16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í D-deild Alþingistíðinda. (4606)

359. mál, starfsmannaráðningar á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir, þá er í upphafi 5. gr. laga nr. 38 frá 1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tekið fram, að lausar stöður skuli auglýstar í Lögbirtingablaði, venjulega með fjögurra vikna fyrirvara. Hins vegar, eins og hann líka sagði, hljóðar niðurlag greinarinnar á þessa leið:

„Ákvæði þessarar greinar taka ekki til starfa í þágu utanríkisþjónustunnar.“

Á þessu er allverulegur munur, hvort það er í starfi „hjá utanríkisþjónustunni“ eða „í þágu utanríkisþjónustunnar“. Um það hefur aldrei ríkt neinn ágreiningur, að störf í sjálfri utanríkisþjónustunni þurfi ekki að auglýsa, enda er það sjaldnast gert, sökum þess að þar koma til greina ýmis sjónarmið, sem ekki gilda um önnur opinber störf. En auk þeirra starfa, sem ég hef nú nefnt, heyra opinber störf á Keflavíkurflugvelli undir utanríkisþjónustuna, þ. e. undir utanrrh. Gilda þar að nokkru leyti sömu sjónarmið um val manna í þau eins og að framan getur, en þó hafa lausar stöður þar oftast verið auglýstar, eins og nánar verður vikið að síðar. Það er annað, að þær séu auglýstar, en að það sé skylda að auglýsa þær. Við höfum í rn. gengið út frá því, að það væri ekki skuldbindandi fyrir utanrrn. að auglýsa þessar stöður, þar sem segir í greininni, að hér sé átt við störf í þágu utanrrn. Þetta byggist á orðalagi greinarinnar, þar sem talað er um störf í þágu utanríkisþjónustunnar, og er því víðtækara en ef orðalagið er einskorðað við störf í utanríkisþjónustunni eða því um líkt. Hefur þetta valfrelsi utanrrh. ekki verið vefengt fram að þessu, það hlýtur að vera ákveðin meining með hinu viðtækara orðalagi. Getur það þá ekki átt við önnur störf en þau, sem utanrrh. hefur yfir að ráða á Keflavíkurflugvelli og vissulega varða meira eða minna samskipti við útlendinga. Þetta er mitt svar við 1. fsp.

Önnur fsp. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Hvað hafa margir lögregluþjónar verið ráðnir til starfa á Keflavíkurflugvelli síðasta áratug, og hve margar af þeim stöðum hafa verið auglýstar til umsóknar?“

Þessu get ég svarað þannig, að alls hafa verið ráðnir átta lögregluþjónar og tvær lögreglukonur á þessu tímabili, og hafa þær stöður allar verið auglýstar. Fjöldi tollþjóna og yfirmanna í tollgæzlu, sem ráðnir hafa verið á tímabilinu, eru samtals 10 manns. Staða við tollgæzluna hefur ekki verið auglýst síðan 1959. Fimm af þessum 10 mönnum, sem að framan getur, voru í öðrum störfum hjá því opinbera, er þeir hófu störf við tollgæzluna. Fjórir þessara manna störfuðu hjá flugvallarstjórninni í Keflavík og voru fluttir til, þegar Loftleiðir tóku við flugumsjón þar. Einn var áður lögregluvarðstjóri og síðar ráðningastjóri og er nú deildarstjóri í tollgæzlu. Af þeim, sem ekki störfuðu áður hjá því opinbera, eru tveir, sem ætíð hafa starfað í tollfrjálsri forðageymslu Loftleiða á flugvellinum, en hinir hófu starf sem sumarafleysingamenn, en vegna aukinnar flugumferðar og flugfragtar fengu þeir að halda störfum sínum áfram.

Þetta var um 3. lið. 4. liður er svo hljóðandi:

„Hvað margir fríhafnarstarfsmenn hafa hafið störf á sama tímabili, og hve mörg þeirra starfa hafa verið auglýst?“

Svarið við þessu er svo hljóðandi: 10 manns hafa verið ráðnir hjá fríhöfninni á tímabilinu. Voru sex stöður auglýstar, þ. e. allar stöður yfirmanna. Stöður afgreiðslumanna hafa ekki verið auglýstar, en í þær stöður hafa verið ráðnir menn, sem allir höfðu gegnt störfum sumarafleysingamanna eitt eða fleiri sumur, en síðan fengið að starfa áfram vegna aukinna verkefna í nokkur ár, þar til þeir að lokum voru ráðnir vegna starfsreynslu þeirrar, er þeir höfðu öðlazt.

Ég vil í fyrsta lagi undirstrika það, að ég tel, að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gefi utanrrn. heimild til þess að haga framkvæmd ráðninganna á þann veg, sem ég nú hef lýst, þannig að rn. sé í sjálfsvald sett, hvort um auglýsingu verður að ræða eða ekki. Þó að þetta sé sett í sjálfsvald rn., þá hefur meginhlutinn af þessum störfum verið auglýstur í blöðum, en hins vegar hafa starfsmenn, sem hafa verið lausráðnir til þess að byrja með, t. d. menn, sem hafa leyst af í sumarleyfum, og raunar aðrir, verið fastráðnir í störf, þegar þeir pössuðu inn í starfið, þ. e. voru búnir að æfast í þeim störfum, sem ráða þurfti í.

Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi telji, að spurningunum sé svarað með þessum orðum.