrslur um málið fyrir Alþ., og það er ómögulegt að segja um það fyrir fram, áður en rannsóknin er hafin, hver útkoman muni verða úr þessari rannsókn. Vitanlega er engu slegið föstu um það, þó að efnt yrði til þessarar rannsóknar samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, það er engu slegið föstu um það, að aðdragandi verðlagsþróunarinnar á þessum tíma hafi verið óeðlilegur. En það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. líti þannig á þetta mál, að ef þessi athugun verði samþ. á Alþ., jafngildi það um leið dómi yfir vinnubrögðum ríkisstj. í málinu. En það er vitanlega engin ástæða til þess að taka till. sem þessari á þennan hátt. Það er rétt að láta rannsóknina fara fram. Sá, sem treystir á sinn málstað, á ekki að þurfa að óttast slíka rannsókn. Hann fær einmitt tækifæri til þess að leggja öll sín gögn á borðið, en sá, sem stendur gegn því að láta framkvæma rannsókn eins og þessa, hlýtur að óttast um sinn málstað. Hann er hræddur við athugunina.

Það þarf nú ekki að eyða hér löngu máli, úr því sem komið er, að því, að mjög miklar og vægast sagt vafasamar verðbreytingar hafa átt sér stað á s.l. sumri og s.l. hausti, sem leiddu svo til mjög mikillar hækkunar á framfærsluvísitölunni og áttu síðan vitanlega að leiða til hækkunar á kaupgjaldsvísitölunni og urðu svo til þess, að ríkisstj. kom fram með sínar till. um verðstöðvun. Enginn vafi er á því, að þessar miklu verðhækkanir áttu sér stað í sumar og haust af þeim ástæðum, að ríkisstj. hélt sér við sína gömlu afstöðu til kaupgjalds- og verðlagsmála. Hún var á þeirri skoðun, að um leið og kaup var hækkað með kaupgjaldssamningunum um miðjan júnímánuð væri rétt að heimila svo að segja öllum, sem laun þurftu að greiða, að hækka álagningu eða hækka sitt útsöluverð a.m.k. sem nam kaupgjaldshækkuninni. Það er þessi stefna ríkisstj., sem hefur leitt það af sér í þetta skipti og oft áður, að í kjölfar sanngjarnra og eðlilegra kauphækkana hafa komið gífurlega miklar almennar verðlagshækkanir í landinu. Ég hef sagt það áður, þegar þetta mál hefur verið rætt, að mér dettur ekki í hug að neita því, að í kjölfar 15–18% kauphækkunar, sem samið var um á s.l. sumri, hafi ekki fyllilega verið eðlilegt, að verðlag í ýmsum tilvikum hafi hækkað eitthvað, en ég álít, að almennt hafi atvinnurekendur, kaupsýslumenn og ýmsir þeir aðrir aðilar, sem ráða mjög verðmynduninni í landinu, haft tiltölulega góða aðstöðu til þess að taka á sig sanngjarnan hluta af þessari kauphækkun, án, þess að til verðhækkunar þyrfti að koma. Og ég held, að sú verðhækkun, sem telja hefði mátt eðlilegt, að hefði fylgt á eftir kauphækkuninni, hefði ekki þurft að verða meiri en svo, að hún hefði ekki þurft að valda hér neinum meiri háttar erfiðleikum í okkar efnahagslífi. Ástæðurnar fyrir þessu eru auðvitað þær, að ytri kringumstæður í okkar efnahagskerfi voru einstaklega hagstæðar. Verð á okkar útflutningsvörum fór ört hækkandi, framleiðslan óx, og þjóðartekjur jukust mjög mikið. Þar áttu auðvitað ekki bara í hlut framleiðendur einir. Menn verða vitanlega að hafa það í huga, að um leið og þjóðartekjurnar vaxa stórlega, vex fljótlega á eftir öll umsetning í landinu, vörusalan