26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (4397)

341. mál, endurvarp sjónvarps frá Reykhólum

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það kemur nú æði oft fyrir, að sjónvarpsmál og hljóðvarpsmál ber á góma hér á hinu háa Alþingi, og er það kannske að vonum, því að menn hafa mikinn áhuga á þessum málum. Hins vegar hygg ég, að það sé unnið að þessum málum eins vel og hægt er, og það verðum við að viðurkenna, að útbreiðsla sjónvarpsins hér á Íslandi hefur orðið með miklum og skjótum hætti. Og ég fyrir mitt leyti álít, að það ætti að vera nóg fyrir okkur þm. að fara með umkvartanir okkar til þeirra manna, sem eru í forsvari fyrir þessi mál og fara með þau.

En úr því að þessi mál ber nú á góma hér rétt einu sinni, þá vil ég minna á það, sem ég veit, að bæði hæstv. menntmrh. og forsvarsmönnum útvarps og sjónvarps er mjög vel kunnugt um, að það hefur veríð kvartað mjög yfir því í Skagafirði, að þessi mál séu ekki í því lagi þar, sem þau eigi að vera. Sérstaklega vil ég þó benda á það, að ég varð var við það mjög nú í jólafríinu, þegar ég var heima, að hljóðvarpið verður þar fyrir mjög miklum truflunum frá erlendum stöðvum, svo miklum, að það er mjög erfitt oft og tíðum að hlusta á íslenzka hljóðvarpið. Ég veit, eins og ég sagði, að þeim mönnum, sem fara með þessi mál, er kunnugt um þetta, og ég efast ekki um, að þeir muni reyna eftir megni að leysa þessi vandamál, en ég vildi aðeins benda á þetta, úr því að þessi mál koma hér á dagskrá rétt einu sinni.