14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Frsm. lét þess getið, að frv. þetta væri vandlega undirbúið. Ég er ef til vill ekki meira en í meðallagi skilningsgóður, en það er þannig úr garði gert, að ég gat ekki skilið það aðstoðarlaust og sneri mér því til þess manns, sem samdi það og er búinn að eiga fimm sinnum við hann viðræður. Ég fór til þeirra sem aðallega hafa með þetta mál að gera í d., og ég hef ekki rekizt á neinn, sem mér virtist skilja frv., en mér fannst á hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Norðurl. e., að hann áliti, að hann skildi það, en ég er ekki viss um það. Eftir að ég var búinn að ræða fimm sinnum við höfund þessa frv., spurði ég hann að því alveg í einlægni, hvort hann héldi, að í nokkru landi væri til svona vitlaust frv. um tryggingar, og vildi hann eigi neita því. Hann var ekki sannfærður um, nema það væri rétt hjá mér, að þetta mundi vera vitlausasta frv., sem til er um þessi efni. Enda er frv. þannig, að ég get ekki dáðst að undirbúningnum, og það er þannig úr garði gert, að það er meira en það sé allt að því óskiljanlegt — það er óframkvæmanlegt, og það er stórhættulegt fyrir íslenzka bændastétt.

Hvað viðvíkur félagslegum svip þess, þá veit ég ekki, hvað hv. frsm. hefur átt við — hvort það er það, að það á að mismuna í tryggingagjöldunum þannig, að í raun og veru á að ræna einstaka menn. Af þeim, sem borga meira en í meðallagi, á að taka visst, þ. e. þeir fá ekki fullan lífeyri miðað við það, sem þeir greiða. Og hvað því viðvíkur, að tryggingarnar eigi að taka til starfa við næstu áramót, þá held ég, að það verði ekki. Það eiga að vera smávægilegir betlipeningar frá ríkissjóði og Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem á að vera að mingra í sómabændur hliðstætt sveitarstyrk áður fyrr. Þetta er tekið eftir verkalýðsfélögunum, og það sagði mér einn af þessum úthlutunarmönnum verkalýðsfélaganna, að það væri fáránlegt fyrirkomulag og svo litlar upphæðirnar, að það tæki því ekki að vera að ómaka sig með því.

Viðvíkjandi því, að þetta séu 90–100 millj. kr., sem gjöldin nema fyrir bændur, þá er það ekki rétt reiknað miðað við það verðlag, sem er nú, því að það er einhvers staðar á milli 150–165 millj. kr., árlegur skattur, sem lagður verður á íslenzka bændur. Frv. þetta hefur þegar verið samþ. í Ed. Þessi lög munu þrengja kjör bænda, meðan þeir stunda búrekstur. Lífeyrissjóðurinn tekur til sín árlega hlut af andvirði afurðanna. Sölufélögin þurfa að standa skil á þeirri fjárhæð, sem líklegt er, að nemi 150–165 millj. kr. árlega. Stærri félögin þyrftu þá að skila 10–20 millj. kr. á ári. Eigi verður það til að auðvelda rekstur þeirra.

Í 7. gr. frv. eru ákvæði um iðgjöld bænda. Gert er ráð fyrir, að þeir greiði 40% iðgjalda og neytendur 60% á þann hátt, að söluverð landbúnaðarvara hækki sem því nemur. Þetta atriði er óframkvæmanlegt. Sé kjöt og smjör óeðlilega dýrt miðað við önnur matvæli, dregur það úr sölu á landbúnaðarvörum. Landbúnaðarvörur hafa verið greiddar niður um mörg undanfarin ár eigi eingöngu til að lækka vísitölu, heldur einnig til að gera viðkomandi vörutegund seljanlega. Og það var svo komið fyrir núverandi niðurgreiðslur, að mjög var dregið úr smjörkaupum og kindakjöt var keypt mjög takmarkað. Landbúnaðarvörur eru nú greiddar óeðlilega mikið niður. Á því verður orðin breyting í árslok 1971, enda verða kosningar þá um garð gengnar. Tæpast getur sanngjarnt talizt, að neytendur greiði 60% iðgjalda. Hluti afurða bænda er fluttur út. Kaupendur þeirra greiða engin iðgjöld. Það hækkar því iðgjaldahlut innlendra neytenda. Viðurkenna ber, að það er í þágu innlendra neytenda, að bændur framleiða landbúnaðarvörur, en það er jafnt í þágu framleiðenda, að neytendur kaupi þær og eti.

