10.03.1971
Neðri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

13. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. sjútvn. á þskj. 455 með almennum fyrirvara eða áskilið mér rétt til þess að flytja eða styðja brtt. Meginástæðan fyrir þessum fyrirvara mínum er sú, sem hér hefur komið fram á Alþ. æði oft áður, þegar þessi mál hafa verið rædd, að ég er andvígur því kerfi, sem hér er um að ræða, og þar af leiðandi meginstofn þeirra útflutningsgjalda, sem þetta frv. fjallar um. Ég álít, að það eigi að stefna að því að lækka útflutningsgjöldin á sjávarafurðum mjög verulega frá því, sem nú er, og það eigi að leggja niður þetta almenna vátryggingakerfi, sem nú er byggt upp með þeim hætti, að fiskiskipin greiða gjöld til þessa tryggingakerfis í hlutfalli við framleiðslumagn sitt eða verðmætaöflun. Ég álít, að þetta kerfi sé á margan hátt óeðlilegt og óæskilegt og skoðun mín í þeim efnum hefur sem sagt ekki breytzt frá því, sem hér hefur komið fram áður. Það er orðið býsna athyglisvert að taka eftir því, að útflutningsgjöld á sjávarafurðum munu nú vera farin að nálgast 800–900 millj. kr. á ári. Þau 80% af útflutningsgjaldinu sjálfu, sem renna til vátryggingakerfisins, munu nema á þessu ári samkv. áætlun 357 millj. kr. En þar er sem sagt aðeins um að ræða 80% af þessu svo nefnda útflutningsgjaldi, en til viðbótar við það koma svo önnur útflutningsgjöld, sem heita öðrum nöfnum, eins og sérstök útflutningsgjöld til Aflatryggingasjóðs og áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs, en til þeirra aðila munu renna gjöld, sem nema í kringum 300-400 millj. kr. á ári eins og nú er komið. Það er mín skoðun, að þessi háttur með útflutningsgjöldin sé rangur og það beri að losa sig við þetta. En nú er yfirleitt enn stefnt í öfuga átt, því að enn er verið að hækka þessi gjöld, og það er alveg greinilegt, að öll tilhneiging er sú, að þetta hækki svo að segja frá ári til árs. Kerfin eru þannig uppbyggð, að þau munu gjarnan kalla á það.

Það er býsna athyglisvert líka í sambandi við þetta frv., sem er í rauninni staðfesting á brbl., sem gefin voru út á s. l. ári, að þá voru sett brbl., sem miðuðu að því að hækka útflutningsgjaldið á sjávarafurðum, vegna þess að það væri fyrirsjáanlegur halli, en í ljós kemur, að einmitt þetta ár, árið 1970, er eina árið, sem þetta tryggingakerfi hefur jafnmiklar tekjur og útgjöld. En samt er þotið til að setja brbl. til þess að hækka útflutningsgjaldið og það á þeim tíma, sem verðmæti útflutningsins fór bæði vaxandi og einnig jókst að verðmætum. Ég tel því, að það hafi ekki verið bein þörf á því að setja þessi brbl., en hitt er hins vegar rétt, að það kom vitanlega til mála að gera vissar breytingar á l., koma þar fram ýmsum lagfæringum, sem ég tel, að felist þó í þessu frv. eins og það kemur nú frá Ed. og frá sjútvn. þessarar d. Í frv. felst þó leiðrétting í nokkrum gr., sem nauðsynlegt var að vinna að.

Ég hafði flutt hér brtt. við frv. á þskj. 460, þar sem ráð var fyrir því gert að fella niður útflutningsgjöld með öllu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum. Ég tel, að þar sé um slíka framleiðslu að ræða, að það sé full ástæða til þess að undanþiggja hana þessum gjöldum. Þessi framleiðsla er ung að árum hér og reynsla er heldur lítil. Hér er yfirleitt um nýgræðing að ræða í okkar framleiðslukerfi, og það mun yfirleitt standa glöggt, eins og oft vill verða með þá, sem eru að byrja og verða að glíma við margvíslega byrjunarerfiðleika, að það stendur svo glöggt, að við sjálft liggur, að verksmiðjurnar séu ekki reknar með fullum afköstum og sumar hverjar eru það alls ekki. Ég tel því, að það sé full ástæða til þess að hlífa þessari framleiðslu við þessum sérstöku útflutningsgjöldum. En þar sem það liggur fyrir, eins og hér kom fram hjá frsm. sjútvn., að n. hefur enn til athugunar að létta með einum eða öðrum hætti útflutningsgjöldum af þessari framleiðslu, t. d. að lækka þau gjöld, sem renna til Aflatryggingasjóðs og áhafnadeildar, þá mun ég draga aftur þessa till. mína á meðan málið er í athugun hjá sjútvn. En ég tel, að það sé full þörf á því að draga úr skattlagningu á þessari framleiðslugrein.

Ég get því stutt fyrir mitt leyti þær leiðréttingar, sem ég tel, að felist í þessu frv. frá því, sem verið hefur, en er andvígur allri hækkun á þessum gjöldum og er andvígur þessu kerfi sem heild.