09.11.1970
Neðri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

101. mál, atvinnuöryggi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér sýnist frv. það, sem hér er nú til umr. um stöðugt verðlag, eins og það heitir að þessu sinni, bera augljóst vitni um úrræðaleysi og fálm hæstv. ríkisstj. í þeim vanda, sem hún er nú í stödd í sambandi við efnahagsmál þjóðarinnar. Það hlýtur öllum mönnum að vera ljóst, sem skoða þetta frv. og hafa í huga þann vanda, sem við er að fást í íslenzkum efnahagsmálum nú, að þetta frv. leysir í rauninni engan vanda. Það er spurning, hvort það skapar ekki stórkostleg ný vandamál í efnahagslífinu, sem erfitt getur orðið að leysa. Það meginverkefni, sem ríkisstj. segist hafa verið að glíma við í sambandi við þetta frv., er það að finna leiðir til þess að eyða, eins og það er nú kallað, 6.2 vísitölustigum úr kaupgjaldsvísitölunni, en gert var ráð fyrir því, að kaupgjaldsvísitalan hefði átt að hækka eftir réttum leikreglum um 6.2 vísitölustig miðað við verðlagið í nóv., og hefði það átt að koma til greiðslu í kaupgjaldi 1. des. n. k.

Það er svo býsna fróðlegt að sjá, hvernig hæstv. ríkisstj. ber sig að því að eyða þessum vísitölustigum, þ. e. a. s. að láta vísitölustigin hverfa með einhverjum hætti. Till. hennar eru þær, að í fyrsta lagi skuli strika út af þessum 6.2 vísitölustigum 2 stig úr kaupgjaldsvísitölunni og launafólk allt í landinu skuli ekki fá þessi vísitölustig reiknuð með í kaupuppbótum sínum samkv. gerðum samningum. Þetta er nú býsna einföld aðferð að eyða hlutum eða láta þá hverfa. Það er bara að strika yfir þá, það er farið að neita staðreyndum, neita gerðum samningum.

Önnur leið, sem hæstv. ríkisstj. hefur fundið, er það, að hún ákveður að leggja á sérstakan launaskatt, sem nemur 1.5% af greiddum launum. Það er í rauninni afskaplega einkennilegt að finna upp á þessu, ef menn virða fyrir sér, hvernig þessir hlutir ganga raunverulega fyrir sig. Ef vísitalan hefði verið látin mæla verðlagið, eins og um hafði verið samið, þá áttu náttúrlega allir atvinnurekendur að borga hækkunina. Nú er sagt við nákvæmlega sömu aðila: Við ætlum að leggja á ykkur skatt, sem miðast líka við kaupið, sem þið greiðið, sem nemur 1.5%. Atvinnurekendur eiga m. ö. o. að greiða nákvæmlega sömu töluna. Nú á bara greiðslan að fara til ríkisins, en í hinu tilfellinu átti samkv. samningum þessi greiðsla atvinnurekenda að fara til launafólksins sjálfs. Það er náttúrlega ekki sjáanlegur nokkur sparnaður fyrir atvinnureksturinn í landinu á þessari krókaleið. En af hverju eru menn þá að gera þetta? Hæstv. forsrh. upplýsti það, að þessi aðferð hefði það í för með sér, að greiðslan gangi í ríkissjóð og ríkissjóður taki svo upphæðina og noti hana til niðurgreiðslna með sérstökum hætti, en þá lækkar þetta vísitöluna um 2 stig. Á þennan hátt tókst þó að falsa gerða samninga um vísitöluuppbætur á laun um 0.5 stig, og til þess var þessi leikur gerður. Ef við reiknum nú með því, að það sé í rauninni búið að eyða á þennan sérstaka hátt 2 stigum, sem eru hreinlega strikuð út, gagnvart launafólki, og síðan eru atvinnurekendur látnir borga 1.5 stig raunverulega með þessari krókaleið, þá hefði átt að vera búið að eyða að réttu lagi 3.5 vísitölustigum af 6.2, og þá hefðu átt að vera eftir 2.7 stig. En þau verða líka 2.7 stig af því að það er m. a. búið að vinna þarna í kringum 0.5 vísitölustig með því að fara þessa krókaleið, sem ég var að lýsa. Nú er það ekki svo, að ríkissjóður ætli sjálfur að standa undir einhverri lækkun á verðlaginu, sem næmi t. d. þessum 2.7 vísitölustigum, heldur er farin sú leið, að ríkið ákveður að afla sérstakra tekna til þess að standa undir niðurgreiðslum, og þegar kemur til þess að afla teknanna, þá átti vitanlega vísitalan að hækka, samkv. því, sem þá hafði verið um samið um gerð vísitölunnar. Og þar kom eitt vísitölustig til vegna afleiðinganna af nýju tekjuöfluninni hjá ríkissjóði. En þá fara menn þannig að, að það vísitölustig er ekki reiknað með, þótt um það hafi verið samið í vísitölugrundvellinum, að til þess ætti að taka fullt tillit. En peningarnir eru teknir og notaðir í niðurgreiðslu. Á þennan hátt er einnig verið að falsa vísitöluna um eitt vísitölustig.