Kaupmenn og iðnrekendur geta að sjálfsögðu stofnað lífeyrissjóð hliðstæðan fyrirhuguðum bændasjóði og krafizt þess að fá að leggja 60% iðgjalda á vörur, sem þeir selja eða framleiða til sölu. Við skulum eigi vera með sjálfsblekkingar. Vilji atvinnurekendur stofna lífeyrissjóð, verða þeir annaðhvort að greiða allt iðgjaldið sjálfir eða ríkið verður að greiða hluta af því. Sanngjarnt væri þá, að hvor aðili greiddi 50%. Það er lögmál, sem gildir hjá öllum tryggingafélögum, að þau innheimta meira en þau greiða. Rekstrarkostnaður er mikill, og öll slík félög vilja safna í sjóði — og helzt mikla sjóði. Breytilegt og lækkandi gengi gerir sjóðssöfnun ótrygga og kemur illa við starfsemi þeirra. Með jafnótryggu gengi og hefur verið undanfarinn áratug eru lífeyrissjóðir órekandi, enda eru allir lífeyrissjóðir á Íslandi lamaðir einmitt vegna óstöðugs gengis. Tryggingastofnun ríkisins er ekkert annað en lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Einstaklingar greiða 1/4 iðgjalda, sveitarfélög 1/4 og ríkið helming. Eðlilegast er, að allir búi við hliðstæð kjör í tryggingamálum, hvað snertir iðgjaldagreiðslur af hálfu opinberra aðila. Vilji einstaklingar eða starfshópar viðbótartryggingar, á það að vera án allra lögþvingana, og þeir eiga að greiða sín iðgjöld sjálfir. Slíkar tryggingar eru ekki gróðavegur fyrir ráðdeildarmenn, en geta verið óskaðlegar fyrir starfshópa, sem hafa lágan starfsaldur og einstaklinga, sem fara ógætilega með fjármuni sína.

Ýmsir halda því fram, að bændur hafi beðið um lífeyrissjóð. Ég hef eigi orðið þess var, að það mál hafi verið rætt að ráði á bændafundum og eigi heyrt á neinum bónda, að hann hefði áhuga á slíku. Á stéttarsambandsfundi árið 1969 var samþ. svofelld ályktun:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda að Reykjaskóla 1969 skorar á stjórnina“ — þ. e. stjórn Stéttarsambandsins, — „að taka þegar upp baráttu fyrir stofnun lífeyrissjóðs bænda, þannig að þeir hafi tryggan lífeyri, þegar þeir hætta störfum vegna aldurs.“ Nú vil ég biðja hv. þm. að taka eftir framhaldinu: „Bendir fundurinn í því sambandi á framlag bænda í Stofnlánadeild landbúnaðarins frá upphafi ásamt mótframlagi annarra aðila sem stofnfé sjóðsins.“

M. ö. o., það, sem fundurinn óskar eftir, þ. e. stéttarsambandsfundur bænda, er, að framlaginu í stofnlánasjóðinn verði breytt í framlag bænda í lífeyrissjóð, og þeir ætlast ekki samkv. þessari till. til, að bændur greiði meira, svo að þeir fái framlag annars staðar frá. Og þeir vilja meira að segja, að það sé endurgreitt, sem stofnlánadeildinni hefur verið greitt undanfarin ár. Ég hef aldrei hafið miklar deilur út af þessari stofnlánadeild, því að satt að segja erum við búnir að fá þetta borgað, þó að það hafi ekki komið alveg til skila til réttra aðila, því að okkur eru lánuð ógengistryggð lán. Stofnlánadeildin hefur tapað á þeim, og þeir, sem skulda mikið, þ. e. þeir, sem tekið hafa lán síðari árin, hafa eðlilega grætt mest á því, að lánin voru ekki gengistryggð, en við, sem tókum fyrri lánin og tókum minni lánin, höfum eðlilega grætt minna, en allir höfum við haft hagnað af ógengistryggðum lánum, og við höfum verið að endurgreiða þetta. Í sjálfu sér kemur stofnlánadeildin ekki þessu lífeyrissjóðsfrv. við, vegna þess að ef bankinn þarf ekki endilega að fá þetta framlag, þá getum við afnumið það eða lækkað án þess að stofna nokkurn lífeyrissjóð. En ósk fundarins er sem sé þessi, að það á að breyta framlaginu til stofnlánadeildar í iðgjald fyrir bændur, en það er ekki eitt orð um það, að þeir óski eftir að leggja eyri fram af eigin fé fram yfir það, heldur óska þeir þess, að mótframlag komi. En lífeyrissjóðsfrv. er bara allt annað en þetta.

