24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

73. mál, útvarpslög

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Starfsemi Ríkisútvarpsins hefur á undanförnum árum vaxið hröðum skrefum. Hljóðvarpsdagskrá hefur verið lengd í 16–17 stundir á sólarhring, og sjónvarp hefur komið til sögunnar. Skráðir notendur hljóðvarps eru nú um 62 þús., en hljóðvarpstæki af öllum stærðum og gerðum eru án efa yfir 100 þús. í landinu.

Skráðir notendur sjónvarps eru hins vegar rétt um 40 þús. Starfsfólk Ríkisútvarpsins er í dag 209 manns, sem er rúmlega 1 af hverju þúsundi landsmanna. Er það mun hærra hlutfall en hjá grannþjóðum okkar, sem von er.

Heildarvelta Ríkisútvarpsins á þessu ári er áætluð 267 millj. kr., en ekki er fráleitt að telja, að íslenzka þjóðin verji, þegar tækjakaup og tækjaviðgerðir bætast við, alls um 400 millj. kr. til hljóðvarps og sjónvarps.

Jafnframt aukinni starfsemi hafa áhrif Ríkisútvarpsins á daglegt líf þjóðarinnar, skoðanamyndun, upplýsingu og aðra menningarviðleitni, vaxið til mikilla muna. Er því engan veginn ofmælt, þó að sagt sé, að Ríkisútvarpið sé í dag ein af þýðingarmestu stofnunum þjóðarinnar.

Nýlega hefur verið gerð fyrsta ítarlega athugunin á notkun Íslendinga á hljóðvarpi og sjónvarpi. Með aðstoð sænskra sérfræðinga var könnuð ein vika í nóvembermánuði, og er mikill fróðleikur að niðurstöðum þeim, sem þeir komust að. Þessi könnun náði eingöngu til Íslendinga á aldrinum 14–79 ára, af því að erfitt er að spyrja yngri börn um hlustun og notkun sjónvarps. Samkvæmt henni má ætla, að daglega hlusti 60–70 þús. manns á hádegis- og kvöldfréttir hljóðvarpsins og stundum fer sú tala um og yfir 80 þús. Að jafnaði virðast 65–70 þús. manns horfa á fréttir sjónvarpsins. Í þeirri viku í nóvember, sem könnuð var, flutti sjónvarpið þátt, þar sem Ólafur Jóhannesson, formaður Framsfl., sat fyrir svörum. Könnunin leiddi í ljós, að um 56 þús. manns hafi horft á þennan þátt frá byrjun til enda, og er þetta sannarlega mikill áhorfendafjöldi á sama tíma sem stjórnmálamenn í flestum eða öllum flokkum telja það oft á tíðum sæmilegt að fá ekki 56 þúsund, heldur 56 manns á fund.

Könnunin gaf til kynna, að um 30% hefðu horft á þetta viðtal við flokksformanninn, en þessir aldursflokkar undir 24 ára aldri nota yfirleitt sjónvarp mun minna heldur en eldri landsmenn. Hins vegar benti könnunin til þess, að um 55% af þeim, sem eru 45 ára eða eldri, hefðu horft á þennan þátt. Voru það töluvert fleiri karlmenn en konur, sem horfðu, og allmiklu meira utan Reykjavíkur en í Reykjavík. Fyrir utan fréttir reyndist aðeins vera einn dagskrárliður alla þessa viku, sem fleiri horfðu á heldur en þetta innlenda stjórnmálaefni. Það var norskt leikrit, sem flutt var á sunnudegi, sem reyndist vera langmesti sjónvarpsdagur vikunnar.

Þátturinn Munir og minjar, sem allir munu kannast við, hafði álíka marga áhorfendur og formaður Framsfl., en af því fólki, sem könnunin náði til, þ. e. á aldrinum 14–79 ára, horfðu fleiri á þennan innlenda stjórnmálaforingja heldur en á Churchill-ættina, Fljúgandi furðuhluti eða Mannix, og kann að vera, að þetta þyki ýmsum heldur góðar fréttir. Þetta sýnir, hversu íslenzkt efni í sjónvarpi hefur mikla útbreiðslu, og má nærri geta, hver áhrif þess í raun og veru eru eða geta verið. Ég nefni þessar upplýsingar aðeins til að leggja áherzlu á nauðsyn þess, að þjóðinni takist að finna lýðræðislegt og gott stjórnarform fyrir dagskrá hljóðvarps og sjónvarps, svo að hún geti borið traust til Ríkisútvarpsins sem stofnunar og það geti gegnt hlutverki sínu sem bezt.