Það kemur svo í ljós í grg. frv., að raunverulega er ekki ætlazt til þess, að ríkissjóður, sem vinnur nú að þessari miklu eyðingu á vísitölustigunum 6.2, leggi frá sér umtalsvert fé til þess að losna við þessi vísitölustig. Samkv. grg. frv. er gert ráð fyrir því, að það geti fallið á ríkissjóð, ef áætlanir reynast réttar, í kringum 61 millj. kr. Það er allt og sumt. Hér er því á ferðinni till. um stórkostlega fölsun á vísitölugrundvellinum og þeim samningum, sem launastéttirnar í landinu hafa gert við vinnuveitendur. Það er kjarni þeirra till., sem hér liggja fyrir.

Það er alveg augljóst mál, að till., sem hafa þetta að meginefni, leysa engan vanda. Það er ótrúlegt, að það fái staðizt lengi, að ríkisstj. geti viðhaft þau vinnubrögð að beita sér fyrst fyrir því við verkalýðssamtökin í landinu, að þau fallist á tiltekinn vísitölugrundvöll, — það gerði ríkisstj. Hún beitti sér fyrir því, að nýr vísitölugrundvöllur var tekinn upp og það skyldi miða við hann í sambandi við útreikninga á framfærslukostnaði og síðan á kaupgjaldsvísitölu, — og að sú sama ríkisstj. skuli svo koma rétt á eftir með till. um það að svíkja þennan grundvöll og breyta honum. En það er gert í þessu frv. og það meira en í einu tilviki.

Það er ekki aðeins um það að ræða, að í frv. er lagt til, að tilteknar verðlagshækkanir, sem nú eiga að verða, skuli ekki reiknast inn í kaupgjaldsvísitöluna, þó út frá því hafi verið gengið í því samkomulagi, sem gert var áður um nýjan vísitölugrundvöll, heldur koma hér einnig fram till. um það, að ríkisstj. megi skjótast inn með ákveðnar niðurgreiðslur á vöruverði eftir öðrum reglum, og það skuli mælt eftir öðrum reglum en áður var um samið í vísitölugrundvellinum, en þar var alveg skýrt tekið fram, að það væri það verðlag, sem gildandi var 1. nóv., sem átti að miða við, og síðan átti kaupgjaldið að ákvarðast einum mánuði síðar miðað við það verðlag. En nú kemur hér inn till. í frv. um það, að ríkisstj. geti skotizt inn með niðurgreiðslur á verðlagi daginn fyrir 1. des., daginn áður en nýtt kaupgjald á að taka við, og þá skuli sú niðurgreiðsla gilda, en ekki það verðlag, sem raunverulega var 1. nóv., eða mánuði áður en hin eiginlega kaupgjaldsvísitala tekur gildi. Þarna er á ferðinni önnur mjög mikilvæg breyting á þeim grundvelli, sem ríkisstj. sjálf hafði staðið að að gera samkomulag um við launasamtökin í landinu. En það var vísitölugrundvöllurinn.

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál, að ríkisstj. skuli standa á þennan hátt að því samkomulagi, sem hún hefur sjálf gert, að hún skuli hlaupa frá því, strax og á það reynir eitthvað. Skilur ekki hæstv. ríkisstj. það, að þeir aðilar, sem svona eru leiknir við samningaborðið, verða tregir að setjast að samningaborði með henni og gera yfirleitt samninga við hana um nokkurn skapaðan hlut. Og dettur henni ekki í hug, að af því kunni að geta skapazt ýmiss konar erfiðleikar í landinu. Ríkisstj. veit það einnig, að þeir samningar, sem gerðir voru um launakjör 19. júní í sumar á milli verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda, voru alvörusamningar, það voru samningar, sem áttu að gilda. Þeir samningar voru undirritaðir á hátíðlegan hátt, og ríkisstj. vissi mætavel um það, að til þess var ætlazt, að við samningana yrði staðið. Og það fer auðvitað ekkert á milli mála, að ríkisstj. fylgdist greinilega með allri þessari samningagerð, því að það hefur ekki farið fram hjá neinum, að á undanförnum árum hafa atvinnurekendasamtökin í landinu haft samstarf við ríkisstj. í sambandi við gerð kjarasamninga. Ríkisstj. veit því mætavel, að þegar hún nú nokkrum mánuðum síðar kemur með till. um það, að vikið skuli frá þessum kjarasamningum á þann hátt að fella skuli niður 2 vísitölustig af þeim launum, sem um hafði verið samið, þá er hún að svíkja þá samninga, sem þarna voru gerðir, og það er mjög alvarlegt mál. Getur hæstv. ríkisstj. ekki búizt við því, að sá aðili, sem stendur frammi fyrir því, að þeir samningar, sem hann hefur gert, eru sviknir, að þessi aðili kunni að segja: „Þá tel ég mig heldur ekki skuldbundinn við þennan samning.“ Og þá er hætt við því, að þá kæmi upp nýr vandi, kannske öllu stærri en sá vandi, sem við er að glíma í efnahagsmálunum og blasir við nú. Ríkisstj. hafði, áður en hún lagði fram þetta frv., staðið í alllöngum samningaviðræðum við fulltrúa frá verkalýðshreyfingunni, og hún vissi því mætavel um afstöðu þeirra til þessara mála. Ríkisstj. hafði ekki komizt að neinu samkomulagi þar í þessa átt. En samt flytur hún till. í þá átt, sem greinir í þessu frv., sem miðar að því að rifta samningunum.