Ég skil þessa ályktun þannig, að stéttarsambandið óski þess, að framlagi bænda til stofnlánadeildar í fortíð og framtíð verði breytt í framlag af þeirra hálfu í lífeyrissjóð fyrir bændur, en að öðru leyti komi mótframlag frá öðrum aðilum. Frv. það, sem fyrir Alþ. liggur, er annars eðlis. Þar er bændum raunverulega eigi tryggt mótframlag. Í öðru frv., sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir að byrja á því að lækka framlag til stofnlánadeildar 1976, en eigi á að afnema það til fulls fyrr en 1990. Ég sé eigi, til hvers er að samþykkja lög nú, sem byrja á að framkvæma 1976. Lífeyrissjóðsfrv. mun hafa verið lesið upp og samþ. á stéttarsambandsfundi 1970. Ég met þá samþykkt lítils. Frv. er flókið — raunar nær óskiljanlegt. Á stéttarsambandsfundi hittast vinnulúnir menn, óvanir að fást við tryggingamál. Þeir eru á fundi í 1–2 daga, spjalla um verðlag á búsafurðum og veðurfar. Fulltrúarnir hefðu mátt hafa meira en mannlegt vit til að geta gert sér fulla grein fyrir þessu máli, þó að þeir heyri frv. lesið upp einu sinni. Bændur hafa enga aðstöðu haft til að kynna sér þetta mál og engar óskir látið í ljós um, að þeir óskuðu eftir lífeyrissjóðsgreiðslum í þeirri mynd, sem fyrir liggur í þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir að taka 11% af grunnlaunum hjóna árlega, sem reka meðalbú, leggja þær fjárhæðir í sjóð, sem líklegt er, að falli oft í verði áður en hluti af honum er endurgreiddur til aldraðra manna.

Lífeyrissjóðsmálið hefur verið lauslega rætt á Búnaðarþingi og stéttarsambandsfundi. Ég hef ástæðu til að ætla, að engan veginn hafi allir verið einhuga í því máli. Ég hef ráðfært mig um það við tvo af vitrari starfsmönnum þessara samtaka, hvaða afstöðu ég ætti að taka til frv. Þeir hafa báðir ráðlagt mér að vera á móti því í þeirri mynd, sem það er nú. Fjármagnsþörf bænda er meiri nú en fyrr á árum. Gerðar eru meiri kröfur til húsa yfir fólk og fé. Margþættar umbætur aðrar á jörðum kosta sitt. Verðmæti nauðsynlegra búvéla nemur alltaf 1 millj. kr. nú. Til þess að bera uppi þennan kostnað þurfa búin að vera tiltölulega stór. Þróunin mun líka verða sú, að þau býli, sem minnsta möguleika hafa, fari í auðn, en betri býlin stækka með auknum umbótum. Vafalaust eru skiptar skoðanir um, hvort þessi þróun er æskileg, en þannig mun þetta verða.

Þetta þýðir það, að eigi er gerlegt fyrir aðra að reka búskap en þá, sem eiga verulegar eignir. Eigi er hægt að fá að láni allt það fé, sem þarf til búrekstrar, og þó að slíkt fjármagn væri fáanlegt, gæti enginn greitt vexti af öllu því fé. Þeir, sem eigi hafa aðstöðu til að afla sér einhvers eigin fjármagns, geta því ekki rekið búskap til lengdar. Bændur verða því í framtíðinni efnamenn — eða þeir geta alls ekki búið. Gera má ráð fyrir, að feður láti syni hafa fasteign, með vægu verði til að gera þeim búrekstur gerlegan, en þrátt fyrir það eru miklar eignir eftir. Í mörgum tilfellum geta foreldrar eytt elliárum hjá börnum sínum, og er það oft bezt fyrir báða aðila. Roskinn bóndi, sem flytur í kaupstað, slítur rætur, sem illa gengur að græða. Aðstaða aldraðra bænda er og verður því önnur en launamanna í kaupstað, sem hvorki hafa þurft eða getað safnað eignum og fá eigi að vinna nema að ákveðnu aldursmarki. Bændur vantar yfirleitt rekstrarfé, meðan þeir stunda búskap og þó aldrei eins tilfinnanlega og fyrstu búskaparárin. Það kostar mest að vera fátækur. Ég er þess vegna á móti því að lögþvinga bændur — 20 ára og eldri — til að greiða 25–50 þús. kr. árlega í lífeyrissjóð og endurgreiða þeim síðan hluta af því fé, eftir að þeir eru orðnir 67 ára, ef þeir eru þá ekki dauðir áður, því að mikið af því fé fer í kostnað og gengistöp. Þetta er að taka fé af bændum, þegar þeir mega eigi missa það og endurgreiða þeim hluta þess, þegar þeir þurfa þess síður með eða alls ekki.