Ríkisútvarpið starfar eftir lögum frá árinu 1934, sem að vísu hefur nokkrum sinnum verið breytt í einstökum atriðum, en aldrei í heild á þessu tímabili. Nú um árabil hefur verið talið hyggilegt að láta endurskoðun þessara laga bíða, unz nokkur reynsla fengist af sjónvarpi við íslenzkar aðstæður. Nú hefur verið samið frv. til nýrra útvarpslaga, og er það að langmestu leyti nýsmíði. Frv. var lagt fram á síðasta þingi og hefur því gefizt gott tóm til þess að íhuga það og skoða. Sérstaklega er vert að geta þess, að útvarpsráð og útvarpsstjóri hafa rætt frv. ítarlega og komið á framfæri hugmyndum sínum. Þessir aðilar hafa látið í ljós þá almennu skoðun, að frv. í heild sé mikil bót á gildandi lögum og feli í sér margar merkar nýjungar. Sé því mikils virði, að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Hins vegar hafa komið fram við umræður um málið nokkrar brtt., sem áðurnefndir aðilar eru ekki að öllu leyti sammála um.

Menntmn. þessarar hv. d. hefur fjallað ítarlega um frv. til útvarpslaga, fengið álitsgerðir og tillögur útvarpsráðs og útvarpsstjóra, svo og erindi frá ýmsum öðrum aðilum og loks leitað sér upplýsinga hjá stofnunum og einstaklingum. N. skilar shlj. áliti um frv. í heild, en einstakir nm. hafa þó fyrirvara um nokkur atriði, eins og vafalaust mun fram koma í þessum umr.

Allmargar brtt. hefur menntmn. flutt, og eru nokkrar þeirra aðeins leiðréttingar eða breytingar á orðalagi, aðrar eru veigalitlar efnisbreytingar, en loks eru nokkrar, sem telja verður að fjalli um þýðingarmikil atriði frv. Skal ég nú gera grein fyrir tillögunum, en þær er að finna á þskj. 356.

1. till. er við 3. gr. Það er nýjung að festa í lög ákvæði um tilgang og stefnu ríkisútvarps, og hefur það enn ekki verið gert í nágrannalöndum okkar, þótt víða sé mikið um það talað. Þessi gr. er því að mörgu leyti mjög merkileg, ef Alþ. samþykkir hana. Brtt., sem n. gerir, er aðeins um orðalag, en ekki raunverulegar efnisbreytingar, nema B-liðurinn, sem þarfnast ekki skýringa. Nú í dag hefur verið borin fram þingmannabrtt. við þessa gr., sem ég mun ekki ræða að sinni.

2. till. er við 4. gr. Fyrri liðurinn er leiðrétting á orðalagi. Síðari liðurinn fjallar um útgáfu á reglum um fréttir og auglýsingar. Er þar í raun og veru ekki um breytingu að ræða, heldur aðeins sett inn í lögin sjálf það sem verið hefur í reglugerð og ætlunin var að hafa áfram í reglugerð, en um þetta komu fram skýrar óskir frá menntmn.

3. till., um 5. gr., fjallar um skipun útvarpsráðs og er vafalaust veigamest og umdeildust af þeim brtt., sem fram hafa verið lagðar við frv. Menntmn. er raunar ekki einhuga um þessa tillögu. Fjórir voru með henni, þrír á móti, þegar hún var afgr. úr n. Tillagan er á þá lund, að í stað 7 manna útvarpsráðs skuli Alþ. kjósa 15 manna ráð. Í stað þess að útvarpsráð kemur að jafnaði saman vikulega, skuli það koma saman í heild aðeins einu sinni í mánuði, en skipta sér síðan í 2 dagskrárnefndir, aðra fyrir hljóðvarp og hina fyrir sjónvarp, er starfi hinar þrjár vikurnar. Útvarpsráðsmenn gætu skipzt á um sæti í þessum nefndum t. d. á eins eða tveggja ára fresti. Útvarpsráð skuli kosið til 4 ára, en ekki eftir hverjar þingkosningar, en í fyrsta sinn að loknum þeim kosningum, sem fram fara á vori komanda.