Þegar þessi mál eru skoðuð nánar og menn reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig stendur á þeim vanda í efnahagsmálum okkar, sem við er að glíma nú, þá kemur auðvitað fljótlega að því, að menn verða að meta það, hvort sú kauphækkun, sem um var samið á s. l. sumri, hafi í rauninni verið of mikil, hvort efnahagskerfið hafi ekki þolað þá samninga, hvort það hafi raunverulega verið þessir samningar, sem leitt hafi til þess vanda, sem nú er við að fást, eða hvort það hafi verið eitthvað annað, sem valdið hafi þessum vanda. Við vitum, að á s. l. sumri var samið um kauphækkun, sem almennt var talið, að væri um 15–18%. Hjá flestum mun kauphækkunin hafa verið í kringum 15%, en í nokkrum greinum nokkru meiri, og má því segja, að kauphækkunin hafi verið á milli 15–18%. Það er enginn vafi á því, að þessi kauphækkun var ekki meiri en svo, að hún rétt aðeins nam því, hafi hún þá gert það að fullu, að jafna upp þá kauplækkun, sem yfir hafði gengið á árunum 1967–1968 og fram á árið 1969. Hér var því um það að ræða, að á miðju þessu ári var kaupið aftur fært upp nálega til sama kaupmáttar eins og kaupið hafði verið í, áður en til lækkunartímabilsins kom. Nú er spurningin: Var ekki aðstaða til þess í íslenzkum þjóðarbúskap að veita þessa kauphækkun til þeirra, sem höfðu orðið fyrir kauplækkun, á meðan erfiðleikarnir gengu yfir í okkar þjóðarbúskap? Það fór auðvitað ekkert á milli mála, að þegar samningarnir voru gerðir á s. l. sumri, voru allar aðstæður í okkar efnahagskerfi gerbreyttar frá því, sem verið hafði. Árið 1969 hafði reynzt gott ár. Þá fóru þjóðartekjur allverulega vaxandi. Talið var, að þjóðartekjurnar hefðu vaxið í kringum 3%. Útflutningurinn hækkaði allverulega í verði og viðskiptakjör voru hagstæð. Fyrri hluti ársins 1970 eða fram að samningatímabilinu hafði þó verið miklum mun betri en meðaltalið á árinu 1969. Verð á útflutningsvörum þjóðarinnar hafði enn farið stórlega hækkandi og framleiðslan fór einnig vaxandi. Það var alveg ljóst mál, að þjóðartekjurnar mundu vaxa miklum mun meira á árinu 1970 en þær gerðu á hinu tiltölulega góða ári 1969, enda telur Efnahagsstofnunin nú, að þjóðartekjur muni vaxa á þessu ári um rúmlega 10%. Það er gífurlega mikill vöxtur á þjóðartekjum, en ein meginástæðan fyrir þessum mikla vexti liggur í því, að allar aðalútflutningsvörur landsmanna hafa hækkað gífurlega í verði á erlendum mörkuðum. Það er enginn vafi á því, að allar ytri aðstæður voru hagstæðar til þess að veita kauphækkun, þegar samið var um kauphækkunina í júní s. l. Og það hafa enn ekki verið færð fram nein rök fyrir því, að sú kauphækkun, sem þá var samið um, hafi verið of mikil fyrir efnahagskerfið, og því var ekki haldið fram af stjórnarvöldum um það leyti, sem samningarnir voru gerðir.

Nú er það svo, að efnahagsástandið hefur í rauninni, þegar litið er á þjóðarbúið sem heild, farið batnandi frá miðju ári. Verðhækkanirnar á okkar útflutningsafurðum hafa enn haldið áfram, og framleiðslan hefur enn farið vaxandi. Það eru því vitanlega enn þá minni rök fyrir því að halda því fram nú í byrjun nóv., að það séu ekki aðstæður til þess að standa undir þeirri almennu kauphækkun, sem samið var um í júlí s. l. Nei, vandann er ekki að rekja til kauphækkananna. Vandann er að rekja til þess, að síðan samið var um þessar kauphækkanir í júní, hafa gengið yfir allt of miklar almennar verðlagshækkanir, sem stjórnarvöld hafa lagt blessun sína yfir. Og það, sem verra er, það virðist eftir því, sem gerð er grein fyrir í grg. þessa frv., beinlínis hafa verið stefna ríkisstj. að miða að því, að allar þessar verðhækkanir skyldu koma fram. Þar var ekki gengið neitt hikandi að hlutunum. Ég vek t. d. athygli hv. þm. á því, sem segir í grg. frv. hér á bls. 3. Þar er ein mgr., sem fjallar sérstaklega um þennan þátt málsins. Að vísu er þessi mgr. örlítið torskilin. Hún er ekki á neinu alþýðumáli, eins og kemur stundum fyrir hjá mjög sprenglærðum hagfræðingum. Þeir eiga heldur erfitt með að koma sér niður á venjulegt mannamál. En eigi að síður má nú skilja þetta með því að lesa þetta nokkrum sinnum yfir og velta því fyrir sér, hvaða meining muni þarna liggja á bak við orðin. En þessi mgr. lýsir því samt sem áður mjög vel, hvernig ríkisstj. hefur metið þetta ástand. Nú skal ég lesa þessa mgr., með leyfi hæstv. forseta, en þar stendur, þegar búið er áður að víkja nokkuð að því, að það hafi ekki verið ástæða til þess að stöðva verðlagið, fyrr en gert var, og verðlagshækkanirnar hafi nú þurft að ganga yfir:

