08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta virðist nú ekki vera margbrotið mál, þegar litið er á frv. Það er aðeins ein efnisgr., sem segir, að á árunum 1972–1976 skuli greiða 10 millj. kr. á ári í framleiðnisjóð landbúnaðarins.

Eins og hv. frsm. meiri hl. landbn. greindi frá nú rétt áðan, þá var þessi sjóður stofnaður árið 1966, og þá veitt til hans það ár 20 millj. kr. og næstu 3 árin, 1967, 1968 og 1969 10 millj. kr. á ári. Tildrögin að þessari sjóðsstofnun voru annars þau, að þetta haust var samið milli ríkisstj. annars vegar og fulltrúa bænda í verðlagsmálum hins vegar um nokkur tiltekin atriði, sem ríkisstj. tók að sér að koma í framkvæmd, og stofnun framleiðnisjóðs var eitt af þessum atriðum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þessi sjóður hefði verið stofnaður sem eins konar mótvægi á móti framlögum, sem þá höfðu verið látin af hendi rakna af ríkisins hálfu til hagræðingar í vissum iðnaði við sjóinn. Ég skal ekki mótmæla þessu út af fyrir sig, en mér finnst ástæða til að láta það koma skýrt fram og leggja mikla áherzlu á það, að þörfin fyrir þessa fjármuni í landbúnaðinum var þá fyrir hendi og mjög brýn. Í aths. ríkisstj. með þessu frv. er lögð mikil áherzla á þetta atriði, hversu mörg og þýðingarmikil verkefni séu raunverulega fyrir hendi fyrir þennan sjóð. Megináherzlan er þar lögð á sláturhúsamálin, en það er bent á ýmis fleiri verkefni í aths. Það er bent á tankvæðingu mjólkurbúanna og tiltekin rannsóknarverkefni, og það er skýrt frá því, að það hafi verið eytt nokkru fé í lánaformi til endurskipulagningar ræktunarsambanda í einum landshluta og einnig til þess að greiða fyrir skipulagningu og koma upp djúpfrystistöðvum vegna kúasæðinga. Öll grg. eða réttara sagt aths. bera það glögglega með sér, að ríkisstj. viðurkennir í fyllsta máta nauðsyn á því að efla þennan sjóð. Og undir það getum við vissulega tekið, sem höfum skilað nál. minni hl. um þetta mál. Til viðbótar þeim verkefnum, sem talin eru í aths. ríkisstj. nefni ég bara eitt, sérstakar ráðstafanir til að tryggja öflun innlends fóðurs, sem við viljum leggja mjög mikla áherzlu á, og kem ég aðeins að því síðar.

Það er ekki hægt annað en vekja athygli á því mikla ósamræmi, sem er annars vegar í frv. og hins vegar í aths., sem frv. fylgja. Það er ómögulegt að hugsa sér, að þetta hvort tveggja sé gert af sama aðila. Eins og ég sagði áðan, er í aths. lögð mjög þung áherzla á nauðsyn þess að efla starfsemi sjóðsins, á mikilvægi þeirra þátta, sem hann á að styðja og talin upp ýmis atriði: tankvæðing í sambandi við mjólkurflutninga, tæknibúnaður sláturhúsa í sambandi við nýjar vinnuaðferðir við slátrun og rannsókn á bættri vinnutilhögun í gripahúsum. Þetta þrennt er talið hér sérstaklega upp, og það er skýrt tekið fram í aths., að aðgerðir á þessum sviðum séu á algeru frumstigi. Þá er það rakið í aths., hversu sjóðurinn hafi starfað, að hann hafi haft nokkurt fé til starfsemi sinnar á árinu 1970. En síðan er það áréttað sterklega, að það þurfi að veita áframhaldandi fjármuni til sjóðsins, þannig að hann geti haldið áfram óslitið að starfa og sagt, að nauðsynlegt sé talið á næstu 5 árum að leggja honum 10 millj. kr. á ári. Frv. er flutt á fyrri hluta þessa þings eða árið 1970, svo að þar fer ekkert á milli mála, þegar þar er talað um næstu 5 ár, þá hljóta það að vera árin 1971–1975. Þetta kemur alveg heim og saman við það, sem n. sérstaklega skipuð til þess að gera till. um endurbyggingu sláturhúsanna leggur til. Þetta kemur alveg heim og saman við hennar áætlanir. Hún er skipuð með þátttöku frá rn. En þrátt fyrir þessa uppsetningu á aths. er frvgr., eins og þegar hefur verið vikið að, á þá lund, að á árunum 1972–1976 skuli greiddar úr ríkissjóði til framleiðnisjóðs 50 millj. kr., 10 millj. hvert ár. En það er látið eins og árið 1971 sé ekki til.

