09.11.1970
Neðri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

101. mál, atvinnuöryggi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er mitt fyrir hönd ríkisstj. að fylgja úr hlaði frv. þessu til l. um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis, sem nú er á dagskrá. Blöð stjórnarandstöðunnar yfir helgina gefa ekki til kynna, að stjórnarandstaðan komi til móts við okkur í tilraunum til lausnar vanda almennings. Þó vil ég ekki að óreyndu hér í þingsölum útiloka þann möguleika, að stjórnarandstaðan styðji þjóðþrifamál svipað og gerzt hefur í nágrannalöndum okkar. Væri það til of mikils mælzt, að metnar væru að nokkru í þingsölum heiðarlegar og einlægar tilraunir til lagfæringar á kerfi, sem allir viðurkenna í viðtölum manna í milli, að óviðunandi sé? Sjálfir forkólfar stjórnarandstöðunnar hafa í sjónvarpi og hljóðvarpi kallað á aðgerðir ríkisstj. og Alþ. Þeir fundu lausnarorðið, verðstöðvun. „Hví kemur ekki verðstöðvun?“ var feimnislaust spurt. Verðstöðvun er komin, en fleira þurfti til.

Ég mun fyrst í stað rekja forsögu þessa máls nokkuð, síðan aðdraganda þess og afstöðu ríkisstj. Ég minni á hin miklu erfiðleikaár, 1967 og 1968, þegar tekjur af útflutningi þjóðarinnar minnkuðu fast að helmingi. Þá hefði orðið alvarlega þröngt í búi hjá mörgum, ef viðreisnarárin hefðu ekki áður verið búin að skila geysilegri eignaaukningu í vélum og tækjum, skipum og búnaði í hvers konar mynd og gjaldeyrisvarasjóði, sem þá var upp á 3000 millj. kr. Á þessari miklu eignamyndun og gjaldeyrissjóði lifði þjóðin áföllin með miklu minni erfiðleikum en ella. Gjaldeyrisforði okkar var hins vegar þrotinn síðari hluta árs 1968. Síðan fóru að segja til sín margháttaðar ráðstafanir stjórnvalda samfara batnandi árferði og viðskiptakjörum.

Árin 1969 og 1970 hafa reynzt hagstæð, og speglast það í nýjum gjaldeyrisforða og aukinni sparifjármyndun m. a. Réttilega var það látið uppi á öndverðu ári 1970, að launþegum bæri bættur hlutur úr þjóðarbúi. Það ber að viðurkenna afdráttarlaust og láta ekki fyrnast, að samtök launþega, heildarsamtök eins og Alþýðusamband Íslands, höfðu sýnt fyllsta skilning á erfiðum tímum með hófsemi í kröfum, vilja til samstarfs gegn atvinnuleysi og tillögugerð að öðru leyti.

Nú blasti sá vandi við í vor, hvert skyldi þá vera hlutskipti launþega í auknum afrakstri. Um það var að lokum samið milli aðila vinnumarkaðarins, án þess að tillögugerð ríkisins þætti umtalsverð. Ég minni á þetta, þar sem ríkisstj. hafði engin afskipti af þessum samningum önnur en þau að benda á þann möguleika, að hóflegar kauphækkanir samfara nokkurri hækkun á gengi íslenzku krónunnar kynnu að reynast affarasælastar fyrir alla aðila og viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskap. Nú fór sem fór, og hef ég hvorki fyrr né síðar talið það mitt hlutverk að fella dóm um samningagerðir, sem urðu að verkföllum loknum. En má ég spyrja: Datt nokkrum einasta manni í hug, konu eða karli, sem að þessum samningagerðum stóðu, að þær mundu ekki leiða til verulegra verðhækkana og vaxandi verðbólgu? Var ekki eitt megininntak þeirra, að víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds skyldu gilda sjálfkrafa? Ég viðurkenni að kauphækkanir hinna lægst launuðu ber öllum að reyna að varðveita. Að því hefur viðleitni mín og ríkisstj. í heild stefnt í stjórnaraðgerðum. Það er mistúlkun, að í frv. ríkisstj. felist ögrun við láglaunafólkið. Ég veit, að formaður Dagsbrúnar, hv. 2. landsk. þm., skilur þetta öðrum betur, en ég áfellist hann ekki fyrir það, sem blöð eins og Þjóðviljinn hafa eftir honum haft, ég veit ekki einu sinni, hvort rétt er eftir haft, — en báðir vitum við, að þegar formaður Dagsbrúnar vill réttilega bæta hag láglaunafólksins, þá á hann ekki um það í glímu við mig eða mína líka. Hann situr sjálfur í stjórn Alþýðusambands Íslands með þeim fulltrúum annarra faglærðra launastétta, sem í þessari baráttu hans, sem ég vil, að skili meiri árangri, eru honum þyngstir í skauti.