„Af þessu er augljóst, að ekki var hægt að koma í veg fyrir verðlagshækkanir með beitingu verðlagsákvæða, áður en aðlögun verðlags að hækkun launakostnaðar í öndverðu var komin fram. Rök þau, sem færð voru fram fyrir nauðsyn þessara hækkana, voru svo sterk, að þeim varð ekki andmælt.“ — Það var ekki einu sinni hægt að andmæla þeim. — „Hækkanirnar hafa dreifzt mjög almennt á allar tegundir vöru og þjónustu og tiltölulega jafnt eftir því, sem tilefni hafa gefizt til. Hafa hlutaðeigandi yfirvöld fylgzt rækilega með verðlagsaðlöguninni með stuðningi sundurliðaðra vísitöluyfirlita og áætlana og unnið að samræmdu mati hækkunartilefna, svo að sem fastast yrði á móti spornað.“

Þessa grein þurfa menn eflaust að lesa oftar en einu sinni, ef þeir eiga að skilja hana, eða svo fór fyrir mér. En það er rétt að lesa hana hér aftur, en þessi setning er svona:

„Hafa hlutaðeigandi yfirvöld fylgzt rækilega með verðlagsaðlöguninni með stuðningi sundurliðaðra vísitöluyfirlita og áætlana.“

Það fer sem sagt ekkert á milli mála, hvað verðlagsyfirvöldin hafa sér til gagns í sambandi við það að tryggja það, að verðhækkanirnar aðlöguðu sig hinu breytta ástandi. Þau hafa haft sér til fulltingis í þessum efnum nákvæm vísitöluyfirlit og áætlanir til þess að sjá um það, að verðhækkanirnar yrðu allar eftir áætlun. Og svo segir hér áfram:

„Hefur jafnframt verið unnið að því að ljúka þeirri verðlagsaðlögun, sem óhjákvæmileg reyndist, meðan athuganir hafa farið fram til undirbúnings almennum aðgerðum til verðstöðvunar.“

Það var reynt að ljúka þessum aðlögunum. Verðhækkunin var þá að ganga yfir, og bezt sem fyrst, og komast upp á ákveðið stig, þá fyrst mátti grípa til verðstöðvunar. Allt var þetta nákvæmlega reiknað út. Sá vandi, sem við er að glíma, eru verðhækkanirnar. Það eru þær verðhækkanir, sem hafa verið að ganga yfir og landsmenn allir hafa verið að kvarta undan. Þær hafa leitt til þess, að framfærsluvísitalan hefur hækkað, að kaupgjaldsvísitalan átti að hækka samkv. samningi, en ríkisstj. hefur samkv. nákvæmu yfirliti sínu unnið að því, að þessar verðhækkanir næðu allar fram að ganga og með þeim hætti, sem raun hefur á orðið. (Gripið fram í.) Já, verðlagsyfirvöldin eru nú sennilega ekki ýkjalangt frá ríkisstj. Ríkisstj. a. m. k. hefur með þessi mál að gera. Ég vil nú vænta þess, að a. m. k. hæstv. viðskmrh. telji sér nú ekki alveg óskylt mál, hvað verðlagsyfirvöldin hafa verið að gera. (Gripið fram í.) En annars væri það mjög fróðlegt, ef hæstv. viðskmrh. ætlaði að neita ábyrgð sinni á því, sem gerzt hefur í verðlagsnefndinni og í sambandi við þessa verðlagsþróun alla. En ég hef leyft mér að draga þá ályktun af því, þar sem talað er um verðlagsyfirvöld, að þar kæmi nú ríkisstj., a. m. k. viðskmrn., inn í myndina. En samkv. þessu hafa þessi verðlagsyfirvöld stjórnað allri hækkuninni samkv. nákvæmri áætlun.