Nú virðist það liggja í augum uppi, að hafi 10 millj. kr. framlag verið gott og gilt á árunum 1967, þá sé það nú orðið frekar smá tala og gildi hennar hafi mjög rýrnað, því að frá því hafa heildarútgjöld fjárlaga allt að því fjórfaldazt og ef maður einnig litur á það, að tillögur sláturhúsanefndar um það sérstaka, afmarkaða og stóra verksvið, sem þar um ræðir, eru miðaðar við verðlag í ársbyrjun 1970, þá kemur það sama upp, að það má heita ólíklegt svona almennt skoðað, að þarna sé um fullnægjandi fyrirgreiðslu að ræða.

Áður á þessu þingi fluttum við 5 þm., Stefán Valgeirsson, sem var 1. flm., ég, Ágúst Þorvaldsson, Magnús H. Gíslason og Sigurvin Einarsson, frv. um breytingu á lögunum um framleiðnisjóð og í því frv. leggjum við til þrjár breytingar á l. Í fyrsta lagi, að tilraunir um innlenda fóðuröflun og heyverkun skuli sitja fyrir öðrum verkefnum um fyrirgreiðslu, án þess þó að tiltaka nánar, hversu miklu fé skuli til þeirra hluta varið. Í öðru lagi er sú breyting, að í stað 1/3, sem nú er leyfilegt að verja til beinna framlaga, komi 3/5 og í þriðja lagi leggjum við til, að ríkissjóður greiði framlag til framleiðnisjóðs árlega og nefnum ákveðna lágmarksupphæð, 25 millj. kr. á ári. Og hér fylgir það með, að við leggjum til, að það sé leitað álits bændasamtakanna og það liggi jafnan fyrir, þegar þessi framlög eru ákveðin hverju sinni. Við í minni hl. landbn. höfum svo leyft okkur að taka upp efni þessa frv, sem brtt. við stjfrv. það, sem hér liggur fyrir.

Ég skal með örfáum orðum gera nánari grein fyrir þessum atriðum, sem í brtt. felast. Það er þá fyrst um tilraunir vegna innlendrar fóðuröflunar og heyverkunar, um að veita þeim forgang. Við, flm. brtt., litum svo á, eins og komið hefur fram hér á þingi og víðar í málflutningi okkar, að hér sé ákaflega alvarlegt mál á ferðum. Grasbresturinn, sem hefur stafað af gróðureyðingu ræktarlanda, hefur í sumum héruðum verið viðvarandi meira og minna í áratug og hafði gert vart við sig áður. Og við litum einnig mjög alvarlegum augum það gífurlega tjón, sem öðru hverju verður vegna óþurrka, vegna þess að landbúnaðurinn hefur aldrei verið undir það búinn að mæta slíku árferði, þrátt fyrir það þó að þekkt séu úrræði til þess að bjarga heyi í hvaða tíð sem er svo að segja. Við álítum, að hér þurfi að gera nýtt átak. Við álítum, að það skorti fjármagn á mörgum sviðum rannsókna og tilrauna og erum ekki sammála því, sem hér kom fram hjá hæstv. ráðh., þegar hann svaraði fsp. á dögunum, að nú þegar sé nægilegu fjármagni veitt til rannsóknarstarfsemi vegna kalsins og í sambandi við önnur atriði, sem að fóðuröfluninni lúta. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé ekki nægjanlegt fjármagn fyrir hendi til þessara hluta, og við álítum, að landbúnaðurinn hafi ekki aðgang að nægilegu fjármagni til þess að byggja sig upp til þess að mæta óþurrkunum með stórauknum möguleikum til votheysgerðar. Einnig teljum við, að það þurfi að veita meira framlag en gert hefur verið til stuðnings við grænfóðurrækt og endurvinnslu kalins lands, þó að þau atriði komi væntanlega meira inn á svið annarrar löggjafar en þeirrar, sem hér er fjallað um, þ. e. lög, sem varða ræktunina sjálfa eða framkvæmd hennar.

Þá vil ég minnast á breytt hlutföll varðandi beinu framlögin. Í skýrslu svokallaðrar sláturhúsanefndar er lagt til að auka mikið hlutfall framlaganna í því fé, sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar. Ef fara á eftir þeim tillögum, sem þar koma fram og sem einnig eru tillögur þess fulltrúa, sem rn. skipaði í þessa n., því að hún skilaði samhljóða áliti, þá er óhjákvæmilegt að breyta þessu marki. Hvort við höfum hitt þarna alveg á rétt hlutföll, þar sem við nefnum heimildina 3/5, það skal ég ekki fullyrða, en ég er þó sannfærður um, að við höfum a. m. k. ekki farið of hátt í því efni, kannske of lágt miðað við þær hugmyndir, sem fram koma, bara í þessu sérstaka máli, sem vegur mjög þungt í starfsemi sjóðsins á næstunni. Einnig er á það að minna, að við — sbr. 1. liðinn í okkar brtt. — leggjum áherzlu á, að hægt verði að gera auknar rannsóknir og tilraunir á fleiri sviðum en sjóðurinn er enn farinn að styrkja. Og þá gefur það náttúrlega auga leið, að einnig þess vegna þyrftu beinu framlögin að hækka hlutfallslega.

