23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í D-deild Alþingistíðinda. (4522)

204. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans: Það er í sjálfu sér frétt, að væntanleg sé núna innan skamms niðurstaða af starfi þeirrar nefndar, sem sett var til þess að endurskoða lögin um Sementsverksmiðju ríkisins. En hvernig sem niðurstaðan verður af þessu starfi, þá sýnist mér óhjákvæmilegt að gera að umtalsefni vissa þætti í sambandi við þessa nefnd og þá fyrst og fremst það, hvernig til hennar er stofnað, hvernig hún var skipuð. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar tveggja stjórnmálaflokka, og báðir þessir stjórnmálaflokkar eru núv. stjórnarflokkar. Manni hefði nú virzt eðlilegt, þar sem svo mikil og aukin virðing fyrir lýðræði er skyndilega uppi hjá hæstv. ríkisstj., eins og fram kom hér í ræðu hæstv. forsrh. áðan, þar sem hann ræddi um atvinnulýðræði, þá hefði manni fundizt eðlilegt, að þessarar lýðræðisástar hefði einnig gætt við skipan þessarar nefndar og stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu þar einnig átt sína fulltrúa.

Hæstv. ráðh. segist leiða hjá sér fullyrðingar í 1. lið fsp. um það, að óvissan vegna bráðabirgðaástandsins um stjórn Sementsverksmiðjunnar hafi þjakað rekstur hennar og skapað óánægju og óvissu hjá starfsfólki hennar. Ég byggi þetta á þeirri vitneskju, sem ég hef fengið af því að heimsækja Sementsverksmiðjuna öðru hverju og ræða þar við menn, og það er ekki að ástæðulausu, sem ég set þessa aths. í fsp., sannarlega ekki að ástæðulausu.

Svar hæstv. ráðh. við þeim lið fsp., hvort haft hefði verið samráð við starfslið verksmiðjunnar við endurskoðun laganna, það heyrðist mér vera næsta furðulegt. Hann segir ekki annað í þessu sambandi heldur en það, að nm. hafi kynnt sér þarna staðhætti. Þetta var ekki landfræðileg spurning. Þetta var ekki spurning um staðhætti, heldur hitt, hvort rætt hefði verið við þá menn, sem bezt þekkja til hinna daglegu starfa. Og það er sannarlega nauðsynlegt. Og ef einhver einlægur og sannur vilji er á bak við þessa fullyrðingu hæstv. ráðh., að hann vilji fara að auka atvinnulýðræði, þá ætti hann að beita áhrifum sínum og hefði átt að beita áhrifum sínum til þess, að þessi nefnd ræddi við starfslið verksmiðjunnar, þegar hún vann að þessari endurskoðun laganna. En ég get fullyrt það, að þetta var ekki gert, a. m. k. hafði það ekki verið gert eftir því sem þeir af starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar, sem ég ræddi við, sögðu mér, nokkru áður en ég lagði fram þessa fsp. Ekkert samráð hafði þá verið haft við starfslið Sementsverksmiðjunnar.

Mér finnst það nú reyndar þeim mun undarlegra, sem í þessari nefnd á sæti hv. 5. þm. Vesturl., sem nýlega hefur látið í ljós áhuga á atvinnulýðræði, eins og reyndar fleiri eru nú farnir að gera, með því að flytja till. um samstarfsnefnd, sem starfa skuli við Áburðarverksmiðju ríkisins. Mér skilst reyndar, að þessi hv. þm. hafi beitt áhrifum sínum innan nefndarinnar til þess, að slíkt ákvæði verði einnig tekið upp í hin endurskoðuðu lög um Sementsverksmiðjuna. En einlægnina hefði maður talið sannazt enn betur, ef hann hefði beitt sér fyrir því, að nefndin hefði nú þegar, meðan hún var að endurskoða lögin, haft samráð við starfslið verksmiðjunnar.

Að þetta hafi ekki verið bráðabirgðaástand. Sannarlega hefur þetta verið bráðabirgðaástand þarna í verksmiðjunni. Sá framkvæmdastjóri, sem nú starfar, var ráðinn til bráðabirgða. Það er liðið á þriðja ár síðan, og af þessu hafa skapazt margs konar vandræði. En hins vegar sýnist mörgum, — og má í því sambandi vitna til ályktana frá Verkfræðingafélaginu og einnig til ályktana, sem Alþýðuflokksfélag Akraness gerði, — þá sýnist mörgum, að með þessari endurskoðun sé stefnt að þeirri breytingu fyrst og fremst, að hægt sé að halda áfram þessum sama forstjóra eða a. m. k. haga forstjóraráðningu þannig, að það verði ekki verkfræðingur í starfinu, eins og núgildandi lög kveða á um.