Nú spyr ég enn: Hefur öllum kauphækkunum verið velt inn í verðlagið, eins og svo margir hafa staðhæft, og látum þá liggja á milli hluta, hvort það sé ríkisstj. að kenna eða ekki? Hvernig velta útflutningsatvinnuvegirnir kaupgjaldshækkunum út í verðlag á Íslandi? „Nei,“ segja allir, „þeir gera það ekki og geta það ekki.“ En er ekki þarna undirstaðan, sem allt hvílir á? Hverju veltir hinn nýi útflutningsiðnaður á Íslandi inn í verðhækkanir hér, þótt gífurlegar kauphækkanir dynji á honum? Og enn spyr ég: Er ekki framleiðsla hins veika, en vaxandi iðnaðar fyrir innlendan markað undir nægjanlegu sterku verðlagseftirliti og að öðru leyti ströngum aga? Ef einhver þm. segir „nei“, þá á hann að koma hér í ræðustól og gefa sig fram.

Ríkisstj. uggði að hverju stefndi eftir nýju kjarasamningana í vor. Hinn 1. júlí ritaði hún aðilum vinnumarkaðarins það bréf til samráðs um ráðstafanir til mótspyrnu, sem vitnað er til í grg. þessa frv., svo sem alkunnugt er. Aldrei var það í huga neins okkar, að upp yrði staðið með samningagerð, sem innsigla mætti með hátíðlegum tilburðum. Við skulum bara segja það í sem einföldustum orðum: Við töldum allir, að það gæti ekki skaðað að talast við. Það töldu fulltrúar bænda einnig og óskuðu að fá að vera með, og þeir urðu með. Nú er það oft svo, að þegar til slíkra viðræðna er stofnað, þá kunna þær að enda með ósköpum. Þá á ég við, að menn fari að brigzla hver öðrum um, að slíkir eftirleikar eigi sér stað. Ég tel, að við stöndum allir upp sáttir hver við annan að þessu leyti. Ég leyfi mér fyrir hönd ríkisstj. að þakka öllum aðilum þeirra viðræðna, sem ég hef nú vísað til, fyrir sanngirni og hófsemi í hvívetna, og a.m. k. fyrir mig voru þetta mjög lærdómsríkar viðræður. Þar segi ég ekki, að nokkur sé bundinn af einu eða öðru, sem innan vébanda slíkra viðræðna kann að felast eða teljast. Ég vil láta í ljós ósk um, að ríkisstj. megi njóta þess síðar að eiga viðræður við aðila vinnumarkaðarins, þ. e. Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands, um þann síðari þátt viðræðuefnis bréfs ríkisstj. frá 1. júlí, er sneri að nýjum leikreglum við gerð kjarasamninga, sem ekki hefur enn gefizt tóm til að ræða.

Um verðhækkanir í sumar og síðar vil ég segja þetta: Engar breytingar voru gerðar á ströngum verðlagshömlum, er giltu á vöruflokkum og þjónustu, sem ákvarðanir verðlagsnefndar náðu til. Hækkanir á verzlunarálagningu, sem samþykktar voru í júnílok, gerðu aðeins ráð fyrir beinni hækkun verzlunarkostnaðar, sem leiddi af kjarasamningum við verzlunarfólk. Hámarksverð eða hámarksálagning gilti um allflestar vörutegundir, sem verðlagsnefnd hefur vald til að fjalla um. Helzta undanþágan frá þessu er varðandi innlendar iðnaðarvörur, sem seldar eru í samkeppni við innfluttar iðnaðarvörur. Verðlagsnefnd hafði ákveðið með samhljóða atkv. snemma árs 1968, að verðlagning þeirra vara hjá framleiðendum skyldi undanþegin verðlagsákvæðum. En hins vegar skyldu þær áfram vera háðar hámarksákvæðum í smásölu, og skyldu framleiðendur tilkynna verðlagsskrifstofunni allar verðbreytingar. Sérstaklega var hlutazt til um, að hækkun kaupgjalds samkv. vísitölu hinn 1. sept., 4.2%, kæmi hvergi fram í leyfðar verðhækkanir. Að öðru leyti var legið á umbeðnum verðhækkunum í okt. og þær að lokum allar eða flestar takmarkaðar, en sumum hafnað. Að öðru leyti tel ég rétt, að sú n., sem fær mál þetta til meðferðar, kynni sér hjá verðlagsnefnd og öðrum aðilum aðdraganda verðstöðvunar og annarra ráðstafana í því sambandi nú.