Fyrsta aflaféð er mikilsverðast. Orkan er þá mest til að nýta það og vaxtatíminn lengstur. Bændur fara fæstir illa með fé sitt. Geri þeir það reka þeir búskap tæpast lengi. Ég hygg því, að varðveizla bænda sjálfra á eigin fé verði eigi lakari, hvað snertir vexti og verðgildi, en þó að það sé geymt ógengistryggt í einhverjum bankasjóði. Meðalbúið þarf nú að greiða 33 þús. kr., því að ég tek ekki til greina, að neytendur greiði neitt, því að það væri ekki hægt að láta þá greiða neitt. Sumt af vörunum er flutt út, og hitt er selt svo dýrt, að það væri óseljanlegt dýrara. Þess vegna kemur það ekki til greina. Það er bara rugl í mönnum, sem ekki vilja skilja hlutina. Greiði bóndi árlega 35 þús. kr. í 40 ár — og það er líklegt — og sé reiknað með 8% vöxtum og vaxtavöxtum, nemur sú fjárhæð í lok 40 ára tímabilsins 5 millj. 740 þús. kr. Ég endurtek 5 millj. 740 þús. kr., og flestir bændur þurfa að greiða meira en 8% vegna viðskiptavíxla og verzlunarviðskipta — við verðum að greiða 10%. 8% vextir af þeirri fjárhæð eru 459 þús. kr. Hámarkslífeyrir slíks bónda úr sjóðnum mundi með óbreyttu verðlagi vera 180–200 þús. kr. Ætli margir vildu ganga að þeim kjörum að afhenda ákveðnum aðila 5 millj. 740 þús. kr., þegar þeir eru 67 ára gamlir gegn því að fá greiddar 200 þús. kr. á ári? Ég tek þennan útreikning eftir logaritma og vaxtareikningi. Þeir mundu fá 200 þús. kr. á ári þann tíma, sem þeir ættu eftir ólifað. Ætli landbrh. vildi t. d. gera slíkan samning við mig? Ég mundi fúslega taka við þeirri fjárhæð, 5 millj. 740 þús. kr., gegn slíkri endurgreiðslu. Þetta eru þau kjör, sem bændum eru boðin samkv. þessu frv.

Vera má, að þessi kjör séu hagkvæm fyrir eyðsluseggi og ráðleysingja, en þeir hafa litið með búskap að gera. Ég get a. m. k. eigi verið með því að lögþvinga bændur til að ganga að kjörum sem þessum. Ég skal taka það fram, að meiri háttar bændur eiga að greiða 50% álag, þ. e. fyrst grunnkaupið, sem er um 300 þús. kr. fyrir mann og konu, síðan 10% í viðbót, og fari framleiðsla þeirra upp í 1200 þús. kr., verða þeir að borga 50% í viðbót. Það þýðir, að stórbóndinn verður með núverandi verðlagi — ef við köllum þann stórbónda, sem framleiðir fyrir 1200 þús. kr., það eru bændur eins og við Stefán eða þó heldur minni, — að borga 49 þús. kr. á ári. Þá lagast nú fjárhæðin. Ég reiknaði það líka út á logaritma, að það væri eftir 40 ár með 8% vöxtum og vaxtavöxtum 8 millj. 240 þús. kr. Vextir af því eru með 8% vöxtum 660 þús. kr. og lífeyri á bóndinn að fá 210–220 þús. kr. Hann fær ekki nema hluta endurgreiddan, því að þegar hann er kominn í vissa tryggingarhæð, þá er tryggingin orðin hjá honum full 70%. Svo bætast við ellilaunin, þannig að þá hefur viðkomandi aðili meira kaup en hann hafði meðan hann bjó og þurfti að koma upp börnunum sínum og gera umbætur á jörð sinni — þá hefur kaup hans hækkað, hann er kominn yfir 100% með hinum almennu tryggingum. Þetta kalla ég fíflsku. Bæði er maðurinn rændur og þar að auki á hann að hafa mestar tekjur, þegar hann er orðinn gamall og hefur lítið við peningana að gera. Kannske landbrh. og þessir ágætu menn, sem sömdu frv., vildu semja við mig, og borga mér 8 millj. 240 þús. kr., þegar ég væri 67 ára. Ég skal svo borga þeim, þótt það væri 300 þús. kr. í vexti á ári eða í ellilaun þangað til þeir deyja, eftir að þeir eru 67 ára. Þetta eru viðskiptin, sem okkur eru boðin — bændunum.

