16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í D-deild Alþingistíðinda. (4600)

357. mál, stofnlán fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfáar aths. í sambandi við síðari ræðu hæstv. forsrh. Ég vil benda á, að það er mjög óheppilegt, að stofnlán til fiskiskipa séu mjög misjöfn að upphæð til hinna einstöku aðila, sem stofnlána njóta, og það meira að segja á sama byggingartíma, og það er því vægast sagt mjög óheppilegt að hringla til með stofnlánin á þann hátt, sem þarna er verið að gera.

Það atriði, að hér hafi verið einhver vandi á höndum með það að útvega nægilegt fjármagn til þessara lána, tel ég ákaflega lítilvægt. Hér gæti verið um það að ræða að útvega 25–30 millj. kr. til viðbótar. Ríkisstj. hafði útvegað 20 millj. kr. til þess að geta haldið áfram 5% viðbótarlánunum. Það er kannske aðeins of lágt. Hér var aðeins um það að ræða að útvega 25–30 millj. kr. til viðbótar, og það þarf auðvitað enginn maður að halda því fram, að það hafi verið neitt vandamál fyrir ríkisstj. að útvega þá fjárhæð í þessu skyni.

Það er vitanlega líka alveg út í hött, þegar því er haldið fram, að m. a. vegna góðrar afkomu hjá útgerðinni í landinu og hækkandi fiskverðs nú í ársbyrjun sé hægt að minnka þessi stofnlán. Því fer víðs fjarri, að afkoman hjá útgerðinni sé þannig, að þess sé að vænta, að hún leggi þannig fjárhæð upp, að hún geti lagt meira fram en hún hefur gert. Það er alveg ábyggilega víst.

Ég skildi hæstv. forsrh. þannig, að það væru allar líkur til þess, að að því væri stefnt að lækka þessi 10% viðbótarlán í áföngum, nú fyrst um 5%, og síðar ætti maður von á því, að síðari 5% af viðbótarlánunum ættu að hverfa einnig. Ég tel þetta mjög miður farið, og ég trúi því varla, að það verði stætt á þessu. Það er enginn vafi á því, að við stöndum frammi fyrir mikilli endurnýjunarþörf í okkar fiskiskipaflota, og það er ekki tími nú til þess að draga úr þessum stofnlánum. Og þó að skipasmíðastöðvarnar hafi sumar hverjar nægileg verkefni nú, þá fer því líka fjarri, að þær hafi allar samið langt fram í tímann, og það hefði því ábyggilega verið þörf á því einnig fyrir þær, að þessi lán til innanlandsbyggingar yrðu eins há og þau hafa verið, því að þessi ungi iðnaður, skipabyggingarnar hér innanlands, er ekki þannig á vegi staddur, að hann þoli mikinn mótblástur. Ég undirstrika því það, sem ég sagði hér áður, að ég tel, að það sé illa farið, að þetta skuli vera gert, og hefði talið miklu eðlilegra, að ríkisstj. athugaði þetta mál betur, áður en hún fer að framkvæma þessa lækkun í reynd.