Vegna till. hv. 6. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar, og annarra þeirra, sem enn dingla aftan í honum, um kosningu rannsóknarnefndar til þess að finna út úr því, hvort rétt væri að stefna mér fyrir landsdóm eða ákæra mig samkv. l. um ráðherraábyrgð vegna ummæla í sjónvarpsviðtali um væntanlega verðstöðvun, hef ég þetta eitt að segja, en þessi sýndarmennska í tillöguflutningi tengist þessu máli: Í l. um landsdóm, nr. 3 19. febr. 1963, segir svo í 1. gr.:

„Landsdómur fer með og dæmir mál, þegar Alþ. ákveður að höfða mál gegn ráðh. út af embættisrekstri þeirra.“

Síðan segir í 13. gr. — „Ákvörðun Alþ. um málshöfðun gegn ráðh. skal gerð með þál. í Sþ., og skulu kæruatriði nákvæmlega tiltekin í þáltill., enda sé sókn málsins bundin við þau.“

Hér er skýrt á kveðið og engin tvímæli. Ef þessir herrar, sem flytja umgetnar þáltill. í Nd., telja mig sekan sem ráðh. vegna ummæla í sjónvarpi, þá eiga þeir l. samkv. að flytja þáltill. um málshöfðun í Sþ. og tiltaka kæruatriði nákvæmlega, eins og þar segir. Yrði þá tekin afstaða til slíkrar till. um ákæru á þinglegan hátt. Að öðrum kosti tel ég ekki mark á þessum hv. þm. takandi í slíku máli.

Á undanförnum áratugum hefur hvað eftir annað orðið að grípa til hliðstæðra ráðstafana og nú til þess að stöðva örar verðhækkanir og tryggja atvinnuöryggi. Því hefur þá verið haldið fram, og svo mun sjálfsagt enn verða gert að þessu sinni, að með slíkum ráðstöfunum sé verið að leggja byrðar á þjóðina, og deilur hafa spunnizt um það, hvort þeim byrðum sé réttlátlega skipt milli þjóðfélagsþegnanna. Þetta er þó hið mesta öfugmæli. Með þessum ráðstöfunum er ekki verið að leggja byrðar á þjóðina, heldur er þvert á móti verið að koma í veg fyrir, að hún þurfi að bera þær byrðar, sem minnkandi framleiðsla og samdráttur atvinnu að öðrum kosti mundi leggja henni á herðar. Framkvæmd þessara ráðstafana mun stuðla að því, að raunverulegar tekjur og neyzla allra þjóðfélagsþegna verði meiri á árinu 1971 en á árinu 1970. Á hinn bóginn má til sanns vegs færa, að með ráðstöfunum sem þessum sé verið að lækka tekjur einstakra aðila og ráðstöfun þeirra tekna til neyzlu og fjárfestingar frá því, sem þessir sömu aðilar höfðu gert sér í hugarlund. Þegar þjóðartekjur fara vaxandi, einkum ört vaxandi, eins og verið hefur að undanförnu, ætlar hver og einn sér mikinn hlut þeirrar aukningar. Launþegar vilja bæta kjör sín fljótt, atvinnurekendur vilja styrkja fjárhag fyrirtækja sinna og ráðast í nýjar framkvæmdir til atvinnuuppbyggingar, og það opinbera, Alþ., rn. og sveitarstjórnir vilja auka mikilvæga þjónustu, sem veitt er almenningi og atvinnulífi. En hver og einn þessara aðila ætlar sér of mikið með tilliti til fyrirætlana hinna. Vöxtur þjóðarframleiðslu og breytingar verðlags útflutningsafurða setja þau mörk, sem ekki verða yfirstigin. Dæmið getur ekki gengið upp, nema til komi samræming á fyrirætlunum allra þessara aðila og til þessarar samræmingar verður hver og einn þeirra að leggja sinn skerf.