Þá vil ég aðeins víkja að þriðja atriðinu í okkar brtt., það er upphæð framlaganna. Um það er auðvitað hægt að deila endalaust, hver hún skuli vera að krónutölu og hver þörfin er. En eftir tillögum sláturhúsanefndar virðist okkur sem öll fyrirhuguð fjárframlög til sjóðsins geri ekki betur en hrökkva í það eina verkefni og hrökkvi raunar alls ekki. Í frv. er sett þessi upphæð, 10 millj. kr., og það er nánast það, sem þarf samkv. tillögum n., sem eru miðaðar við verðlag í ársbyrjun 1970, eins og ég sagði áðan. Er þá ekkert gert fyrir verðlagsbreytingum, sem orðið hafa síðan. Það kom ákaflega greinilega fram í aths. með frv., hversu verkefnin eru mörg og stór. Og það kom einnig fram hjá hv. frsm. meiri hl., að það verður ekkert afgangs frá aðalverkefninu með þessu móti.

Við leggjum það til að binda ekki framlagið til margra ára. Hins vegar leggjum við til, að það sé tiltekið ákveðið lágmark. Við teljum það óhjákvæmilegt vegna þess, að verkefni sjóðsins eru þannig vaxin eins og þau eru nú hugsuð, að það er óhjákvæmilegt að gera áætlanir til nokkuð langs tíma, þannig að það verður að vera eitthvert lágmark til að miða við. Hins vegar lítum við svo á, að með hliðsjón af verðlagsþróun þeirri, sem verið hefur hér lengi og allra hröðust á síðari árum, þegar þau býsn hafa gerzt, að á örfáum árum fjórfaldast upphæð fjárlaga, sé það nánast tilgangslaust að binda til margra ára framlög sem þessi, sem miðuð eru við ákveðin verkefni, og jafnframt ætlazt til, að hægt sé að brjóta upp á nýjum. Það er eiginlega alveg fráleitt að okkar dómi að binda þau við ákveðna krónutölu til 5 ára.

Ég hef þá með örfáum orðum gert grein fyrir brtt. minni hl., en mér finnst rétt, áður en ég lýk máli mínu að skoða svolítið nánar það, sem hugsað er sem meginverkefni sjóðsins á næstunni, og gera hv. þd. nokkra grein fyrir því, að svo miklu leyti sem ég get, og byggi þá á skýrslu sláturhúsanefndarinnar. Hún var skipuð 21, apríl 1969. Tildrögin að skipan þeirrar n. eru þau, að í framleiðsluráði og á vegum bændasamtakanna og viðar hafa þessi mál mjög verið til umr., og auðvitað hjá sölufélögum og sláturleyfishöfum einnig. Þar kom til athugunar allt í senn, almennt auknar kröfur um fullkominn útbúnað sláturhúsa og endurbætur á þeim, að mörg af sláturhúsum okkar eru orðin nokkuð gömul og þarfnast eðlilegrar endurnýjunar vegna þess, og svo enn það, sem gerðist fyrir nokkrum árum, að Bandaríkjamarkaður lokaðist algerlega fyrir íslenzkt kjöt. Umboðsmenn Bandaríkjamanna hér eða eftirlitsmenn frá þeim töldu, að okkar sláturhús væru óhæfileg. Ég held, að þeir hafi meira fordæmt þar ýmis fyrirkomulagsatriði í sláturhúsunum heldur en vinnuna og vöruna sjálfa. Þeir t. d. lögðu á það höfuðáherzlu, að ef veiki kæmi í ljós annaðhvort í skrokk eða innyflum, þá þyrfti að vera hægt að rekja saman skrokk og innyfli. En aðstaðan í húsunum var þannig, að það var ekki hægt. Dýralæknisskoðun varð ekki framkvæmd með þeim hætti. En þetta ásamt hinu almenna, sem ég nefndi áður, rak á eftir því af mjög miklum þunga, að hafizt væri handa um skipulegar aðgerðir í uppbyggingu sláturhúsa. Þetta var raunverulega ljóst strax við stofnun framleiðnisjóðsins eða a. m. k. á fyrstu árum hans. En sjálf n., sem gerði þær tillögur, sem ég vík að hérna, var skipuð eins og ég sagði áðan 21. apríl 1969.

