16.12.1970
Neðri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

161. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var að sjálfsögðu hlutverk verðlagsyfirvalda að fylgjast með því, að þau áhrif kæmu til framkvæmda, sem tollabreytingin á síðasta þingi hafði. Og það eitt út af fyrir sig, hvort fyrirmæli hafi verið samþykkt um það, að hún skyldi koma til framkvæmda með einhverjum hætti, svo sem hv. fyrirspyrjandi orðaði það, hefði ekki haft ákaflega mikla þýðingu, nema. verðlagsyfirvöld hefðu gert það, sem í þeirra valdi raunverulega stóð, til að sjá til þess, að áhrifin yrðu þau, sem til var stofnað. Þetta held ég, að okkur þurfi ekki að greina á um. Efnislega var það að sjálfsögðu ætlunin, að hún yrði almenningi til góðs í lækkuðu vöruverði, og að því var stefnt. Nú hygg ég, að það sé ákaflega erfitt að svara því, hvort svo sé. Og ég skal taka það fram sem ég býst raunar ekki við, að hv. þm. hafi ætlazt til — að ég hef hér ekki tæmandi skýrslu um það, að hve miklu leyti tollabreytingin hefur komið til framkvæmda. En mér er hins vegar kunnugt um, að í ýmsum tilfellum kom hún greinilega til framkvæmda og í öðrum tilfellum kannske síður. En þetta er mjög erfitt við að fást, vegna þess að þær spurnir, sem ég hafði af þessu — og ég skal taka það fram, að ég spurðist nokkuð fyrir um þetta hjá viðkomandi aðilum — leiddu í ljós, að mjög verulegar verðlagshækkanir höfðu orðið á mörgum vörum, sem leiddu til þess, að þessar tollabreytingar skiluðu sér ekki eins og til hafði staðið og hefði mátt vænta, ef ekki hefði komið til hækkað verðlag á hinum innfluttu vörum. Að öðru leyti, eins og ég sagði, var það að sjálfsögðu hlutverk verðlagsyfirvalda að sjá til þess, að vörur lækkuðu, svo sem eðlilegt var, með hliðsjón af þessari tollabreytingu, sem þarna kom fram. Nú skal það jafnframt tekið fram, að það er ekki endilega víst, að það hafi komið fram lækkun á vörum, þó að tollabreytingin hafi verið heimiluð, vegna þess að hér var aðeins um að ræða tollabreytingar á vörum frá vissum löndum. Og það var að sjálfsögðu ekki hægt að skylda einn né neinn til þess að kaupa þessar vörur. Það eru mismunandi tollar, eins og hv. þm. vita, og þeir voru áfram látnir gilda. Breytingin var ekki nema að sáralitlu leyti á tollum á vörum frá öðrum löndum en EFTA-löndum. En ég get því miður ekki svarað þessari fsp. hv. þm. Hún er vissulega athyglisverð, og það gæti vel verið ástæða til þess, ef það er framkvæmanlegt, að verðlagsyfirvöld láti fara fram sérstaka athugun á því, að hve miklu leyti þessi tollabreyting hafi komið mönnum að gagni í verðlaginu, því að það var vissulega ætlunin, að svo yrði.