Reynsla bæði hér á landi og erlendis sýnir glögglega, að samræming af þessu tagi næst ekki nema fyrir atbeina ríkisvaldsins. Auk þeirra tækja á sviði fjármála og peningamála, sem ríkisvaldið hefur yfir að ráða, getur það orðið óhjákvæmilegt að beita beinum afskiptum af verðlags- og kaupgjaldsmálum um lengri eða skemmri tíma. Bregðist ríkisvaldið forustuhlutverki sínu, þegar þannig stendur á, verður afleiðingin minni hagvöxtur og lakari lífskjör en ella hefði verið kleift að ná og jafnvel, þegar verst gegnir, kreppa og atvinnuleysi. Miklu skiptir við slíkar aðstæður, að almennur skilningur ríki á þeim vanda, sem við er að glíma, og hófsemi og réttsýni gæti af hálfu ríkisvaldsins við ákvörðun þeirra aðgerða, sem nauðsynlegar reynast.

Að þessu hefur ríkisstj. stefnt í þetta sinn, eins og hún hefur áður gert, þegar staðið er frammi fyrir svipuðum vanda. Mikil áherzla hefur verið lögð á það að kynna fulltrúum launþega, atvinnuveitenda og bænda þróun og horfur efnahagsmála. Í þeim viðræðum, sem farið hafa fram á milli ríkisstj. og annarra aðila að undanförnu, hafa þeir fengið í hendur allar þær upplýsingar um þessi mál, sem ríkisstj. hafði yfir að ráða. Á hinn bóginn hefur ríkisstj. ekki ætlazt til, að þessir aðilar tækju á sig þá ábyrgð á lausn vandamálanna, sem aðeins Alþ. og ríkisstj. geta borið, þegar allt kemur til alls.

Ríkisstj. hefur í undirbúningi þeirra ráðstafana, sem hér eru lagðar fram, stefnt að því, að sérhver þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, legði sinn skerf til lausnar vandans. Skerfur atvinnurekenda er 1.5% launaskattur, sem þeir verða að taka á sig án þess að hækka verð á framleiðslu sinni eða þjónustu. Verður tekjum af þessum skatti varið til að greiða niður verðlag sem svarar 2%-stigum í vísitölunni. Til viðbótar kemur, að fyrirtæki hafa ekki fengið og munu ekki fá að hækka verðlag vegna þeirra launahækkana, er áttu sér stað 1. sept. s. l. Skerfur launþega er frestur á greiðslu 2% launauppbóta, samkv. vísitölu, frá 1. des. 1970 til 1. sept. 1971. Launþegar munu eins og allir hagnast á því, að verðlag hækki ekki frekar. Eins og vísitölukerfið er nú, fá launþegar aldrei fullar bætur í miklum verðbólguvexti. Áætlað hefur verið, eins og fram kemur í grg., að hið svokallaða tafatap launþegans, þegar vísitalan er reiknuð á þriggja mánaða fresti, mundi nema svipuðu og þeim 2% launauppbótum, sem lagt er til að fresta. Um þátt bænda vísast til grg. á bls. 8, en hann er vissulega verulegur. Skerfur ríkissjóðs er um 340 millj. kr., sem ella hefði verið unnt að ráðstafa til annarra þarfa, en nú er honum ráðstafað til aukningar fjölskyldubóta og lækkunar verðlags, sem samtals nemur um 2%-stigum vísitölunnar. Loks koma svo tekjur af hækkun á verði áfengis og tóbaks, sem nægja munu til þess að greiða niður rúmlega 1%-stig í vísitölunni.

Það er skoðun ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, að hér sé eins vægilega í sakirnar farið og frekast sé kostur. Samt sem áður megi á þennan hátt ná þeim megintilgangi að stöðva frekari verðbólgu og tryggja atvinnuöryggi í landinu. Skal nú vikið að atvinnuörygginu, sem í ráðstöfunum samkv. frv. felast.