Að vera að tala um, að neytendur eigi að borga ellilífeyri fyrir okkur, er bara fíflska. Ætli þetta fólk hafi ekki nóg að gera með að hugsa um eigin lífeyri? Það getur alveg eins komið til okkar og sagt: Þið eigið, góðu bændur, að borga lífeyrinn okkar, af því að við étum kjötið ykkar. Þetta er hrein fíflska. Svona tryggingarfrv. þekkist ekki í allri veröldinni. Það eru hvergi sértryggingar fyrir bændur nema í Finnlandi helzt. Þeir eru tryggðir eins og aðrir menn í Noregi og Svíþjóð. Atvinnurekendur eru ekki skyldir til að tryggja sig í Svíþjóð. Það eru sömu tryggingar fyrir alla í Danmörku. Finnar leggja iðgjöldin á jarðirnar, og ríkið leggur helming á móti. Nei, það er hvergi nokkurs staðar svona kjánaháttur á ferðinni nema á landi voru — Íslandi.

Í 7. gr. frv. eru ákvæði um, að hjón eigi að greiða 4% af áætluðu grunnkaupi og neytendur 6% á móti, sem er hvorki sanngjarnt né framkvæmanlegt. Sé um meira en meðalbústærð að ræða, getur iðgjaldið hækkað um 50% til viðbótar. Ósamræmi er í hæð iðgjalda og endurgreiðslu lífeyris milli einstaklinga. Þar er um eignarán eða lögverndaðan þjófnað að ræða. Bændur, sem búa með konu í óvígðri sambúð, eiga að greiða jafnt og kvæntir. Deilur geta af því risið í vissum tilfellum. Það gefur auga leið, að það þarf að sanna, að maðurinn sofi hjá konunni til að geta látið hann borga þetta. Iðgjöld á að innheimta af búvöruverði bænda, og reiknar stjórn sjóðsins út, hve mörg prósent eigi að taka af búvörunni. Iðgjaldaákvæði hliðstæð þessu eru hvergi til í heiminum eins og ég sagði ykkur áðan. Á það skal einnig bent, að margir leggja inn búfjárafurðir, sem eigi eru sjóðfélagar. Þeirra meðal eru unglingar innan 20 ára, börn, skepnueigendur í kauptúnum og lausamenn. Á að greiða þessum aðilum annað og hærra verð fyrir innlendar afurðir, eða á að láta þá greiða iðgjaldaprósentur eins og aðra? Eigi þeir, sem ekki eru sjóðfélagar, að fá hærra verð, er opin leið fyrir bændur að leggja afurðir inn hjá börnum sínum og sleppa þannig með lægri iðgjöld eða jafnvel losna alveg við þau.

Það er ofurhlægilegt skilningsleysi hér í 7. gr. með leyfi hæstv. forseta. Það er smáliður, og þar stendur svo:

„Í reglugerð skal ákveða iðgjöld og framlög af tekjum af eggjatöku, fuglatekju, dún, selveiði, grásleppuveiði, lax- og silungsveiði og reka. Skal við það miðað, að iðgjald samkv. 1. mgr. nemi 4%, en framlag samkv. 3. mgr. 6% af þeim hluta þessara tekna, sem talinn er vinnutekjur. Aldrei skal þó reikna iðgjald af veiðileigu.“

Ég hef nú skrifað „endileysa“ við þessa gr. Hvernig í ósköpunum á að innheimta þetta 6% framlag af eggjatekju og fuglatekju? Hver á að borga það? Og dúnninn er seldur út, og selskinnin eru seld út. Hver á að borga þessi 6%? Það metur enginn þetta hér innanlands. Grásleppuveiði og grásleppuhrognin eru seld út. Laxinn er veiddur aðallega af sportveiðimönnum, og það er nú það skoplegasta, en það má ekki reikna prósentur af veiðileigunni, heldur af laxinum. Hvernig í ósköpunum á nú að fara að framkvæma svona hlut?

