30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í D-deild Alþingistíðinda. (4659)

363. mál, Fræðslumyndasafn ríkisins

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Það kemur fram af þeim, að honum er kunnugt um það, að Fræðslumyndasafn ríkisins á og sendir til notkunar í skólum a. m. k. 13 kvikmyndir, sem eru útbúnar af hernaðarbandalagi. Þær eru ætlaðar til notkunar við venjulega landafræðikennslu, og mér er kunnugt um það, að í þessum skóla höfðu þeir kennarar, sem þessar kvikmyndir ætluðu að nota, enga hugmynd um uppruna þeirra. Öskjurnar, sem utan um þessar kvikmyndir voru, báru það á engan hátt með sér, hvaðan þær voru upprunnar, hverjir hefðu búið þær til eða hvers eðlis þær voru. Og mér finnst það algjört hneyksli, að slíkum myndum sé lætt innan um venjulegar fræðslumyndir, myndum, sem eru áróðursmyndir fyrir ákveðið og tiltekið hernaðarbandalag. Áróðurinn í þessum myndum er fólginn í því, að fá börn, skólaunglinga, til þess að líta á hernaðarbrölt og morðtóladýrkun hernaðarbandalags eins og NATO sem nauðsynlegt og sjálfsagt fyrirbæri og síðan í beinu framhaldi af því, að nauðsynlegt sé og sjálfsagt, að Íslendingar séu aðilar að bandalaginu. En um aðild Íslands hafa staðið meiri deilur hér á Íslandi en um flest annað, og því fer mjög fjarri, að því verði haldið fram með gildum rökum, að svo mikið sem einfaldur meiri hluti þjóðarinnar styðji aðild Íslands að hernaðarbandalaginu. Það er því ósvífni og fáheyrt hneyksli, að stofnun sem Fræðslumyndasafnið, sem á að sjá skólum fyrir hlutlausri fræðslu, skuli taka við áróðurskvikmyndum útbúnum af hernaðarbandalaginu sjálfu til þess að læða innan um venjulegar fræðslumyndir, sem skólum eru sendar. Og þegar hæstv. ráðh. hefur nú upplýst, að þetta á sér stað og staðfest það, þá tel ég, að hæstv. Alþ. eigi rétt á því, að hann taki í taumana og sjái til þess, að tekið verði fyrir þennan hluta af starfsemi Fræðslumyndasafnsins í þágu hernaðarbandalags, en þörf væri hins vegar á því, að Fræðslumyndasafnið gæti sinnt betur því hlutverki sínu að sjá íslenzkum skólum fyrir eðlilegum fræðslumyndum og gæti útbúið þær myndir a. m. k. til jafns við þær, sem nú hafa verið sýndar frá NATO, þ. e. að þær væru með íslenzku tali og texta, en að það viðgangist ekki lengur, að einu myndirnar, sem sýndar eru með íslenzku tali og texta, séu frá hernaðarbandalagi.