stóreykst, umsetningin hjá kaupsýslumönnum eykst, þeirra staða batnar. Þeir gátu því beinlínis sætt sig við nokkru lakari álagningarprósentu en þeir höfðu búið við áður. Framkvæmdin á stefnunni hjá hæstv. ríkisstj. var alveg þveröfug. Hún leyfði kaupsýslumönnum í landinu ekki aðeins að velta af sér allri kauphækkuninni, heldur heimilaði einnig viðbótarálagningu þeim til handa algerlega umfram alla þá kauphækkun, sem þarna hafði átt sér stað. Það er enginn vafi á því, að þegar samþ. var skömmu eftir kauphækkanirnar að heimila kaupsýslumönnum í landinn að hækka álagninguna almennt séð um 12.1 %, þá var verið að veita kaupsýslunni verulega bætt kjör frá því, sem áður var. Það er þessi stefna ríkisstj. í sambandi við kaupgjaldsbreytingar almennt og viðhorf hennar til verðlagsmálanna í landinu, sem hefur leitt til þess nú eins og jafnan áður, að eftir sanngjarnar kaupbreytingar rís hér illviðráðanleg verðbólgualda. Og þegar svona stóð á, var það vitanlega alveg fráleitt af hæstv. forsrh. að tilkynna með 18 daga fyrirvara, að það stæði til að setja á verðstöðvun, því að það gat ekki leitt til neins annars en þess, að ýmsir aðilar í landinu notfærðu sér aðstöðu sína til þess að koma fram sínum verðhækkunum.

Nú þessa dagana hafa átt sér stað nokkrar verðlækkanir í vissum tilvikum með niðurgreiðslum af hálfu ríkisins á vörum. Þegar um það hefur verið að ræða að lækka verð á vöru með niðurgreiðslum, þá hefur hæstv. ríkisstj. haft gersamlega önnur vinnubrögð í þessum efnum en þegar hækkunaraldan var að ganga yfir. Þegar til stóð að lækka verð á ýmsum landbúnaðarvörum, þá var látin fara fram ítarleg rannsókn á því, hvað mikið lægi í verzlunum og afgreiðslustöðum af landbúnaðarvörum á hærra verðinu, og þeir, sem höfðu þessa vöru, gátu gefið sitt magn upp og tryggt sér einnig niðurgreiðslur á þessar birgðir sínar. Þarna átti sem sagt að tryggja það, að kaupsýslumenn yrðu ekki fyrir neinum skakkaföllum. En hvað var gert í þessum efnum, þegar augljóslega var um að ræða, að ýmist var verið að leyfa á löglegan hátt verðlagshækkanir eða það var verið að tilkynna um væntanlega verðstöðvun og þannig að aðvara menn um það, að þeir skyldu nú nota tækifærið til þess að hækka sitt verðlag, ef þeir höfðu til þess heimild, hvað var þá gert? Fór þá fram einhver almenn athugun á því, hvað liði birgðum í landinu og kaupsýslumenn yrðu að selja birgðirnar á réttu verði? Þá upplýsir sjálfur verðlagsstjórinn í landinu, að það hafi engin sérstök athugun verið framkvæmd á því verðlagi, sem þá var, engin sérstök. Aðeins var framkvæmt á vegum verðlagsskrifstofunnar þetta almenna, daufa eftirlit, sem allir vita, að hefur verið nú um langan tíma og tiltölulega lítið hefur haft að segja. Þarna hefur auðvitað milliliðunum verið boðið upp á það að ná til sín allmyndarlegum fjárhæðum umfram það, sem þeim hefur þó verið ætlað að fá