Og svo lítur út samkv. frv., að bændum sé alveg geysileg þægð í að fá að greiða þessi iðgjöld — að fá að láta féfletta sig. „Iðgjöld af launþegum, sem eru sjóðfélagar samkv. 3. og 2. mgr., skulu vera 10% af umsömdum föstum launum með þeim takmörkunum, sem nefndar eru í 2. mgr. þessarar gr. Teljast 4% vera iðgjöld sjóðfélaga, en 6% framlag vinnuveitanda.“ Það er strangt fram tekið, að ekki megi vera meira en 10% af þessu drasli. Þeir halda, að okkur sé sérstök þægð í að losna við aurana í þennan afbragðssjóð, sem margir fá ekkert úr, því að þeir verða auðvitað steindauðir — því að þegar þeir eru skattlagðir svona manntetrin, þá hafa þeir ekki einu sinni að éta, þangað til þeir eru 67 ára. Já, þetta er nú svona táknrænt um, hve skilningurinn er mikill hér á öllu. Ég veit eiginlega ekki, hvernig á að innheimta þetta. Hvaða neytendur eru þarna öðrum megin, sem eiga að borga 6%? Ég sé það ekki — af selskinnum og grásleppuhrognum og öðru slíku. Það er margt snjallt í þessu frv.

Bændur eru yfirleitt ekki sértryggðir, en búa við sömu almannatryggingar og aðrar stéttir. Samkv. þeim upplýsingum, sem frv.-nefndin aflaði sér, er helzt um sértryggingar að ræða í Finnlandi. Þar er iðgjaldið miðað við stærð jarða, og ríkið greiðir 50% af því. Bændur greiða sín iðgjöld beint, eins og er siður góðra manna. Slík trygging er annars eðlis en að láta einhverja sjóðsstjórn ákveða, hve mörg prósent á að taka af innlegginu. Tæpast verða iðgjöldin vanreiknuð á þann hátt. Gert er ráð fyrir að taka ákveðna prósentutölu af heildarinnleggi hvers bónda, en skila svo aftur, ef of mikið er tekið. Ekki er vinnusparnaður í slíku. Svona kúnstir þekkjast hvergi. Það á fyrst að taka af allri upphæðinni, síðan á að reikna þetta út sennilega niðri í Búnaðarbanka, síðan á að skila nokkrum krónum aftur til þeirra, sem hafa borgað meira en 50 þús. — þ. e. til þeirra, sem leggja inn fyrir meira en 1200 þús., ef einhverjir gera það. Þá á að skila bændunum aftur af þeim prósentum, en ekki er minnzt á það, hvað á að gera við þessa menn, sem ég taldi upp áðan, sem ekki eru sjóðfélagar, en leggja inn mikið af afurðum.

Það virðist vera sérstök árátta hjá okkur að skattleggja alla framleiðslu, m. a. til ótal sjóða. Mest hefur þetta bitnað á sjávarútvegi, en nú virðist eiga að fara að leggja rækt við landbúnaðinn. Þetta stuðlar m. a. að því, að atvinnuvegirnir bera sig illa, og þá er gengið lækkað, og verðgildi sjóðanna rýrnar. Réttara væri að stjórna þannig, að fólkið gæti treyst verðgildi peninga, m. a. með því að hlaða eigi skatt á skatt ofan. Ef þannig hefði verið stjórnað hér, væri um engan rekstrarfjárskort að ræða, því að allir vildu sparifé eiga. Hér hefur verið rekin Bakkabræðrapólitík í fjármálum, og á því virðist engin breyting væntanleg. Ég vil láta þess getið, að ég er á engan hátt að deila á þann mann, sem aðallega samdi frv. Fyrir hann hefur verið lagt, hvaða leiðir bæri að fara. Enginn getur bakað gott brauð úr skemmdu mjöli.