Síðan til komu tvær langar og miklar dagskrár hljóðvarps og sjónvarps, hefur verkefni útvarpsráðs, að móta þessar dagskrár í meginatriðum, fylgjast með þeim og bera ábyrgð á þeim, aukizt til mikilla muna. Annaðhvort verður nú að fjölga fundum útvarpsráðs og stórauka starfsemi og kostnað við það eða að kalla til fleira fólk og dreifa þessu starfi á fleiri herðar. Starfslið við dagskrá Ríkisútvarpsins er svo fátt, að nauðsynlegt er að koma á og halda við raunhæfum samráðum þess við leikmenn, kjörna af Alþ., en það þarf að vera um samfellt starf að ræða. Ætti sú skipun, sem hér er lögð til, að veita mun meira öryggi í dagskrárgerð, t. d. í vali á sjónvarpsmyndum, og vera öllum aðilum, bæði stofnuninni og fólkinu í landinu, til góðs. Útvarpsráð hefur oft verið gagnrýnt fyrir þá sök, að það sé að mestu skipað fulltrúum stjórnmálaflokka. Þetta er óneitanlega rétt, og ég hygg, að í 15 manna hóp mundi þessa galla gæta mun minna. Það er nauðsynlegt, að útvarpsráð njóti sæmilegs trausts með þjóðinni, en sé ekki talið vera handbendi flokksvaldsins. Með fjölgun í útvarpsráði mundu aukast líkur á, að mismunandi aðilar í þjóðfélagi okkar eignist þar fulltrúa og má nefna sem dæmi, að bæði konur og unga kynslóðin ættu að sjálfsögðu að eiga þar sæti, en svo er ekki í dag.

Að lokum vil ég geta þess, að sú skipun, sem hér er gerð tillaga um, er nauðalík því, sem tíðkast í næstu löndum, svo sem í Danmörku og Noregi. Útvarpsráð er ekki venjuleg stjórn opinberrar stofnunar og á sér enga hliðstæðu í íslenzka ríkiskerfinu, og það skapar því ekki fordæmi, ef það yrði skipað 15 manns.

Ríkisútvarpið hefur á nokkrum síðustu árum orðið að nútíma fjölmiðlunartæki, sem hefur mikil áhrif á þjóðlíf og einstaklinga hvern dag. Þetta er nýtt þjóðfélagsfyrirbrigði, og það verður að skipa málum þess með nýjum hugmyndum. Þess vegna bið ég hv. alþm. að líta með opnum huga á þetta mál og hugsa til framtíðarinnar, er þeir taka afstöðu til þess. Útvarpslög hafa stundum þurft að endast lengi. Ef þau lög, sem nú verða væntanlega sett, eiga að vera í gildi að meginstofni til eins lengi og gömlu lögin hafa verið í gildi, þá verða ný lög ekki sett fyrr en árið 2008.

4. brtt. er við 6. gr. og fjallar um veigamikil atriði, er snerta sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum. Er það meginhugsun þessa frv., að ráðh. hafi æðstu stjórn á rekstri og fjármálum útvarpsins, en hið þingkjörna útvarpsráð hafi æðsta vald um dagskrárefni. Þetta hefur raunar verið svo í framkvæmd, a. m. k. síðustu 15 árin, en nú er lagt til, að það verði staðfest í lögum. Hingað til hefur verið ákvæði í lögum þess efnis, að snerti ákvarðanir útvarpsráðs mjög fjárhag stofnunarinnar geti útvarpsstjóri áfrýjað þeim til ráðh. Lagt er til að fella þetta nú niður, en því verður þó ekki breytt, að útvarpsstjóri ber meginábyrgð á fjárhag stofnunarinnar og framkvæmd dagskrár, svo að útvarpsráð hlýtur að sjálfsögðu að fara mjög eftir tillögum hans í þeim efnum, er fjárhaginn varða.

5. brtt. er við 7. gr. og fjallar um skipun starfsmanna við Ríkisútvarpið. Í frv. er lagt til, að menntmrh. skipi þá, sem eru í 16. launaflokki eða hærri. Útvarpsráð lagði til, að þetta næði aðeins til framkvæmdastjóra, sem eru þrír, en útvarpsstjóri ráði aðra starfsmenn.

6., 7. og 8. brtt. eru um orðalag eða leiðréttingar. Þarf ekki að fjölyrða um þær.

9. brtt. er einnig um viðbót, sem má kalla leiðréttingu.

Og kem ég þá að 10. brtt., sem er við 14. gr., en þar er lagt til, að 5% af brúttótekjum stofnunarinnar, en ekki aðeins 5% afnotagjalda, eins og áður var, renni í framkvæmdasjóð til húsbygginga. Stjórn Ríkisútvarpsins og hljóðvarpsdeild eru enn eftir 40 ára starf í leiguhúsnæði. Hefur nú verið skipuð byggingarnefnd, og verður með þessu ákvæði að tryggja fé til framkvæmda.

