30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í D-deild Alþingistíðinda. (4649)

358. mál, samgöngur við Austurland

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fsp. fyrir hæstv. samgrh. á þessa leið:

„Hvað hefur ríkisstj. hugsað sér að gera til þess að tryggja Austfirðingum sambærilega aðstöðu við aðra landsmenn um vöruflutninga erlendis frá?

Vill ríkisstj. beita sér fyrir því, að komið verði upp einni eða fleiri umskipunarhöfnum á Austfjörðum?“ Síðan þessi fsp. var lögð fram, hefur það gerzt, að tilkynnt hefur verið, að Eimskipafélag Íslands hafi fallizt á það að gera eina höfn á Austurlandi sambærilega við þær hafnir í öðrum landsfjórðungum, sem ákveðnar hafa verið sem innflutningshafnir. Vissulega er það spor í rétta átt, en því fer vitanlega víðs fjarri, að það sé nóg til þess að koma þessum málum á Austurlandi í sæmilegt horf. Ég vænti, að hæstv. samgrh. svari þessum spurningum mínum, svo að það liggi ljóst fyrir, hvað ríkisstj. getur hugsað sér að gera í þessum málum.