16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í D-deild Alþingistíðinda. (4598)

357. mál, stofnlán fiskiskipa

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta það koma fram, að ég tel það mjög miður, að það hefur verið horfið að því ráði að lækka þessi stofnlán, svo sem hér hefur verið gert ráð fyrir. Það er sjálfsagt rétt, að út af fyrir sig er ekki sá verkefnaskortur hjá skipasmíðastöðvum sem var, þegar þessi lán voru ákveðin, og má þess vegna segja, að sú ástæða sé að einhverju leyti niður fallin. Hins vegar held ég, að þó að það væri vitaskuld æskilegt, að þeir, sem í útgerð leggja, væru svo vel efnum búnir, að þeir gætu lagt eigið fé fram, sem nemur 15% eða kannske meira, ef felld væru líka niður þessi lán, sem veitt hafa verið úr Atvinnujöfnunarsjóði, það væri æskilegt, að þeir gætu lagt það fram, en ég held, að því miður verði nú að horfast í augu við þá staðreynd, að margir þeir, sem hafa áhuga á því að leggja í útgerð, margir þeir, sem eru að basla við að eignast skip til atvinnubóta í þorpum víðs vegar um landið, eru ekki svo efnum búnir, að þeir geti lagt þetta fé fram. Ég hygg, að þeim veiti ekki af sömu lánskjörum og verið hafa. Og í þessu sambandi vil ég segja það, að við höfum tveir þm. flutt í hv. Ed. frv. um það, að lán úr Fiskveiðasjóði út á skip, sem byggð eru innanlands, verði 85%. Ég tel það raunar miklu eðlilegra, að útgerðarmenn eða skipabyggjendur geti gengið á einn stað og fengið þessa lánsupphæð í Fiskveiðasjóði, en þurfi ekki að vera að ganga á milli margra aðila í því efni. Og ég held, að það muni ekki veita af því að hafa þetta mark 85%, og það álít ég, að eigi að veita Fiskveiðasjóði. Ef maður kemst að þeirri niðurstöðu, verður auðvitað að gera þær ráðstafanir, sem til þarf, til þess að honum verði kleift að standa undir slíkum lánum. En ég held, að það sé nauðsyn.

Þó að það sé svo í bili, að skipasmíðastöðvarnar hafi næg verkefni og að það hafi verið, ef ég tók rétt eftir, í bréfi stjórnar Fiskveiðasjóðs talað um einhverja eftirspurnarsprengingu, þá held ég, að við verðum að smíða hér skip og leggja allt kapp á að smíða skip, og ég held, að það sé langt frá því, að það sé komið svo fyrir okkur, að við eigum of mikið af skipum. Ég held, að við eigum einmitt að leggja aukna áherzlu á það atriði.

Þetta sjónarmið mitt vildi ég aðeins láta koma fram í sambandi við þetta mál, en að sjálfsögðu er þetta frv., sem ég minntist á, enn til meðferðar í Ed., og ég er náttúrlega alls ekki vonlaus um, að það muni fá góðar undirtektir þar, og vona einnig, að því lánist að komast til Nd., þess vegna ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta mál hér.