Það er ástæða til þess að vekja athygli á þessum mismunandi vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. varðandi verðlagsmálin eftir því, hver í hlut á, hvort það er hinn almenni neytandi í landinu, sem þarf að kaupa vöruna, eða hvort það er kaupsýslumaðurinn, sem er að selja vöruna. Það er greinilegt, að ríkisstj. lítur svo á, að það þurfi að hafa alla gát á, að kaupsýslumaðurinn verði ekki fyrir áföllum. En hitt virðist ekki skipta ýkja miklu máli, þó að hinn almenni neytandi verði fyrir skaða vegna óeðlilegrar framkvæmdar á verðlagsmálum í landinu. Það má auðvitað segja, að þetta hefði kannske ekki skipt launafólk í landinu ýkja miklu, ef staðið hefði verið við gerða kaupgjaldssamninga, því að ef verðlagið var hækkað á löglegan eða ólöglegan hátt óeðlilega mikið eða mikið, þá átti slíkt vitanlega að koma fram við verðathuganir Hagstofunnar, sem sá um það að reikna út framfærsluvísitöluna, og miðað við framfærsluvísitöluna átti síðan að ákvarða kaupgjaldsvísitöluna, og launþegar í landinu áttu þá að fá hækkað kaup út á hækkandi verðlag. En verðhækkunin var látin ganga yfir, hún mátti eiga sér stað. Það þurfti ekki að hafa mikið eftirlit þar á, en þegar kom að því, að launþegarnir áttu að fá sínar bætur í launum út á hækkandi verðlag, þá þurfti að gera efnahagsráðstafanir, þá þurfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það, að samningarnir, kaupgjaldssamningarnir, yrðu haldnir.

Þessi mál hafa öll verið rædd hér allítarlega áður, þegar frv. um verðstöðvun var hér til afgreiðslu. Ég skal því ekki fara miklu lengra út í að ræða þessi mál að sinni, en það er enginn vafi á því, að það hefur komið skýrt fram í öllum þessum umr., að til þess eru ærnar ástæður, eins og staðið hefur verið að öllum þessum málum að undanförnu, að nú verði látin fram fara ítarleg rannsókn á öllum aðdraganda þessarar verðstöðvunar að þessu sinni, bæði í sambandi við þær verðbreytingar, sem hafa orðið almennt, löglega og ólöglega, og eins þau áhrif, sem orðið hafa af þessum sérstöku og sérstæðu vinnubrögðum af hálfu hæstv. forsrh. að tilkynna um verðstöðvunina með 18 daga fyrirvara. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þjóðin krefst þess almennt nú í dag, að slík rannsókn fari fram, eins og við höfum lagt til. Ég veit auðvitað líka, að hæstv. ríkisstj. hefur afl til þess hér á Alþ. að koma í veg fyrir það, að þessi rannsókn fari fram. Og hún getur auðvitað haldið áfram í blaðakosti sínum að staðhæfa það aftur og aftur, að allt hafi farið hér fram með eðlilegum hætti og að yfirlýsingar forsrh. varðandi verðstöðvunina hafi ekki sakað á einn eða neinn hátt. Og Morgunblaðið getur meira að segja líka haldið áfram að prenta það upp aftur og aftur, að ástæðan fyrir öllum verðlagsbreytingunum frá því í sumar hafi ýmist verið kauphækkanirnar, sem þá var samið um, eða verðstöðvunarfrv., sem við Alþb: menn fluttum. Þetta geta þeir gert. Þessu er vitanlega hægt að halda fram. En ég held nú samt, að almennt sjái menn í gegnum þetta og viti, að það hafa verið leyfðar og framkvæmdar allt of miklar verðhækkanir í sumar og haust og að ríkisstj. hefur staðið í mesta máta óeðlilega að framkvæmd þessara mála. Menn sjá, að það er sannarlega ástæða til þess að samþykkja till. okkar um hlutlausa athugun á þessu máli, svo að úr því verði skorið, hvað hefur verið að gerast, og hægt verði þá að mynda sér rökstudda skoðun á því, hvort það á að ákæra einn eða annan fyrir það að hafa staðið óeðlilega að framkvæmd mála í þessum efnum.