Almennt verður að telja ljóst og óumdeilanlegt, að stöðugt verðlag samfara stöðugu kaupgjaldi sé atvinnulífinu til styrktar. En blómlegt atvinnulíf með vaxandi eftirspurn vinnuafls er að sjálfsögðu hagsmunamál launþega ekki síður en atvinnurekenda, hvort sem þeir eru einstaklingar, félög eða opinberir aðilar. Það er ekki óskynsamlegt að gera þessi sjónarmið lífrænni með vitnun í tiltekin atriði. Íslendingar þurfa að endurnýja togaraflota sinn með smíði nýtízku skuttogara um 1000 tonn eða þar yfir. Verið er að byggja skuttogara fyrir Íslendinga í Póllandi og á Spáni. Síðustu samningar við Spánverja eru á föstu verði. Ríkisstj. vildi stuðla að smíði tveggja stórra skuttogara á Akureyri. Kaupendur ráða ekki við verðmismun, eins og er, sérstaklega vegna þess, að innlendur kostnaður, sem er um 40%, er háður verðbreytingum launa m. a. Við erum að glíma við þennan vanda. Við viljum, að innlenda skipasmíðin fái sitt tækifæri. Full nýting aðstöðunnar í Slippstöðinni á Akureyri gæti falið í sér beinlínis vinnu fyrir um 500 manns auk hliðarverkana. Þessi atvinnugrein á Norðurlandi verður að ná fótfestu. Ráðstafanir samkv. þessu frv. stuðla að því. Hinn nýi skipasmíðaiðnaður á Íslandi er allur í sjálfheldu, ef verðbólgan leikur lausum hala.

Útflutningsiðnaðurinn er í nýsköpun. Sett voru á s. l. þingi lög um útflutningslán, samkeppnislán til styrktar iðnaði. Iðnþróunarsjóðurinn er þegar tekinn að veita nýju lífi í íslenzkan iðnað: Ný keramikverksmiðja í stórum stíl er í uppsiglingu, stækkun veiðarfæragerðar í framkvæmd. Efling nýs fiskiðnaðar er fram undan, stórkostleg virkjunaráform á prjónunum með hugsanlegri stóriðju og nýjum efnaiðnaði í kjölfarið. Þungavatnsframleiðsla, þaravinnsla, perlusteinsvinnsla, sjóefnavinnsla og olíuhreinsun, tengd öðrum efnaiðnaði, eru einnig dagskrármál okkar, enda þótt rannsóknir á framkvæmd taki tíma og margt sé í óvissu. Ný tækniþróun, stálbræðsla, málmvinnsla og margt fleira af sama tagi er á næsta leiti. Í margþættri iðnaðarþróun, smárri og stórri, er atvinnuöryggi framtíðar fólgið. Jafnvægi og stöðugleiki í verðlagi eru undirstöður, sem tryggja framtíð. Með ráðstöfunum þessa frv. er frá engum tekið, þegar á reynir. Þær eiga og munu stuðla að bættum hag og meira öryggi í framtíðinni.

Ég get búizt við því, að einhver kynni að spyrja: „Hvað tekur við eftir gildistíma frv., ef að lögum verður?“ Danir hafa ákveðið verðstöðvun hjá sér til 1. marz 1971. Á fundi með forsrh. Norðurlanda fyrir skömmu spurði ég forsrh. Dana, hvað við tæki hjá þeim. Hann horfði á mig spyrjandi augnaráði. Mér er ljóst, að ég get ekki heldur svarað nema að vissu leyti. Þó eru nokkur atriði, sem ég vildi nefna:

Við verðum reynslunni ríkari, aðgerðarleysi mundi leiða í strand. Árferði og viðskiptakjör á næsta ári segja til um aðgerðir þá. Hér er ekki um kosningaaðgerðir að ræða, því að án kosninga væru þær jafnnauðsynlegar. Síðari þáttur bréfs ríkisstj. um nýjar leikreglur í gerð kjarasamninga hafa þá væntanlega á næsta ári verið teknar til meðferðar og úrlausnar. Nýir kjarasamningar mundu þá taka við í ljósi þessara staðreynda.

Ég vil vekja athygli á því, að eftir verðstöðvun hér í árslok 1966 komu áfallaárin 1967 og 1968. Ef við megum vænta okkur betra hlutskiptis en þá, er augljóst, að hverjum sem er, launþegum, atvinnurekendum, ríkisstj., — hver sem hún kynni að vera á næsta ári, — og Alþ. er búin betri staða haustið 1971 til þess að bregðast við vandamálum, sem þá kunna að steðja að, eftir gildistíma löggjafar, sem hér er óskað eftir, en án hennar.

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.