Það liggur sjálfsagt í augum uppi fyrir alla, sem hugann að því leiða, að sláturhús hér á landi hljóta að vera ákaflega erfið í rekstri. Atvinnuvegurinn er þannig, að framleiðslan kemur öll á sama tíma, einkum að því er varðar kindakjötið, hún kemur öll að haustinu, og sláturhúsin verða ekki rekin nema 1–2 mánuði. Þetta gerir það að verkum, að þegar byggja þarf upp þessi hús frá grunni, þá er ákaflega brýn nauðsyn á því, að byggingarkostnaðurinn verði niðurgreiddur að meira eða minna leyti.

Þessi n. var skipuð þannig, að í henni áttu sæti fulltrúar frá sölusamtökunum, þ. e. a. s. frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem fer með mestan hluta af sölunni, frá landbrn., frá framleiðnisjóðnum sjálfum, frá Stofnlánadeild landbúnaðarins og einn fulltrúi frá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Ég hlýt að leggja áherzlu á það, að með þátttöku landbúnaðarráðuneytisins í þessari nefndarskipan verður að líta svo á, að landbrn. og um leið ríkisstj. vilji taka verulegt mark á störfum n., enda hefur það raunar komið fram, og ég ætla, að það sé ekki vefengt út af fyrir sig. Nú hefur þessi n. skilað áliti fyrir nokkru og hún gerir þar ljósa grein fyrir þeim verkefnum, sem hún hafði með höndum, en það er að gera framkvæmdaáætlun um endurbætur sláturhúsanna, tillögur um niðurröðun framkvæmda og áætla stofnkostnað og rekstursgrundvöll og svo tillögur um útvegun fjármagns til uppbyggingarinnar, þar sem m. a. sé reynt að tryggja óafturkræft framlag að einhverju leyti. Síðan raðar hún niður, telur upp ákveðin sláturhús, sem hún leggur áherzlu á, að endurbyggð verði í 1. áfanga. En þessi hús, sem byggja skal, eru alls 12, og þó 14, ef talin eru með tvö, sem áður hafa verið byggð upp. Áætlaður heildarkostnaður við þessa uppbyggingu eins og hann er á þeim tíma, þegar n. skilar áliti, er 217 millj. kr. eftir verðlagi í byrjun ársins 1970. Hugmyndir n. um fjáröflun eru í stuttu máli þær, að lagt verði á sérstakt verðjöfnunargjald á innvegið kjöt, sem nemur 40 aurum á hvert kg dilka- og geldfjárkjöts og 20 aurum á hvert kg ær- og hrútakjöts, og áætlar, að það gjald gefi um 5 millj. kr. tekjur á ári miðað við slátrun 1969. Síðan verði lagt ámóta gjald á kjötið í útsölu og loks, að til komi sérstakt framlag úr ríkissjóði, sem sé jafnhátt og báðir framantaldir tekjustofnar, eða um 10 millj. kr. Nú hefur það strax gerzt í verðbólgumálum síðan þetta er afgreitt, að hiklaust má reikna með, að verðhækkunin sé orðin 20–25% bara frá þeim tíma. En í þessu frv. er ekki tekið tillit til þessa á nokkurn hátt, en þvert á móti fellt niður framlag árið 1971. Það er fellt niður. Af þessu sýnist mér alveg ljóst, að þær greiðslur, sem frv. gerir ráð fyrir til framleiðnisjóðs, nægja ekki fyrir þessu eina verkefni. Við höfum álitið það, fulltrúar bænda, sem höfum unnið að þessu máli, að við hefðum loforð fyrir því, að ríkissjóður legði fram á móti til þessa verkefnis eins og það liggur fyrir í tillögum sláturhúsanefndar. Við höfum álitið, að þetta væri tryggt. En þegar litið er annars vegar á frv. og þetta eina afmarkaða verkefni, þá nægir ekki það fé, sem frv. gerir ráð fyrir, jafnvel þó að framlag kæmi árið 1971, það nægir ekki miðað við verðlagsþróunina eins og hún er orðin nú þegar í þetta eina afmarkaða verkefni og önnur verkefni eiga nálega enga von um fyrirgreiðslu frá sjóðnum í næsta áfanga gagnstætt því, sem sagt er í aths. með frv.

Ég skal nú ljúka máli mínu. En ég vil að lokum segja það, að ég vil alveg eindregið mælast til þess fyrir hönd okkar minni hl. landbn., að hæstv. landbrh. beiti sér fyrir því, að þetta mál verði athugað að nýju, áður en það er endanlega afgreitt hér frá Alþ. Ég get bara ekki séð, að það sé hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að afgreiða þetta mál á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, miðað við þau málsatvik, sem ég hef gert hér að umtalsefni. En við sem sagt leggjum það til, minni hl. n., að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem við flytjum á þskj. 329.