Ég tel, að sá vandi, sem við er að glíma í okkar efnahagsmálum, liggi þarna. Ég hafði fyrst haldið það, að ríkisstj. hefði ekki verið að framkvæma þetta svona alveg að yfirlögðu ráði. Ég hafði haldið, að hún hefði sveigzt og beygzt undan þrýstingi, hún hefði látið undan hækkunarkröfum ýmissa aðila um margvíslegar verðhækkanir, og þannig hefðu verðhækkanirnar náð fram að ganga og skapað þann vanda, sem við er að glíma. En það eru þessar verðhækkanir, sem vandanum valda. Það, sem gera þurfti því að mínum dómi, var ekki það að gera hér sérstakar ráðstafanir til þess að lækka kaup, það var ekki það að gera hér ráðstafanir til þess að hlaupa frá gerðum samningum um launakjör, ekki heldur til þess að hlaupa frá gerðu samkomulagi um grundvöll þess mælikvarða, sem lagður er á verðlag og laun í landinu í sambandi við vísitölugrundvöll, heldur væri það hitt að finna ráð til þess að lækka verðlagið og halda verðlaginu í skefjum.

Við Alþb.-menn höfum bent á það hér með sérstökum tillöguflutningi fyrir alllöngu, að það ætti að stöðva verðlagið strax. Við lögðum til strax hér í að standa gegn kröfum um verðlagshækkanir á ýmsum sviðum. Það er t. d. enginn vafi á því, að afkoma ríkissjóðs er nú með þeim hætti, að ríkissjóður getur lagt fram nokkurt fé til verðlækkunar. Og því hefðum við álitið, að réttast væri að lækka t. d. söluskattinn á brýnustu lífsnauðsynjum og að lækka tolla á miklum nauðsynjavörum. Það hefði einnig mátt afnema eða lækka nokkuð af nefsköttum, sem nú hvíla á mjög ósanngjarnan hátt á almenningi í landinu. Þetta hefði getað gerzt með þeim hætti, að ríkið hefði í sumum tilfellum kannske hlaupið undir bagga og tekið á sig að greiða þeim aðilum, sem nú fá tekjur af nefsköttunum, eða þá á þann hátt, að ríkið hefði staðið betur að því að innheimta þau gjöld, sem það á að fá samkv. réttum lögum, en nú er skotið undan með skattsvikum. Við höfum einnig lagt til, að allt verðlag í landinu, sem nú er í gildi, væri tekið til nákvæmrar athugunar og unnið að því að færa verðlagið niður í öllum þeim greinum, sem unnt reynist. Við teljum, að það sé enginn vafi á því, að það væri hægt að lækka verðlag, ef unnið væri af fullri alvöru að því að framkvæma slíka verðlækkun. Það hafa komizt í gegn ýmsar verðhækkanir á undanförnum árum, sem ekki eiga rétt á sér. Þá teljum við einnig, að það væri hægt að standa gegn verðhækkunum með því að gera verðlagseftirlitið í landinu miklu öflugra og virkara en það er nú. Það vita allir, að verðlagseftirlitið hefur verið stórlega lamað á undanförnum árum, og það vinnur ekki sitt verk sem skyldi. Það veitir ekki það aðhald í sambandi við verðmyndun í landinu og verðlagningu yfirleitt, sem það á að gera. En ríkisstj. hefur ekki séð ástæðu til þess að gera neitt í þessa átt. Það er eins og fyrri daginn. Hún telur aðalvandann vera þann, að kauphækkun verkafólks hafi orðið of mikil, kaup hinna lægst launuðu sé orðið of hátt, og því miðast hennar till. við það að víkja frá gerðum samningum til lækkunar.

Grg. þessa frv. eða hinn almenni rökstuðningur, sem látinn er fylgja með þessu frv., er í rauninni alveg stórfurðulegur. Ég hef nokkuð vikið að þeirri röksemd, að verðstöðvun hafi ekki mátt koma fyrr en 1. nóv. Ég held, að það sé í rauninni alveg óþarft að eyða fleiri orðum að þeirri röksemd. Ég efast ekki um það, að allir þeir, sem hafa fylgzt eitthvað með verðlagsþróuninni undanfarnar vikur, hafa gert sér grein fyrir því, að þá hafa gengið yfir margvíslegar verðhækkanir, sem ekki áttu rót að rekja til kaupgjaldshækkananna í sumar, og þar sem svo stóð á, að viðkomandi aðilar gátu tekið á sig nokkuð aukin útgjöld, vegna þess að rekstur þeirra var hagstæður. Þeir höfðu búið við tiltölulega lágar launagreiðslur um langan tíma, og þeir áttu því að taka á sig nokkuð aukin útgjöld, en ekki að velta af sér öllum vanda í sífellu út í verðlagið, eins og þeir hafa komizt upp með að gera.

