26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í D-deild Alþingistíðinda. (4385)

157. mál, gengistöp hjá Fiskveiðasjóði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð nú að taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, 3. þm. Norðurl. v., að mér þótti furðulegt að heyra það lesið hér upp úr bréfi frá stjórn Fiskveiðasjóðs, að gengisáhættu eða gengistapi, sem Fiskveiðasjóður hefði orðið fyrir, hefði verið jafnað jafnt út á alla lántakendur hjá sjóðnum, af því að það hefur verið upplýst hér á Alþ. áður og fer auðvitað ekkert á milli mála, að þetta er rangt. Ég held nú líka, að þeir, sem sömdu þetta bréf, sem hér var lesið upp, hafi hallað orðalagi á þetta penan hátt, að það mátti skilja þetta svona. Þeir hafi í rauninni með orðum sínum ekki meint það, að þeir væru vísvitandi að villa hér um fyrir mönnum.

Málið hefur verið þannig, að á alllöngu tímabili voru þessar heimildir í lögum um það að gengistryggja lánin með sérstökum hætti. Þá var heimildin notuð jafnt fyrir alla á tilteknu tímabili, þannig að allir, sem tóku þá lán úr sjóðnum, fengu lánsskjöl sín með þeim ákvæðum, að þeir ættu að borga lánið með tiltekinni gengisbreytingu, ef hún yrði, eftir nánari útreikningum. En svo kom sem sagt að því, að sjóðsstjórnin ákvað skyndilega að hætta að beita þessum ákvæðum og veitti lán úr sjóðnum án allra skilmála um gengistryggingu. Og það voru allmargir aðilar, sem fengu þá lán úr sjóðnum án þess að þurfa að vera bundnir við þessi gengisákvæði. Svo var gengisákvæðið tekið upp að nýju, og útkoman verður þessi, eins og hv. fyrirspyrjandi hefur tekið hér skýrt fram, að þeir, sem tekið hafa lán úr Fiskveiðasjóði, búa þarna við mismunandi lánakjör eftir því, á hvaða tímabili þeir hafa fengið lán frá sjóðnum. Því gengistapi, sem Fiskveiðasjóður hefur orðið fyrir, hefur því ekki verið jafnað jafnt út á alla, sem hafa tekið lán úr sjóðnum, heldur hefur þetta orðið þannig, að gengistapinu hefur verið jafnað á þá, sem tóku lán með þessum skilyrðum.

Það er enginn vafi á því, að þessi framkvæmd er mjög óréttlát, kemur óréttlátlega niður, og það væri full ástæða til þess að leiðrétta þetta, án þess að fara þyrfti í opinberan málarekstur út af þessari framkvæmd. Og ég vil ekkert fullyrða um það, hvort stjórn Fiskveiðasjóðs yrði nokkurn tíma dæmd til þess að leiðrétta þetta. E. t. v. getur hún hagað framkvæmdinni lagalega séð samkv. ákvæðum laganna um Fiskveiðasjóð á þennan hátt. Ég vil ekkert fullyrða um það, ég þekki það ekki nægilega vel. En mér er það ljóst, að hér hefur framkvæmdin á lánveitingum úr Fiskveiðasjóði orðið með þeim hætti, að óréttlátt verður að teljast. Og ég held, að hæstv. ráðh. hefði átt að athuga þetta mál nokkru betur, eða vildi fara fram á það við hann, að hann gerði það og kannaði, hvort ekki væri auðveldlega hægt að gera hér á einhverja sanngjarna leiðréttingu, án þess að til málareksturs þyrfti að koma, því að ég tel engan vafa vera á því, að þarna sitja hinir ýmsu aðilar, sem tekið hafa lán úr Fiskveiðasjóði, að misjöfnum rétti og búa við misjöfn kjör.