27.10.1970
Neðri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, fluttum við nokkrir framsóknarmenn hér í þessari d. frv. um breyt. á framleiðnisjóði landbúnaðarins á síðasta ári. Eins og fram hefur komið, þá skemmdist og eyðilagðist mikið fóður víða um landið sumarið 1969 af völdum óþurrka. Vegna þessarar reynslu, þessara áfalla, sem höfðu orðið í landbúnaði, lögðum við til, að frv. eða l. yrði breytt á þann hátt, að sjóðurinn sinnti fyrst og fremst því verkefni að stuðla að tilraunum um fóðuröflun og heyverkun og það sæti fyrir öðrum verkefnum. Í 1. gr. l. segir svo, með leyfi forseta:

„Hlutverk sjóðsins skal vera að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði og atvinnurekstrar á bújörðum.“

Okkur fannst, að það væri einmitt í samræmi við þessa gr., að þessu aðkallandi verkefni væri sinnt meir en hefði verið hingað til. Þetta frv. okkar náði ekki fram að ganga. Eins og hæstv. landbrh. gat um, féll framlagið til framleiðnisjóðs úr ríkissjóði niður á árinu sem leið. Það hafði verið 10 millj. á ári og sjóðurinn var samtals í raun og veru aldrei nema 30 millj. En nú hefur það skeð, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fram frv. um breyt. á l. þess efnis, að það eigi að leggja — ekki í ár, ekki fyrr en á árinu 1972 — 10 millj. kr. í framleiðnisjóð, þó að ástæðurnar í landbúnaði séu þannig, að ég efast um, að þær hafi verið nokkurn tíma verri. Ég hefði nú viljað vænta þess, að hæstv. landbrh. tæki með meiri skörungsskap á þessum málum, eins og nú horfir í landbúnaðinum. Undir hans stjórn hefur það gerzt, að tekjubilið hefur alltaf breikkað. Það hefur aldrei verið meira en síðustu 3 árin á milli bændanna annars vegar og annarra stétta í þjóðfélaginu hins vegar.

Nú horfa bændur víða fram á það að þurfa að skerða bústofn sinn stórkostlega eða að öðrum kosti að kaupa mikið kjarnfóður til þess að fleyta fram búum sínum. Samt sem áður er tekið með þeim skörungsskap á þessum málum, að þó að framlagið til framleiðnisjóðs hafi fallið niður á síðasta ári, þá á ekki einu sinni að taka það upp í fjárlög nú, ekki fyrr en 1972, þó að verkefnin séu það mikil, að þörf væri á — ja, ég verð að segja tugum millj. í þennan sjóð miðað við þau verkefni, sem fyrir liggja, og hæstv. ráðh. gat um sum af þeim, sem ég vil engan veginn gera lítið úr — það er eitthvað annað, t. d. með sláturhúsin. Það er mjög brýnt, að þau séu betur búin og þau séu bæði endurnýjuð og jafnvel byggð upp sum alveg. En þrátt fyrir það, hvernig ástatt er nú í landbúnaðinum, þá er tekið svona á þessum málum. Við höfum nú endurflutt þetta frv. okkar, við í d., um framleiðnisjóð, og munum við koma með brtt. í þeirri n., sem þetta frv. mun væntanlega fara í, í þá átt, sem við höfum lagt fram hér fyrir hv. d. Og ég verð að segja það, að ég vil ekki trúa því eins og ástatt er, að d. og hæstv. ríkisstj. fallist ekki á að veita fjármagn í framleiðnisjóð nú á næsta ári og það meira en 10 millj. vegna þeirra verkefna, sem eru það aðkallandi að leysa nú á næstunni, að það getur ráðið því, hvort sumar sveitir verða í byggð á næstu árum eða ekki.

Ég sé ekki ástæðu til nú að ræða þetta frv. Ég mun gera það við annað tækifæri, en ég vildi, að það kæmi strax fram við þessa umr., að ég mun og við, sem eigum sæti í hv. landbn., koma með brtt. við þetta frv. í þá átt, sem okkar frv., sem hér liggur fyrir, segir til um.