23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í D-deild Alþingistíðinda. (4613)

239. mál, hreinsitæki í Áburðarverksmiðjunni

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og fyrir jákvæðar undirtektir við þá afstöðu, sem ég lýsti hér í ræðu minni áðan. Hann fann að því, að ég hefði verið svo hófsamlegur að tala aðeins um ráðstafanir til þess að takmarka mengun, en ekki útiloka hana með öllu. Ég gerði þetta nú vitandi vits. Ég hygg, að það muni verða mjög erfitt að útiloka mengun að öllu leyti, jafnvel þótt hægt sé að útiloka hin eitruðustu efni, sem þarna eru. Það voru ekki heldur mín orð, sem hæstv. ráðh. vitnaði til, þegar talað var um kæruleysi. Ég vitnaði þar í ummæli Harðar Þormar efnafræðings.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að það er ekki nema nýtilkomið, það er ekki fyrr en núna seinustu árin, sem menn gera sér grein fyrir þeim háska, sem getur stafað af útblæstri eða reykefnum frá verksmiðjum af þessu tagi og af þessu geti stafað háski fyrir umhverfið. Og ég er ekki að bera það á hæstv. ráðh. að hann hafi sýnt neitt kæruleysi sjálfur í þessu efni, en ég var að vitna í orð þess sérfræðings, sem taldi, að þessi háttur væri kæruleysi.

Það er mjög gott, að verið sé að framkvæma rannsókn á þessu efni, og sjálfsagt, að því verði haldið áfram. En ég vil benda á, að það kom fram hjá Herði Þormar, að mengunarmagnið frá Áburðarverksmiðjunni sé nú þegar fyrir ofan þau mörk, sem heimil eru í nágrannalöndum okkar. Og ég held, að við þurfum ekki að standa í neinum grundvallarrannsóknum hvað atriði af þessu tagi snertir. Við eigum að geta lært af reynslu annarra og tekið upp þær varúðarráðstafanir, sem eru orðnar almenn regla í öðrum löndum. Og það á raunar að vera þeim mun sjálfsagðara, að þetta sé gert nú þegar, vegna þess að verið er að endurskipuleggja verksmiðjuna og endurnýja allan tækjakost hennar. Það er miklu auðveldara að koma við hreinsitækjum í sambandi við slíka breytingu en að koma henni í samband einhvern tíma síðar. Og þess vegna vil ég leggja á það áherzlu við hæstv. ráðh., að þetta atriði verði tekið til ákvörðunar einmitt í sambandi við þessa endurskoðun á vélakosti og framleiðsluháttum Áburðarverksmiðjunnar.