Rétt er að geta þess, að bændur, sem orðnir eru 70 ára nú og hættir búskap, en hafa búið 1967, eiga að fá nokkrar krónur í lífeyri, en sjóðurinn á að hefja greiðslur til fulls í árslok 1985, en ekki nú um áramótin, eins og hv. frsm. sagði. Þar til í árslok 1985 eiga stofnlánadeild Búnaðarbanka og ríkissjóður að greiða þann litla lífeyri, sem greiddur verður. Það eru betlipeningarnir, sem öllum myndarbændum, sem hafa búið vel, þykir skömm að að taka á móti og þurfa þess ekki, því að ég hef ekki heyrt einn einasta aldraðan bónda vera að væla um það, að hann hefði ekki nóg að éta og kæmist ekki vel af. Og þeir hafa sagt mér, Akureyringarnir, að það sé ekki eins gott að selja neinum eins og eyfirzkum bændum. Þeir borgi íbúðirnar út, þegar þeir komi til Akureyrar. Bezt er auðvitað fyrir þá að vera heima hjá sér hjá börnum sínum, því að þar líður þeim bezt og þar gera þeir mest gagn. Bændur, sem hafa búið til sjötugs, eru ekki að flana af kjánaskap í kaupstað. Þeir geta séð fyrir sér án þess að fá þessa eymdarpeninga úr stofnlánadeildinni, sem hefur raunar hingað til lifað á okkur og ríkissjóðnum, sem á einnig nóg með sig. Nei, það er furðulegt, ef á að fara að borga þeim 1– 2 þús. kr. og einhver á að trítla með þessa góðgerðarfjárhæð á milli þeirra. Ég blæs nú á svona lagað. Þessar greiðslur nema lægri fjárhæð en bændur greiða á sama tíma í iðgjöld.

Iðgjöldin fram að 1985 eru ekki nema brot af því, sem á að kroppa af þeim bændum, sem eru að basla við búskapinn, en svo á að hlaupa með þessa aura til bændanna, sem eru hættir að búa og hafa nóga peninga, en láta hina borga þá, sem eru í erfiðleikum fjárhagslega, eins og allir eru, þegar þeir byrja búskap. Ég get sagt ykkur það, að ég fann aldrei eins til skorts á fjármunum og fyrstu búskaparárin. En ég kunni að ávaxta þær krónur, sem ég eignaðist, og hafði 50% upp úr þeim. Ég ávaxtaði þær þannig. Ég komst létt af með ærnar og setti lömbin á. Fyrir mína drengi þarf ég engan lífeyrissjóð til þess að taka við aurunum, sem þeir eignast, ef þeir byrja búskap, og til að verðfella þá og gera þá verðlausa. Frv. er í raun og veru tóm vitleysa, eins og ég sagði manninum, sem samdi það. Það er eins og með nýju fötin keisarans, en það þorir enginn að segja það. Það var barnið — það var óvitinn, sem sagði, að keisarinn væri ber, af því að barnið var hreinskilið.

Þessar greiðslur nema lægri fjárhæð en bændur greiða á sama tíma í iðgjöld. Mun þetta gert til samræmis við hliðstæð ákvæði, sem samið var um við verkalýðsfélögin. Ég hef rætt við mann, sem annaðist útborganir samkv. nefndum samningi. Þetta var alþingismaður; þeir eru greindir — margir. Taldi hann greiðslurnar svo lágar, að litlu skipti — og fyrirkomulagið óhagkvæmt. Eigi er ólíklegt, að hið margþætta skraf um lífeyrissjóði launafólks hafi haft einhver áhrif á fulltrúa bænda, Staðreynd er, að vitleysa er meira smitandi en vizka, því að sé einn maður hálfvitlaus, þá gæti hann gert allt vitlaust í kringum sig.

Hér á landi eru starfræktir um 70 lífeyrissjóðir. Annars eru þeir nú flestir bara til að nafninu. Sumir hafa lífeyri frá a. m. k. þremur sjóðum og hafa í vissum tilfellum meiri fjárráð en þeir hafa áður haft á lífsleiðinni. Tryggingakerfið er að verða tvöfalt eða þrefalt. Þörf er á að skipuleggja þessi mál betur. Öfugþróun er að skattleggja ungt fólk svo, meðan það er að skapa heimili og ala upp börn sín, að það sé í stöðugum efnahagsörðugleikum, sem óhjákvæmilega hafa lamandi áhrif á athafnir þess og sálarlíf og greiða síðan þessu fólki, ef það er ódautt 67 ára, margfaldan lífeyri og í sumum tilfellum meira en þörf er fyrir eða ástæða er til.

