28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (4167)

319. mál, úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hér er um þýðingarmesta mál að ræða, sem er nú til umr. hér í sölum Alþ. dag eftir dag, og er það vel. Ég stend hér upp til þess að fá útskýringar, má vera á misskilningi mínum, og nota tækifærið til þess að beina máli mínu til hæstv. menntmrh., þar sem hann á þegar ósvarað öðrum fsp. Ég tók svo eftir, að þær 10 millj., sem ráðstafað er á fjárlögum 1970 í þessu skyni, ættu aðeins að ganga til greiðslu kostnaðarmismunar fyrir nemendur í gagnfræða-, mennta-, kennara- og sérskólum, en ekki til nemenda á skyldustiginu. Ég veit ekki, hvort það hafa komið nokkrar umsóknir um fyrirgreiðslu til handa nemendum, sem eru á skyldunámsstiginu. Það virðist vera, að þær hafi ekki borizt. Ég veit ekki heldur, hvernig auglýsingin var orðuð um það, að styrkur væri fyrir hendi til handa nemendum. Það kann að vera, að auglýsingin hafi ekki náð til nemenda á skyldunámsstiginu. Ég hef ekki kynnt mér það. En styrkurinn ætti tvímælalaust fyrst og fremst að ná til nemenda á skyldunámsstiginu. Það er auðvitað slæmt, að aðstaðan sé mismunandi til náms þess, sem menn langar til að öðlast, en það er algerlega óverjandi, að það sé námsaðstöðumismunur hjá þeim, sem verða að sækja skólana, sem eru lögskyldaðir til að sækja skólana.

Það eru engin lagafyrirmæli um styrk til nemenda í framhaldsskólum. Það hefur nuddazt hér fram, vil ég segja, með tillöguflutningi ár eftir ár, að fjárveitingavaldið hefur tekið 10 millj. kr. í þessu skyni, sem allir eru svo í vandræðum með að skipta, af því að það er svo lítið. En það eru til lagafyrirmæli, sem kveða á um það, að nemendur við skyldunámið skuli fá fjárstyrk, ef þeir þurfi á því að halda. Þessi fyrirmæli eru í lögunum frá 1946, upphaflegu fræðslulögunum. Þar segir í 9. gr.:

„Nú getur nemandi ekki stundað skyldunám sökum fjárskorts, og skal þá veita styrk til þess af almannafé.“ Og ég spyr: Hverju nema styrkveitingar samkv. 9. gr. laga nr. 22 frá 1946 á því 25 ára tímabili, sem lögin hafa verið í gildi?