En það eru fleiri röksemdir í þessari grg., sem eru næsta furðulegar. Ein er sú, að hér er gerð upptalning á því, hvað ríkisstj. eða stjórnarvöld hafi komið í veg fyrir mikla hækkun á vísitölu með því að hamla gegn ýmsum beiðnum, sem borizt hafa um verðhækkanir. Þannig segir t. d. í grg. á þessa leið:

„Eftir því sem næst verður komizt, munu verðhækkanir opinberra aðila valda minni hækkun vísitölunnar, sem svarar um 0.4 %-stigum, (m. v. maí-grunn) en samkv. almennri áætlun um hækkunartilefni.“

Það virðist sem sagt vera í þessu tilfelli eins og í hinum fyrri, að þá var ríkisstj. búin að gera sér áætlun um það, hvað hækkunartilefnin áttu að vera mikil. En ríkisstj. hefur nú samt staðið gegn ýmsum óskum opinberra aðila um verðlagshækkanir, og þetta nemur 0.4 vísitölustigum, og ríkisstj. vill fá ákveðið þakklæti út á það, að hún hafi nú komið í veg fyrir þessar hækkanir. Og þetta á að vera almennur rökstuðningur fyrir þeim till., sem hér eru á ferðinni. Enn fremur segir þarna í grg.:

„Fyrirstaða verðlagsyfirvalda gegn áhrifum septemberhækkunar launa mun að öllum líkindum valda svipuðum eða meiri mun, svo að alls hafi þegar verið hamlað gegn u. þ. b. 1%-stigs hækkun með ofangreindum ráðstöfunum.“

Þetta kemur nú málinu eitthvað við, að fara að breyta því í vísitölustig, hve miklu hafi verið neitað af alls konar kröfum, sem borizt hafa til verðlagsyfirvalda, og þá að telja sér það eitthvað til tekna að hafa ekki samþykkt allar hækkanir, sem borizt hafa. Þetta er auðvitað furðulegur málflutningur og hefur auðvitað harla litið að gera inn í grg. með þessu frv.

Þá er hér í röksemdunum sett fram fullyrðing um það, að launafólk í landinu tapi alveg tilteknum prósentustigum í launum á því, að það fær launabætur samkv. vísitölu á þriggja mánaða fresti, þannig að það er auðvitað æðioft þannig, að verðhækkun, sem orðið hefur, er ekki greidd út í launum, um leið og verðhækkunin verður í reynd. Og í grg. frv. er því beinlínis haldið fram, að miðað við árstímabil mundu launamenn tapa 2.75%-stigum að meðaltali vegna þessa dráttar á því að fá sínar vísitölubætur á laun. Og síðan er látið að því liggja, að þar sem verðlagið sé nú stöðvað, verði launamenn ekki lengur fyrir þessari skerðingu. Það hefur auðvitað legið alveg skýrt fyrir, að kjarasamningarnir hafa verið með þeim hætti, að launþegarnir hafa ekki fengið bætur í kaupi út á verðhækkanir fyrr en nokkuð eftir á. En í rauninni er það alveg óútreiknanlegt, hve þetta nemur miklu, því að það fer auðvitað alveg eftir því, hvenær á þessu þriggja mánaða tímabili verðhækkunin sjálf verður. Og það veit auðvitað enginn um það nákvæmlega fyrirfram, þegar menn reikna ár fram í tímann, eins og hér er gert, hvort verðhækkunin verður á fyrsta mánuði af þessum þremur eða á síðasta mánuði eða á síðustu dögum, rétt áður en kaupgjaldsvísitalan er ákveðin. En þá munar nú ekki mikið um það, sem standa að þessari grg., að reikna það fyrirfram upp á ákveðið brot úr %-stigi, hve þetta muni miklu eitt ár fram í tímann. Ef menn gengju nú út frá því, að þessar verðhækkanir kæmu að meðaltali fram á miðju þessu þriggja mánaða tímabili, — sumar hækkanirnar koma á fyrri hlutanum og aðrar aftur á seinni hlutanum. Það væri hægt að segja, að það væri kannske ekki óeðlilegt að reikna með því, að þessar verðhækkanir gengju þannig yfir, að þær kæmu að meðaltali fram á miðju tímabilinu, — þá fullyrði ég það, að þessir útreikningar, sem hér eru birtir, eru einber staðleysa. Þeir eru eintóm vitleysa. Þeir fá ekki staðizt. En hér er sem sagt verið með talnaleik að reyna að rökstyðja það, að launþegar hafi nú orðið hér að gefa nokkuð eftir af umsaminni vísitölu, vegna þess að þarna sé um vinning að ræða.

Í grg. frv. er nokkuð vikið að því, hver kaupmáttaraukning hafi orðið hjá verkafólki frá maímánuði 1969 og allt fram á þennan dag, og það vekur auðvitað nokkra athygli, að því er haldið fram, að um kaupmáttaraukningu hafi verið að ræða frá því í maímánuði 1969 og fram að síðustu kjarasamningum, eða í júní 1970, sem nemur 6.6%. Ég skal ekki alveg fullyrða um það fyrir mitt leyti, hve miklu kann að skakka á þessari tölu, en hitt sé ég strax, að hér er verið að villa um fyrir mönnum, þegar þau vísitölustig, sem samið hafði verið um í fyrri kaupgjaldssamningum, að geymd skyldu og skyldu koma inn síðar á kjörtímabilinu, og var einn liður í þeirri kaupeftirgjöf, sem fór fram með samningum hér áður, þá má auðvitað segja, að þegar þessi vísitölustig, sem höfðu verið gefin eftir á tilteknu tímabili, komu inn aftur, hafi verið um kaupmáttaraukningu þá að ræða frá því, sem áður var. En hér var aðeins um það að ræða, að það hafði verið fallizt á það í samningunum að lækka laun á tilteknu tímabili, en þó þannig, að nokkuð af því kæmi aftur inn síðar. En þá er sem sagt þetta tekið á þann hátt í þessari grg., að hér hafi verið um eitthvað hliðstæða kaupmáttaraukningu að ræða og þá, sem aftur á móti var samið um í kaupgjaldssamningunum á s. l. sumri. Meginatriðið er auðvitað það, að eftir kaupgjaldssamningana á s. l. sumri mátti segja, að kaupmáttur launa væri svipaður því og hann var, áður en kauplækkunin kom til.

