02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í D-deild Alþingistíðinda. (4469)

342. mál, endurbætur á flugvöllum

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það er almennt viðurkennt, að flugsamgöngur innanlands á Íslandi séu á mjög háu stigi, ef miðað er við landfræðilegar aðstæður, fjölda þjóðarinnar og hina dreifðu byggð. Einn landshluti hefur þó ekki enn þá verið tengdur við hið fullkomna flugkerfi innanlands, en þar á ég við Vesturland, nánar tiltekið þau héruð, sem mynda Vesturlandskjördæmi.

Flugsamgöngur á milli höfuðstaðarsvæðisins annars vegar og Akraness og Borgarness hins vegar eru sérstakt vandamál, sem raunar er nú vaxandi áhugi á, en er ekki til umr. hér í dag.

Hins vegar eru á norðanverðu þessu svæði þrír litlir flugvellir, einn á Hellissandi, annar í Stykkishólmi og enn einn hjá Búðardal, sem eðlilegt virðist að gætu tengzt hinu venjulega samgöngukerfi flugvéla í landinu. Fjarlægðin til þessara héraða er þannig, að ætla má, að flugsamgöngur yrðu töluvert mikið notaðar og kæmu að góðu gagni, ef þær væru fyrir hendi með reglulegu móti. Einnig virðist vera mögulegt, að þessir staðir gætu tengzt flugsamgöngum, sem eru milli höfuðborgarsvæðisins og Vestfjarða að einhverju leyti, þannig að ekki þyrfti að setja upp algerlega nýjar flugleiðir, og er þá hugsanlegt, að það gæti orðið til að styrkja flug á þessum leiðum til gagns fyrir alla aðila, helzt Vestfirðina, norðanvert Vesturlandskjördæmi og Flugfélag Íslands, sem annast þessar framkvæmdir.

Af þessum ástæðum hef ég leyft mér að leggja fram þessa fsp. til hæstv. samgrh., hvort hann geti upplýst, hvenær gerðar verði þær endurbætur á flugvöllunum við Hellissand, Stykkishólm og Búðardal, að Snæfellsnes og Dalir geti tengzt við kerfi reglulegra flugsamgangna innanlands. En til þess að svo geti orðið, verður að stækka þessa flugvelli nokkuð og endurbæta þá allverulega, en undanfarin ár hefur lítið verið við þá unnið.