23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í D-deild Alþingistíðinda. (4634)

361. mál, læknadeild háskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ef ég hefði vitað, að hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, mundi bera þessa fsp. fram, þá hefði mér verið innan handar að svara henni miklu ítarlegar en ég treysti mér til að gera alveg óundirbúið, og skýringin á því er sú, að á skrifborðinu í menntmrn. liggur mjög ítarleg skýrsla frá landlækni, sem er formaður skólanefndar Hjúkrunarskólans, um þetta vandamál allt, og ég treysti mér ekki til þess að endursegja efni hennar án þess að hafa hana fyrir framan mig, en í henni er fjallað um þetta vandamál, sem vissulega er mjög alvarlegt og krefst sérstakra ráðstafana. En á þessu stigi held ég, að rétt sé, að ég segi alveg hreinskilnislega, í hverju sá vandi, sem þarna er um að ræða, er fólginn að mínu viti, — og skal þar engan annan gera ábyrgan fyrir þeim orðum mínum, — en hann er persónulegs eðlis, hann lýtur að stjórnunarvandamálum í Hjúkrunarskólanum, og slík vandamál eru ekki auðveldari úrlausnar en t. d. fjárhagsmál eða byggingarmál, nema það öfuga eigi sér stað. Ég sé enga ástæðu til þess að láta umr. fara fram um þetta mál hér á hinu háa Alþingi fund eftir fund og á öðrum vettvangi án þess að segja sannleikann um málið, og hann er þessi. En að því mun verða unnið af velvilja að fá lausn á því máli. Sú lausn getur ekki komið til framkvæmda, hver svo sem hún kann að verða, — ég hef enga lausn á málinu fundið enn og finn hana að sjálfsögðu ekki nema að undangengnum mjög ítarlegum umræðum í stjórnarnefnd Hjúkrunarskólans, við skólastjóra hans og kennara, ekki sízt kennara skólans, en kennaraskorturinn er það, sem fyrst og fremst hefur háð honum að undanförnu, nú á þessum vetri, en ekki húsnæðisskortur eða fjárveitingar. En þær viðræður mun ég leggja mig fram um að eiga strax og þingmönnum lýkur. Ég geri mér grein fyrir því, að málið mun taka mikinn tíma og mun verða mjög torleyst, en ég og mínir embættismenn ásamt stjórnarnefndinni munum gera það, sem í okkar valdi stendur, til þess að finna farsæla lausn á því stjórnunarvandamáli, sem hér er um að ræða og er meginorsök þess, að Hjúkrunarskólinn er ekki fullskipaður.