Það er svo alveg sérstakur kafli í þessu máli að gera sér grein fyrir þeim vinnubrögðum, sem ríkisstj. hefur viðhaft í sambandi við málið. Hæstv. forsrh. vék nokkuð hér að því í sinni ræðu, að við þm. Alþb. hér í þessari d. hefðum flutt till. um það, að rannsakað yrði, hvort staðið hefði verið eðlilega að þeirri verðstöðvun, sem nú er ákveðin, og þar vildum við alveg sérstaklega láta taka til athugunar þá tilkynningu, sem hann gaf um verðstöðvun 13. okt. í sjónvarpsviðtali. Hæstv. forsrh. finnst það kannske enn þá svo, að það sé ekkert athugavert af hans hálfu að tilkynna það frammi fyrir landslýð, að það standi til að ákveða verðstöðvun. En ég hygg nú, að hann eigi eftir að reka sig á það, að þó að hann líti þannig á málið, þá lítur öll þjóðin öðruvísi á þetta mál en hann. Það er auðvitað enginn vafi á því, að slík tilkynning frá hans hálfu hefur komið fram sem hrein viðvörun til ýmissa aðila í landinu, sem höfðu aðstöðu til þess að hækka sitt verðlag, höfðu ýmist beinlínis leyfi til þess sjálfir að ákveða verðlagið á sinni vöru eða þjónustu eða höfðu auðvelda aðstöðu til þess að koma sínum hækkunum í gegn. Því hefur verið haldið hér fram á Alþ. fram til þessa, að verðstöðvun, sem ákveðin er af Alþ., sé slík aðgerð, að það sé nauðsynlegt að standa að henni þannig, að hún gangi nokkuð jafnt yfir, þar standi allir nokkuð jafnt að vígi. Því er það, að frv. um verðstöðvun, sem lögð hafa verið fram, hafa gjarnan verið með ákvæðum um það, að verðstöðvunin skyldi gilda frá þeim degi, að frv. var sýnt, en ekki frá þeim degi, þegar frv. yrði að lögum. Það er auðvitað enginn vafi á því, að það er ekki eðlilegt að standa þannig að framkvæmd verðstöðvunar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert að þessu sinni. Ég verð að segja, að einu hugsanlegu skýringuna á slíku viðtali er að finna í þessari einkennilegu grg., sem kemur hér með þessu frv., að ríkisstj. hafi verið að vinna að því að flýta fyrir því, að þær verðhækkanir, sem fram áttu að ganga, gengju yfir, þær skiluðu sér. Og þetta hafi því beinlínis verið þannig, að hann hafi raunverulega verið að kalla eftir ýmsum verðhækkunum, sem hafi dregizt eitthvað að koma á framfæri. Þá fer ég að skilja það, að það þyki eðlilegt, að hæstv. forsrh. fari að tilkynna í sjónvarpi slíkt sem þetta.

Það hefur verið staðið þannig að þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstj., að það er síður en svo traustvekjandi. Ég held, að ríkisstj. verði að gera sér grein fyrir því, að hún þarf að taka á efnahagsmálum okkar á allt annan hátt en hún hefur gert á undanförnum árum. Og ráðh. verða beinlínis að hugsa á annan veg en þeir hafa gert. Spurningin er sú auðvitað, hvort þeir geta hugsað á annan veg. Ég skal ekkert um það segja. En á meðan ráðh. hugsa þannig, að það sé óhjákvæmilegt, ef samið er um tiltekna launahækkun, að sú launahækkun verði að koma fram í hækkuðu verðlagi, þá hlýtur ríkisstj. að standa í þessum vanda allan þann tíma, sem hún situr. Ég vil t. d. spyrja hæstv. viðskmrh., sem ég efast nú ekkert um, að eigi eftir að tala hér á eftir í þessu máli, hvenær hann telji t. d., að það sé hægt að fallast á það að borga hærra kaup, að hækka kaup. Hvaða skilyrði þurfa að vera, svo að hægt sé að hækka kaup? Telur hann t. d., að þær aðstæður, sem eru í okkar efnahagskerfi nú, leyfi ekki 15% launahækkun hjá verkafóli, sem samið var um á s. l. sumri? Ég held, að það verði ekki auðvelt að finna dæmi um það, að önnur og hagstæðari sveifla eigi sér stað en átt hefur sér stað nú á þessu ári. Hækkunin á okkar aðalútflutningsafurðum er slík og framleiðsluaukningin er líka þannig og vöxtur okkar þjóðartekna er þannig, að ég skil það ekki, að það geti þá nokkurn tíma verið tök á því að hækka kaup hinna lægst launuðu, t. d. um 15%, ef það er ekki hægt nú. En auðvitað er það ekki hægt í sjálfu sér, ef menn álíta það, að afleiðingin af 15% kauphækkun eigi að þýða það óhjákvæmilega, að allt annað verðlag í landinu þjóti upp á tiltölulega stuttum tíma yfir 30%.

