08.03.1971
Efri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

187. mál, Hótel- og veitingaskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar samkvæmt einróma meðmælum hv. menntmn. þeirrar deildar.

Matsveina- og veitingaþjónaskólinn var settur undir menntmrn. árið 1969 með reglugerð, sem sett var samkvæmt lögum um stjórnarráðið. Það hefur komið í ljós, að gildandi löggjöf um Matsveina- og veitingaþjónaskólann er orðin úrelt. Það, sem fyrst og fremst veldur því, er sú staðreynd, að á undanförnum árum hefur veitingaþjónusta stóraukizt hér á landi og hvers konar þjónusta við ferðamenn. Hótelum í landinu hefur fjölgað stórkostlega og hótelhald og ferðamannaþjónusta er að verða í ríkara og ríkara mæli mjög þýðingarmikil atvinnugrein. Það hefur komið í ljós, að Matsveina- og veitingaþjónaskólinn, eins og hann hefur verið skipulagður og starfræktur fram að þessu, getur ekki veitt matsveinum og veitingaþjónum þá menntun, sem nú er talin vera æskileg á þessu sviði. Þess vegna þótti rétt að endurskoða þessi lög, og skipaði menntmrn. í maí s. l. eftirtalda menn til að endurskoða löggjöf um skólann: Tryggva Þorfinnsson, skólastjóra Matsveina- og veitingaþjónaskólans, Tryggva Jónsson, sem tilnefndur var af Félagi matreiðslumanna, Jón Maríasson, sem tilnefndur var af Félagi framreiðslumanna, og Sigurjón Ragnarsson, sem skipaður var samkvæmt tilnefningu Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda, Óskar Hallgrímsson, formann iðnfræðsluráðs og Runólf Þórarinsson, fulltrúa í menntmrn., og var hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Hinn 2. des. s. l. skilaði n. áliti, sem hún stóð öll að, og voru till. hennar fluttar í óbreyttu formi í hv. Nd. Í sem fæstum orðum má segja, að meginbreytingin, sem ætlazt er til, að verði á starfsemi skólans, þegar þetta frv. nær fram að ganga, sé sú, að skólanum er veitt aðstaða til þess að geta veitt fræðslu öllu því starfsfólki, sem innir af hendi ýmiss konar þjónustustörf í hótel- og veitingastarfsemi, þ. á m. í farþegaskipum, flugvélum, og enn fremur er mjög mikilsvert nýmæli í þessu frv. Það er það nýmæli, að skólanum er falið að mennta matráðskonur, en þeirri stétt fer mjög fjölgandi hér á landi með vaxandi verkefnum á því sviði, og er nauðsyn á mjög bættri aðstöðu til þess að mennta matráðskonur. Þá er einnig nýmæli um það í frv., að starfræktar verði framhaldsdeildir, eins konar meistaraskóli fyrir framreiðslu- og matreiðslumenn. Þá er þriðja nýmælið í frv., að skólanum er veitt heimild til þess, að fengnu samþykki rn., að veita fræðslu í skyldum greinum matvælaiðnaðar, svo sem brauð- og kökugerð og kjötiðnaði. Höfundar frv. töldu, að það væri mjög æskilegt, að fræðsla í þessum greinum færi fram í einum og sama skóla, þar sem unnt yrði að nota sömu tæki, skólinn þarf hvort eð er á þeim tækjum að halda, sem nauðsynleg eru við slíka kennslu.

Þá er að síðustu rétt að geta þess, sem einnig er nýmæli í frv., að ráðherra er þar veitt heimild til að ákveða, að skólinn starfræki veitingahús og hótel af hæfilegri stærð. Er þetta ákvæði tekið inn til þess að auðvelda skólanum verklega kennslu, en slík kennsla er mjög dýr, nema hægt sé að selja það, sem framleitt er. Þess vegna er talið hagkvæmt, þó að ekki verði það kannske alveg á næstunni, í beinu framhaldi af samþykkt laganna, þá er engu að síður rétt að gera ráð fyrir því, að skólinn geti starfrækt hótel, til þess að verkleg kennsla geti orðið sem ódýrust og haganlegust.

Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að þetta frv. horfi til mikilla framfara og bóta í nýrri og mjög mikilvægri atvinnugrein, — atvinnugrein, sem er að vaxa mjög fiskur um hrygg í íslenzkri hótelstarfsemi og þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn. Þess vegna leyfi ég mér að vænta þess, að frv. hljóti góðar móttökur hér í þessari hv. d., eins og það hlaut í hv. Nd., en þar var frv. samþ. shlj. Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.