15.12.1970
Neðri deild: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

147. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Háskóli Íslands er í hröðum vexti um þessar mundir, stúdentum fjölgar ört, og munu allir sammála um nauðsyn þess að gefa þeim kost á fjölbreyttara námi við skólann en þeir hafa notið hingað til. Í þessum anda voru 21. ágúst s. l. gefin út brbl. til þess að koma á kennslu í almennum þjóðfélagsfræðum við Háskólann. Þessi brbl. hafa nú verið lögð fyrir hæstv. Alþ. til staðfestingar.

Það kemur fram í brbl., að undirbúningur þessa máls, sem mun efnislega hafa verið allmikill hjá Háskólanum, hefur orðið næsta óvenjulegur, þegar kom til framkvæmda. Umrædd kennsla var sett á stofn, en ekki vildi háskólaráð, að þetta yrði sjálfstæð deild, og ekki vildi Háskólinn heldur, að þetta yrði kennsla innan þeirra deilda, sem fyrir voru. Þess vegna var búið til fyrirbrigði, sem heitir „námsbraut“, sem er hvorki deild né ekki deild í Háskólanum, og með sérstökum ákvæðum sett sérstök stjórn yfir þá námsbraut.

Menntmn. hefur tekið þetta frv. til athugunar, og rektor Háskólans hefur mætt á fundi n. um það.

Voru bæði n. og rektor sammála um, að þessi skipan væri óeðlileg. Hins vegar er þetta þegar orðið, og n. sér ekki ástæðu til þess að breyta því með einu pennastriki algerlega, en hefur valið þann kost að fylgja till. rektors um að leggja til, að bætt verði í það, sem verður 41. gr. háskólalaganna, ef þetta frv. verður samþ., málsgr., sem hljóðar svo:

„Heimilt er, að námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum verði sérstök þjóðfélagsfræðadeild eftir ákvörðun menntmrh. að fengnum till. háskólaráðs og eftir umsögn rektors og háskólaritara.“ Fer þá um stjórn þeirrar deildar eftir almennum ákvæðum þessara laga, þ. e. háskólalaganna, þó með hliðsjón af 1. málsgr. 42. gr. Vil ég því láta í ljós þá von, sem ég hygg, að menntmn. styðji öll, að það verði unnt að gera þjóðfélagsfræðakennsluna — eða námsbrautina, eins og hún heitir að lögum nú — að venjulegri háskóladeild. Það er trú okkar, að hlutverk þessarar kennslu sé mikið, enda er það efni, sem hún á að spanna yfir, ærið mikilvægt og fjölbreytilegt.

Þá kom í ljós við athugun málsins, að nauðsynlegt var talið af Háskólanum að setja nokkur viðbótarákvæði, og eru þau í brtt. n. á þskj. 249. Brtt. er aðeins ein við 1. gr., en í þessari einu till. felst það, sem væntanlega að frv, samþykktu verða 41., 42., 43. og 44. gr. háskólalaganna, sem verið er að breyta. Þarna er um framkvæmdaratriði að ræða, sem ég sé ekki ástæðu til þess að fara ítarlegar út í.

Með þessum brtt. eða að þeim samþykktum mælir menntmn. einróma með samþykkt frv., og ég vil taka fram, að á nál. á þskj. 248 vantar nafn Tómasar Árnasonar, sem er sammála öðrum nm. um málið.

Háskólinn hefur svo látið í ljós eindregna ósk um það, að mál þetta verði afgreitt nú fyrir jólin, og telur, að ekki sé grundvöllur fyrir því að ganga frá ráðningu prófessors í embætti, sem þegar er búið að auglýsa og tveir umsækjendur munu vera um — né heldur sé grundvöllur undir útgáfu nauðsynlegra reglugerða — nema frv. þetta nái staðfestingu með þeim breytingum, sem menntmn. leggur til að ráði rektors Háskólans.