Ríkisstj. verður að venja sig við þá hugsun, að það verður að halda þannig á málum, að atvinnureksturinn í landinu og hinir ýmsu aðilar, sem laun þurfa að greiða, verða að taka á sig nokkurn vanda af auknum útgjöldum í formi launa, þegar vel gengur. En þeir eiga ekki að komast upp með það, að þeir geti bara velt af sér launahækkuninni og haldið alltaf öllu því, sem þeir höfðu haldið áður. Það er t. d. enginn vafi á því, að okkar aðalútflutningsatvinnuvegur, sjávarútvegurinn, verður að gera þetta. Hann gerir þetta. Það er auðvitað heldur enginn vafi á því, að ríkisstj. hefur verið á þeirri skoðun og er væntanlega á þeirri skoðun enn, að sjávarútvegurinn þoli allar þessar hækkanir, vegna þess að hún heldur enn þá í gangi lögum, sem gera ráð fyrir því að taka t. d. af frystiiðnaðinum í landinu helminginn af allri verðhækkuninni, sem verður vegna útflutnings á frystum sjávarafurðum. Sá skattur, sem þannig er tekinn af útflutningsframleiðslunni, bara af frystum sjávarafurðum, mun fara nokkuð yfir 300 millj. kr. á þessu ári. Ef álögurnar t. d. á fiskiðnaðinn væru orðnar of miklar að dómi ríkisstj., þá mundi hún að sjálfsögðu gefa þarna eftir, draga úr þessari skattlagningu, leyfa framleiðslunni að fá sinn pening, en stafla þessu ekki upp í Seðlabankanum eins og nú er gert. Ég held, að hæstv. ríkisstj. þurfi að huga að verðmynduninni í landinu á allt annan hátt en hún hefur gert.

Það var í fyrravetur samþ. á Alþ. að lækka innflutningstolla allverulega. Talið var, að sú lækkun mundi þýða um 400 millj. kr. skertar tekjur fyrir ríkissjóð. Jafnhliða var hins vegar hækkaður söluskattur, og þá gert ráð fyrir því, að ríkissjóður fengi tekjuauka af honum, sem næmi a. m. k. jafnhárri upphæð. Við Alþb.-menn fluttum hér till. um það, að sú skylda yrði lögð á verðlagsyfirvöldin, að þau gættu nú að því, að tollalækkunin, sem samþ. var á Alþ., kæmi fram í útsöluverði á vörum, en milliliðirnir tækju ekki tollalækkunina beint til sín í framkvæmd. Ríkisstj. stóð auðvitað þannig að afgreiðslu þessarar till., að hún lét fella till., hélt því m. ö. o. fram, að þetta væri óþörf till., þetta mundi allt saman jafna sig sjálft. En nú er það viðurkennt af öllum þeim, sem fylgzt hafa með þessum málum, og þeim, sem m. a. hafa bezt fylgzt með útreikningi vísitölunnar, að tollalækkunin kom aldrei fram í vöruverðinu. Milliliðirnir tóku alla tollalækkunina til sín, en hins vegar komu fram í vöruverðinu afleiðingarnar af hækkun söluskattsins. Það skilaði sér fyllilega miðað við það, sem áætlanir höfðu verið gerðar um.

Ríkisstj. þarf að huga að verðlagsmálunum á allt annan hátt en hún hefur gert. Hún þarf að fylgjast með verðmynduninni í landinu miklu betur en hún hefur gert og gera sér grein fyrir því, að verðbólguvandinn er m. a. fólginn í því, að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu komast upp með það að hækka verðlag of mikið. Vandinn er ekki sá, sem ríkisstj. hefur haldið, þ. e. of hátt kaup hjá verkafólki.

Við Alþb.-menn munum greiða atkv. gegn þessu frv., eins og það liggur fyrir. Við munum gera tilraunir til þess að fá ákveðnum gr. frv. breytt. Við getum stutt verðstöðvun út af fyrir sig. Það hefur greinilega komið fram í frv., sem við höfum flutt um það mál. En við ætlumst til þess, að verðstöðvunartímabilið sé notað til þess að snúa sér að því að finna haldbær ráð við verðbólguvandamálinu. En verðstöðvun af því tagi, sem hér er um rætt, leysir ekki vandann. Ég óttast það, að hún leiði af sér nýtt, stórfellt vandamál, árekstra á vinnumarkaði, nýjar og harðari deilur en áður. Ég hefði því viljað vænta þess, að hæstv. ríkisstj. athugaði þetta mál betur, hugsaði sig betur um, áður en hún færi að efna til þess ófriðar á vinnumarkaði, sem mjög er hætt við, að samþykkt þessa frv. mundi leiða til.