Eigi ber að skilja orð mín svo, að ég sé á móti öllum lífeyrissjóðum, en hófs skal gætt í hverjum leik. Ég álít almannatryggingar okkar réttmætar, þó að vafasamt sé að láta unglinga á námsárum greiða iðgjöld. Ég get einnig verið með því, að sett verði sérstök löggjöf um Lífeyrissjóð bænda. Ég álít hins vegar, að það ætti að vera frjáls trygging. Þeir tryggðu sig, sem vildu og þegar þeir vildu, þannig að yngri bændur þyrftu eigi að greiða iðgjöld, meðan fjárhagur þeirra væri þröngur. Þeir, sem vildu tryggja sig, greiddu sín iðgjöld í peningum, en ríkið greiddi hluta iðgjalda svipað og er hjá Finnum. Enginn bóndi hefði ástæðu til að vera á móti slíkri löggjöf, því að þar er engri þvingun beitt. Lífeyrissjóður fyrir bændur, eins og nefnt frv. gerir ráð fyrir, mun gera marga fátæka en engan ríkan. Ég er ráðinn í að vinna á móti þessu máli með öllum ráðum, sem ég get beitt, meðan frv. er í þessari mynd, og þó að það komist í gegn, skal ég á hverju þingi, sem ég sit, vinna að því, að því verði breytt. En ég vona það, að ríkisstj. sjái að sér. Ég skal skila því til bændanna, hvernig á að féfletta þá á þennan hátt. Ég ætla að reikna út fyrir þá, hvað þeir borga samkv. þessari blessaðri vaxtatölu. Og bændur eru engir skynskiptingar. Þeir hafa ekki óskað eftir þessu. Þetta var fundið upp á stéttarsambandsfundi, og forsendurnar voru þær, sem ég er búinn að segja, þ. e. að ná þessu tillagi frá stofnlánadeildinni, sem þeir hafa alltaf séð ofsjónum yfir — ná því, fá framlag á móti og hafa þetta svo sér til gamans í ellinni. En það er bara allt annað, sem er verið að gera. Það á að taka um 11% af kaupi bóndans og konunnar og meira af stórbændunum, þriðjungi meira. Þetta gerir 4–5%.

Við skulum vara okkur á þessari leið, sem verið er að fara í sjávarútvegsmálunum. Það er hlaðið skatti ofan á skatt. Það er allt annað að borga af brúttótekjum en nettótekjum, og þeir verða að borga, sem ef til vill hafa engar nettótekjur. Og það er verið að leika þennan sama leik nú við landbúnaðinn. Það hafa verið tekin 2% — það þýðir 5% af kaupi bóndans — í stofnlánadeildina, bændahöllina, stéttarsambandið og Bjargráðasjóð. Þetta fer þangað. Síðan á að bæta þarna svona 3–4% við, og þá erum við komnir upp í það, að við erum farnir að taka svona 16% alls af kaupi hvers bónda. Það er ráðgert að lækka framlagið í stofnlánadeildinni. Það á fyrst að gera 1976, og það á ekki að afnema það til fulls fyrr en 1990. Við verðum þá að borga tvöfalt, þannig að þetta er ekkert nema leikaraskapur, enda þarf stofnlánadeildin enn þá þess með. En að vera sífellt að bæta skatti ofan á skatt á rekstrarvörur, á framleiðsluvörur atvinnuveganna, jafnvel þó að þær séu fluttar út, það er hlutur, sem engin þjóð gerir, og þetta hefur átt meiri þátt í að eyðileggja verðgildi okkar peninga en nokkurn grunar.

Allir lífeyrissjóðir eru í raun og veru ekkert nema skrípaleikur, á meðan alltaf er verið að fella gengið. Það er fjórum sinnum búið að fella krónuna á þessum 10 síðustu árum, og þetta er svo barnalegt að ætla að fara að taka fleiri tugi þúsunda á ári hverju af bændum, sem berjast í bökkum við að geta rekið búið sitt. Hvað haldið þið, að menn skaðist mikið á rekstrarfjárskortinum í byrjun búskapar? Þeir geta t. d. ekki keypt tæki, sem þeir þurfa. Það eru enn þá margir bændur, sem ekki hafa efni á að kaupa áburðardreifara, þannig að þeir geta ekki dreift húsdýraáburðinum sómasamlega um túnin. Áburðardreifari kostar ekki nema á milli 60–70 þús. kr. — rúmlega eins eða tveggja ára iðgjald. Það nær engri átt að taka peningana af þessum mönnum, geyma þá í einhverjum sjóði og verðfeila þá. Ég held, að þetta sé ekkert vandlega unnið frv. og væri rétt að athuga það betur.