Í 11. brtt., sem er við 15. gr., er lagt til, að heimilt verði að undanþiggja afnotagjöldum alla þá, sem hljóta uppbót á elli- eða örorkulífeyri samkv. 21. gr. tryggingalaganna. Er þetta efnaminnsta fólkið, sem þarna kemur til greina, og ákveður Tryggingastofnun ríkisins bætur þess og heldur skrá yfir það. Er þetta allveigamikill stuðningur við efnalítil gamalmenni og öryrkja, því afnotagjöld sjónvarps og hljóðvarps hafa numið allt að 4 þús. kr. á ári.

12. brtt. er við 16. gr. og er þríþætt. 1. liðurinn er lagfæring á málfari. 2. liðurinn fellir niður skyldur notenda um að tilkynna Ríkisútvarpinu bústaðaskipti. Hefur tekizt samstarf á milli útvarpsins og þjóðskrár, svo að þetta ákvæði er nú talið óþarft. 3. liðurinn er þess efnis; að seljendur sjónvarps- eða hljóðvarpsviðtækja skuli tilkynna sölu tækjanna mánaðarlega. Hefur reynslan leitt í ljós, að slíkt ákvæði er nauðsynlegt. Enda þótt langflest fyrirtæki, sem verzla með hljóðvarps- og sjónvarpsviðtæki, gegni skyldu þessari með góðum skilum, þá hefur komið fyrir alvarlegur misbrestur á því. Sem dæmi get ég nefnt, að innheimtudeild Ríkisútvarpsins á nú einmitt í máli við eitt fyrirtæki í Reykjavík, sem vanrækti að tilkynna sölu á yfir 1 þús. sjónvarpstækjum í meira en ár, og þessi vanræksla hefur valdið Ríkisútvarpinu tjóni, sem getur numið meira en 3 millj. kr., vegna afnotagjalda, sem ekki var hægt að innheimta. Samkvæmt gildandi lögum er talið unnt að refsa þessu fyrirtæki með 500 kr. sekt og vísitöluálagi frá gildistöku gömlu útvarpslaganna, en kaupendur tækjanna gætu átt meira á hættu. Ætti þetta dæmi að nægja til þess að sýna fram á, að þessi mál verða að vera í föstum skorðum.

13. brtt., við 17. gr., er um málfar, en 14. till., við 18. gr., er um veigamikið efnisatriði. Samkvæmt að ganga fyrir öllum öðrum rétti. Seljendur sjónvarpsviðtækja hafa bent á, að sala tækjanna með afborgunarskilmálum mundi torveldast eða jafnvel stöðvast, ef þetta ákvæði væri óbreytt. Hefur menntmn. því talið rétt að fallast á þessa ábendingu og gerir tillögu um, að veðréttur Ríkisútvarpsins komi á eftir eignarréttarfyrirvörum, sem oftast fylgja afborgunarskilmálum. M. ö. o. reynt er að greiða fyrir því eins og hægt er, að tækin seljist með afborgunarskilmálum fyrir þá, sem það vilja, en hert mjög á því, að seljendur geri grein fyrir sölu þeirra, svo að innheimta afnotagjalda geti gengið eðlilega fyrir sig.

15. brtt. er við 20. gr. og kemur þar orðið „eindagi“ í staðinn fyrir „gjalddaga“, en það er notendum að sjálfsögðu nokkuð í hag. Síðasta brtt., við 24. gr., er framhald af því, sem ég þegar hef sagt um tilkynningarskyldu þeirra, sem selja viðtæki. Er lagt til, að lágmarkssektir fyrir slík brot geti numið sem svarar verðgildi 3–4 sjónvarpstækja og er það varla of hart á tekið.

Ég hef þá gert grein fyrir brtt. menntmn. við frv. Þær eru 16 talsins, en í raun réttri er aðeins um 4 veruleg efnisatriði að ræða í þessum tillögum. Einstakir nm. hafa fyrirvara um nokkur atriði og standa að viðbótartillögum, sem ég mun ekki gera að umtalsefni á þessu stigi.

Að lokum vil ég enn á ný biðja hv. alþm. að íhuga vandlega, hversu þýðingarmikið tæki hljóðvarp og sjónvarp er og hver áhrif þessi stofnun hefur á uppeldi barna okkar og líf okkar allra. Til slíkrar stofnunar verður þjóðin að vanda, skapa henni sem bezt starfsskilyrði og leggja sem mesta alúð við mótun þess efnis, sem okkur verður flutt. Hver sem niðurstaða Alþ. verður um einstakar brtt., sem fram eru komnar, þá vona ég og treysti því, að frv. verði að lögum á þessu þingi, því að mörg af þýðingarmestu ákvæðum þess eru óumdeild.